05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín: Ónæmisfræði: augljóst val

Hvernig varð sérgrein þín sem læknir fyrir valinu? Hvar lærðir þú?


Þegar ég kynntist ónæmisfræði á þriðja ári í læknisfræði varð ljóst hvert ég myndi stefna. Helgi Valdimarsson og Björn Rúnar Lúðvíksson kenndu námskeiðið og þrátt fyrir að vera flókið og framandi fannst mér það á sama tíma svo einstaklega heillandi. Allar ósvöruðu spurningarnar, stöðug þróun og nýjar uppgvötvanir hafa heillað mig frá upphafi. Skilningur okkar á ónæmisfræði hefur tekið stakkaskiptum síðasta áratug og við erum enn í dag að uppgvötva nýja virkni þess. Í dag getum við erfðabreytt T-eitilfrumum krabbameinssjúklinga svo þær þekki og ráðist á krabbameinið og varðstöðvahemlar hafa stórbreytt meðferð sortuæxla og sumra lungnakrabbameina. Ennfremur fer notkun ónæmisvirkra meðferða við ýmsum sjúkdómum hratt vaxandi. Þessar framfarir í ónæmisfræði eru einstakar innan læknisfræðinnar.

Rannsóknarverkefni mitt í læknadeild vann ég á ónæmisfræðideildinni með frábæru samstarfsfólki undir handleiðslu Björns Rúnars. Þar lærði ég fyrst að vinna á rannsóknarstofu og mikilvægi þess að vera forvitin og að beita gagrýnni hugsun. Þegar ég kynntist barnalækningum varð ekki aftur snúið. Við fæðumst með lítt þroskað ónæmiskerfi sem þarf að læra hratt og mér fannst ekkert annað koma til greina en að sinna börnum og ónæmiskerfi þeirra. Hvar annars staðar fær maður líka að blása sápukúlur í vinnunni?

Ég fór í sérnám í barnalækningum í Hartford, Connecticut, í Bandaríkjunum. Þar undi ég mér vel og námið var skemmtilegt og gott. Sérnám í ofnæmis- og ónæmisfræði stundaði ég síðan við Children's Hospital of Philadelphia (CHOP) í Bandaríkjunum. Sá staður hentaði mér fullkomlega. Betri stað fyrir sérnámið mitt gæti ég ekki ímyndað mér. Einstakir kennarar og leiðbeinendur, fremstir á sínu sviði og ótrúlegur fjölbreytileiki viðfangsefna. Það sem er mér eftirminnilegast er að færustu kennararnir voru bæði auðmjúkir og fróðleiksfúsir. Það er svo margt sem við ekki vitum eða skiljum og það er það sem er svo spennandi við ónæmisfræði. Í dag starfa ég á ónæmisfræðideild Landspítalans að mestu en er einnig með stofurekstur í Domus-barnalæknum og kenni við læknadeild Háskóla Íslands.

Rannsóknarvinna var hluti af sérnáminu mínu á CHOP. Rannsóknarverkefni mitt sneri að erfðum algengs ofnæmisbrests (Common Variable Immunode-
ficiency, CVID). Leiðbeinandi minn þar, Hákon Hákonarson, var frábær og verk-efnið kenndi mér margt. Að loknu sérnámi í Bandaríkjunum lá leiðin til Osló í Noregi í doktorsnám við Háskólann í Osló í ónæmisfræði krabbameina. Þar vann ég að þróun á krabbameinsmeðferð með erfðabreyttum T-frumum. Þetta er heillandi og mögnuð nýjung og heimur læknisfræðinnar á eftir að umbyltast er við náum betri færni í að stýra og beita ónæmisfræðilegum meðferðum. Slíkt mun ekki einskorðast við ónæmisgalla eða krabbamein heldur taka til fjölmargra sjúkdómahópa, svo sem sjálfsónæmis og allra bólgusjúkdóma og sýkinga. Það er til mikils að vinna að skilja betur ónæmiskerfið og hvernig beita má því til lækninga. Framtíðin er afar spennandi og okkur vantar sárlega liðsauka!Þetta vefsvæði byggir á Eplica