05. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín: Ofnæmis- og ónæmislækningar sérgrein tækifæranna
Hvernig varð sérgrein þín sem læknir fyrir valinu? Hvar lærðir þú? Hvaða ráð gefa þú ungum læknum?
Ég ólst upp í stórum systkinahópi úti í sveit. Þar var oft þörf á læknishjálp og móðir mín kveikti fyrst hjá mér hugmyndina um að verða barnalæknir. Hún hafði áhuga á læknisfræði og las sér gjarnan til í bókinni Heilsurækt og mannamein – Læknisfræði nútímans fyrir almenning, gefin út í umsjón Nielsar Dungal árið 1943. Bókina fékk hún frá móður sinni, ömmu Hildi Jónsdóttur, ljósmóður í Álftaveri. Mamma notaði sína þekkingu bæði fyrir börnin og húsdýrin í sveitinni. Hún hefði orðið góður læknir.
Læknanámið var líflegur tími. Sem unglæknir vann ég eitt ár á barnadeild Landspítala þar sem ég kynntist frábærum og skemmtilegum læknum sem urðu mér fyrirmyndir í starfi. Mér er minnisstæð bráðamóttakan í herbergi fyrir framan 12E. Þar komu börn á hverri vakt með astma. Þeim var gefið Bricanyl og Theophilamín eða adrenalín ef þau voru í status asthmaticus. Um það leyti var Björn Árdal nýkominn heim með sérfræðiþekkingu í ofnæmi og astma. Hann kynnti okkur innúðameðferð með ventolíni og beclomethason. Mér fannst áhugavert að sjá einkennin hverfa á stuttum tíma, sem vakti forvitni mína og varð til þess að ég fór í ofnæmis- og ónæmislækningar í framhaldi af barnalækningum sem ég nam við University of Connecticut í Hartford.
Helstu áhrifavaldar við val á sérgreinum voru Hörður Bergsteinsson, sem hefur verið lykillinn að Hartford fyrir íslenska barnalækna, og Björn Árdal. Ofnæmis- og ónæmislækningar nam ég síðan við University of Pittsburgh, Children‘s Hospital í Pennsylvaníu. Mínir aðal mentorar voru Philip Fireman barnalæknir og prófessor í ofnæmis- og ónæmislækningum og Gilbert Friday, lyflæknir, ofnæmis- og ónæmislæknir, báðir með mikla og dýrmæta reynslu og frábærir kennimeistarar.
Í Pittsburgh sá ég mest börn með astma, ofnæmi og ónæmisbilanir en þangað komu einnig fullorðnir sjúklingar auk þess sem ég var tíma á deildum fyrir fullorðna. Þar steig ég mín fyrstu skref í ónæmisrannsóknum sem tengdust pneumókokkum en á ónæmisfræðideild Landspítala tók ég þátt í fjölda rannsókna á pneumókokkabóluefnum, sem lagði grunninn að doktorsritgerð minni á Íslandi.
Við Lárus, eiginmaður minn, fluttum með tvo syni heim til Íslands sumarið 1991. Ég byrjaði strax á ónæmisfræðideildinni þar sem ég hef verið síðan. Það voru forréttindi að starfa hjá Helga Valdimarssyni en rannsóknir áttu hug hans allan og allir sem unnu hjá honum höfðu rannsóknarskyldur. Ég hef verið svo lánsöm að geta stundað rannsóknir á hugðarefnum mínum, meðal annars alþjóðlegar rannsóknir á fæðuofnæmi.
Jafnframt starfi mínu á ónæmisfræðideildinni opnaði ég sérfræðistofu á móti Birni Árdal sem tók mér opnum örmum. Ég auglýsti aldrei því hann var einn fyrir og sá ekki út úr verkefnunum. Sjúklingafjöldi minn varð strax mikill og ég naut þess að fá til mín börn og vinna hug þeirra. Það hefur verið áhugavert að sinna flóknum sjúklingum og jafnframt að vinna á deild þar sem hægt er að gera allar rannsóknir á ónæmiskerfi þeirra til að greina sjúkdóma. Það hefur ýmsa kosti að vinna á stofu, gefur til dæmis ákveðið sjálfstæði en tengingin við akademíska stofnun gerir starfið enn áhugaverðara.
Framþróunin í ónæmisfræði, ofnæmis- og ónæmislækningum hefur verið gríðarleg síðustu árin. Það má segja að ónæmiskerfið komi alls staðar við sögu og þróunin hefur verið sú að sértækar ónæmismeðferðir tengjast hinum ýmsu undirgreinum læknisfræðinnar. Með aukinni þekkingu á ónæmisfræðilegum ferlum hafa opnast möguleikar til meðferðar, til dæmis með einstofna mótefnum gegn lykilsameindum eða -frumum í sjúkdómsmyndinni. Þannig getum við nú nánast læknað sjúkdóma, til dæmis alvarlegan astma, sem áður gerði fólk að öryrkjum.
Algengi ofnæmis og astma hefur aukist, sem og annarra vestrænna sjúkdóma. Auk þess erum við nú að sjá fjölda sjúklinga með alvarleg veikindi í tengslum við silíkon-brjóstapúða, myglu, afleiðingar sýkinga eins og COVID-19 og af óþekktum ástæðum, svo sem ME. Við höfum þokast nær því að skilja af hverju þróunin er með þessum hætti, en eigum langt í land. Það eru óteljandi tækifæri til rannsókna, og fram undan eru mörg verkefni en okkur sárvantar fleiri lækna í greinina.