05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar: Stóra skrefið

Líkt og margir forverar okkar í starfi fluttum við hjónin fyrir ári síðan til fyrirheitna landsins, Svíþjóðar, í leit að frekari sérhæfingu innan læknisfræðinnar. Við vorum einstaklega frumleg í vali á sérhæfingu og fetuðum bæði í spor foreldra okkar. Eins og flest ungviði tókum við okkar uppreisnartímabil þar sem við reyndum að velja sérhæfingu sem var meira „cool“ en það sem foreldrarnir völdu. En að lokum sækir líkur líkan heim og ég fór í sérnám í lyf- og gigtlækningum eins og pabbi á meðan Þorbjörg valdi sér augnlækningar líkt og mamma hennar.

Við val á sérgrein spilaði líka stórt hlutverk sá öflugi hópur gigtarlækna sem fyrir eru heima á Íslandi, sem með mikilli kennslugleði og smitandi áhuga kynntu mig fyrir faginu – hvort sem það var í klíník eða rannsóknum. Hér gefst ekki orðafjöldi til að telja þau öll upp, en þau vita hver þau eru. Þegar kominn var tími á að fara út í sérnám fór af stað mikil rannsóknarvinna til að finna stað sem hentaði okkur báðum. Að lokum var stefnan sett á Lund og við tók nokkurra mánaða ferli með heimsóknum þangað og reglulegum tölvupóstsamskiptum. Að lokum fengum við bæði stöðu svo við stukkum til. Okkur til mikillar ánægju flutti litla systir mín, Hulda, líka til Lundar í sérnám tæpu ári á eftir okkur. Hún valdi sér nýrnalækningar og telur hún að sér hafi tekist betur að forðast foreldraáhrifin (þó að áhugi hennar liggi í æðabólgusjúkdómum – en það er önnur saga).

Við fluttum út í sænska vorið og það auðveldaði flutningana mikið að við vorum búin að fá leikskólapláss í Lundi áður en við fluttum út – heilum 7 dögum eftir að við sendum fyrsta tölvupóstinn. Eins og sannur Íslendingur fann sonur okkar fljótt íslensku krakkana þar. Mynda þau nú lítið Íslendingafélag í leikskólanum þar sem að þau koma sér saman um ýmis prakkarastrik á íslensku svo að leikskólakennararnir skilji ekki neitt.

Við kynntumst fljótt sænskri skriffinnsku. Fyrstu mánuðina unnum við að því að fá viðeigandi pappíra, skjöl og skilríki sem þarf til að gerast gildur meðlimur í sænsku samfélagi. Samfélagi þar sem ekki er hægt kaupa mat í sjálfsala né borga fyrir klippingu án rafrænna skilríkja. En eftir hálft ár var maður loksins kominn með þau skilríki sem þarf til að fá heimpantaða kebabpizzu. Í gegnum þetta ferli höfum við þó lært að „þetta reddast” er ekki hugtak sem þekkist meðal Svía og þeir eiga jafnvel í basli með að skilja hugtakið þegar maður útskýrir það.

Að læra nýjar starfsvenjur, verkferla og skipulag heilbrigðiskerfisins krefst fyrirhafnar. Ekki bætir úr skák þegar tungumálið þvælist fyrir. Mín bjagaða barnasænska þurfti nokkra mánuði í aðlögun til að verða nothæf. Fyrstu vikurnar fór það mikil orka í að reyna skilja og að gera sig skiljanlegan á sænskunni að maður valdi að borða ekki í matsalnum til þess að geta fengið smá pásu til að hugsa á íslensku. Þetta er þó greinilega algengt vandamál hjá okkur „útlensku” læknunum þar sem kollegar Þorbjargar bentu henni á hvíldarherbergi á augndeildinni sem margir útlenskir læknar nýttu fyrstu mánuðina til að þurfa ekki að tala meiri sænsku í hádeginu.

En eftir eitt ár er maður búinn að koma sér betur inn í kerfið og sænskt samfélag. Strákurinn minn er farinn að leiðrétta sænsku pabba síns og vill að pabbi leiki ákveðna leiki við sig á sænsku.

Við hjónin erum farin að læra á sænska kassann og farin að kunna að meta kosti hans. Það er fínt að hafa dagatalið vel skipulagt og í föstum skorðum. Barnaafmæli kl. 13 eftir tvo mánuði, fyrirlestur eftir hálft ár, vaktaóskir eitt ár fram í tímann, og niðurröðun á rótation næstu þrjú árin. Kannski þurfa hlutir ekki alltaf að reddast ef maður hefur smá skipulag? Á góðum degi í Lundi. - Frá vinstri: Hulda Hrund Björnsdóttir, Aron Hjalti Björnsson, Björn Ólafur Hjaltason, Þorbjörg Ólafsdóttir, Eydís Huld Hjaltadóttir. Myndina tók Jón Hlöðver Friðriksson.Þetta vefsvæði byggir á Eplica