05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

BRÉF TIL BLAÐSINS. Veldur hver á heldur – fjarlækningar

Svar við grein formanns Félags almennralækna í fjórða tölublaði Læknablaðsins 2024

Formaður Félags almennra lækna (FAL) vakti máls á fjarlækningum í pistli sínum „Úr penna stjórnarmanna“ í Læknablaðinu í apríl. Þó gott hafi verið að vekja kollega til umhugsunar, fannst mér sáð ákveðnum efasemdum í garð fjarlækninga og um leið gagnvart kollegum okkar sem bjóða slíka þjónustu.

Fjarlækningar er þjónusta sem hefur komið fram og þróast samhliða framþróun fjarskiptainnviða. Því betur sem samfélög eru búin háhraða-nettengingum, þeim mun raunhæfara verður að nýta fjarskiptalausnir. Þó Sjúkratryggingar Íslands skilgreini fjarlækningar þröngt í rammasamningi, tel ég hugtakið víðara, sögu fjarlækninga megi jafnvel rekja aftur til bréfaskipta. Nær lagi er þó kannski að segja að verkfærin talsími og síðar internetið hafi fengið fjarlækningar til að festa rætur og blómstra. Því finnst undirrituðum hjákátlegt að lesa hrakspár um fjarlækningar, sem er ekki annað en verkfæri til samskipta.

Ég er heimilislæknir og samtöl mín við sjúklinga í síma eru órjúfanlegur þáttur vinnunnar meðferðarsambönd og auðveldar eftirfylgd og samfellu. Símtöl eyða hins vegar ekki þörfinni fyrir komur sjúklinga til lækna, þau eru einfaldlega tól í verkfærakistuna. Á árunum 2018-2020 var ég yfirlæknir á heilsugæslu Fjarðabyggðar. Stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) fengu þá styrk til kaupa á sérhæfðum fjarskiptabúnaði til að veita heilbrigðisþjónustu. Með búnaðinum er hægt að bjóða upp á myndsímaviðtöl og skoðun með hlustunarpípu og eyrnasjá, lífsmarkamælingar og hjartalínuritun. Eftir prófanir og samráðsfundi um notagildi og takmarkanir, dofnuðu þær efasemdir sem ég hafði haft og slóst ég í þann hóp sem þróaði notkun búnaðarins á Austurlandi.

Í dag starfa ég á heilsugæslu Fjarðabyggðar og hef síðustu ár stundað fjarlækningar við tvö hjúkrunarheimili á Austurlandi frá vinnuaðstöðu minni í Uppsölum í Svíþjóð. Utanaðkomandi teymi sem sinnir sérhæfðri öldrunarráðgjöf á HSA segir að hér hafi tekist reglulega vel til. Þjónustan hefur tryggt samfellu í læknisþjónustu við heimilin og er stuðningur við reglulegar komur mínar austur á land. Á milli ferða sinni ég sjúklingum á heilsugæslunni ýmist með talsíma eða myndsíma og eldri borgurum hefur verið boðið upp á lyfjayfirferðir á heilsugæslum Fjarðabyggðar og Borgarfjarðar eystri með fjarlækningabúnaði, með stuðningi hjúkrunarfræðinga á staðnum.

Stjórnendur HSA sjá möguleika fjarheilbrigðisþjónustu og eru að vinna í því að koma eftirfylgd og þjónustu við fólk með augnbotnasjúkdóma í betra horf með því að nýta fjarlækningar. Þetta er spennandi en í rauninni ekki ósvipað og fyrirkomulag svefnrannsókna og sólarhringsmælinga á blóðþrýstingi eða hjartalínuriti. Gögnum er safnað á heimavelli og niðurstaðan send viðkomandi læknum til túlkunar. Ánægjulegt er að sjá að fjarlækningar fá meira rými nú en áður í rammasamningum SÍ við sérgreinalækna, símtöl jafnt sem myndviðtöl, og hefur hvort tveggja einnig fengið sess í greiðslulíkani heilsugæslunnar.

Ég vil engu að síður taka undir með formanni FAL að fjarlækningar eru ekki skjótfengin lausn til að fjölga læknum og vissar hugmyndir um fjarlækningar í skýrslum stjórnvalda eru óraunhæfar. Meira samráð mætti ef til vill hafa við fólk með reynslu af fjarlækningum. En það má ekki gera lítið úr tækifærunum, fjarlækningar geta aukið aðgengi en einnig skilvirkni þar sem vegalengdir eru langar. Þær hafa sem dæmi aukið aðgengi fólks á Borgarfirði eystri að læknisþjónustu, en það er 100 manna bæjarfélag þar sem býr hjúkrunarfræðingur. Íbúar hafa val um að hitta hjúkrunarfræðing á staðnum sem tengist fjarlækni eða keyra 70 km til Egilsstaða. Fjarheilbrigðisþjónusta getur einnig verið álagsdempari þar sem þjónustan er brothætt og geta stofnanir og stjórnendur nýtt sér hana til að minnka álag á lækna sem eru nær íbúum.

Eðlilega má gagnrýna undirþætti fjarlækninga og nýtingu þjónustunnar. Í Svíþjóð hefur komið fram gagnrýni á fjarlækningar í gegnum símaforrit. Gagnrýnin er að hluta til málefnaleg og hefur beinst að kostnaði, oflækningum og misdreifðu aðgengi en á köflum er hún full harkaleg. Eftir því sem ég best veit hafa forsvarsmenn þessara lausna notfært sér gagnrýnina til umbóta, ásamt öðru með ítarlegri flokkun erinda í réttan farveg.

Það sem ég vil benda á er að fjarlækningar verða um ókomna tíð órjúfanlegur þáttur í þjónustuframboði lækna. Fjarheilbrigðisþjónusta er hlaðborð af möguleikum og ólíkum leiðum við veitingu heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að jafnaði að veita betri þjónustu, með öllum þeim undirþáttum sem sá frasi á að innifela (gæði, ánægja, aðgengi). Fyrirkomulag ólíkra lausna sem kalla mætti fjarlækningar á að vera í stöðugri endurskoðun, hvort sem um er að ræða nýtingu, kostnað, verkferla og tækjabúnað eða menntun og fagleg vinnubrögð læknisins sem „á heldur“.

Ómarkvissar úrtölur um fjarlækningar eru hins vegar engum til framdráttar, allra síst forystufólki lækna sem eiga að vera málsvarar okkar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica