05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

„Hjartað hans pabba sló með heilsugæslunni“

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar fékk á dögunum gjöf, heimagerða bók skráða af Bryndísi Guðmundsdóttur með stuttum ritgerðum eftir föður hennar, Guðmund Helga Þórðarson lækni. Tilefnið var að hann hefði orðið 100 ára. Guðmundur var héraðslæknir í áratugi og síðar heimilislæknir í Hafnarfirði.


„Pabbi minn var orðinn mikið veikur. Ég sat hjá honum og þá allt í einu segir hann: Viltu fara inn í þennan skáp, sækja möppur, þetta og hitt. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Hann var greinilega búinn að hugsa þetta: Ég bið þig að taka þetta með þér,“ segir Bryndís Guðmundsdóttir þegar hún lýsir því hvernig gögn sem faðir hennar, læknirinn Guðmundur Helgi Þórðarson, sem lést árið 2009, hafði ritað í gegnum áratugina lentu hjá henni. „Ég varð orðlaus þegar ég sá magnið.“

Guðmundur ritaði greinar í blöð og hafði skoðanir á faginu og þjóðmálum. „Árið eftir að hann dó skrifaði ég þetta upp og ákvað að láta prenta og gefa systkinum mínum, börnum og mömmu,“ segir Bryndís og nú er bókin einnig í fórum Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar.

„Ég er að þessu veturinn eftir andlát hans og fram undir nóvember 2010. Svo lét ég prenta verkið.“ Kápuna vann hún úr mynd af rithönd föður síns. Bókin inniheldur ekki aðeins ritverk frá læknistíma Guðmundar heldur einnig ritgerðir hans úr Menntaskólanum á Akureyri.

„Fyrsti kaflinn er um barnæsku hans í torfbæ að Hvammi á Völlum, aðeins austan við Egilsstaði í Vallahreppi,“ lýsir Bryndís. „Hann lýsir síðan vitjanasögum og aðstæðum heimilislækna.“ Hún nefnir til að mynda þekkta sögu úr Læknablaðinu þar sem hann fór í glærasvelli á hrossi upp með Merkigili í Skagafirði.

Gerðismóri með fjölskyldunni

„Þar er ýmislegt sniðugt sem hann segir frá. Meðal annars frá ömmu sinni og söguna af Gerðismóra. Það var draugur sem við ólumst upp með sem fylgi-draugur þessarar ættar,“ segir Bryndís. Pabbi hennar hafi starfað sem héraðslæknir á Hofsósi í sex ár.

„Hann fór í vitjanir og mamma sat heima og vissi ekki hvort hann kæmi heim um kvöldið, um nótt eða morguninn eftir. Enginn sími. En hún áttar sig á að alltaf þegar hún heyrir hlaupið upp tröppur að húsinu okkar á Hofsósi kemur hann eftir tíu mínútur.“ Móðir hennar hafi þá haft tóm til að hita kaffi og hafa til mat.

En, af hverju varð faðir hennar læknir? „Það er spurning. Hann er úr hópi sex systkina og þar var ekki ríkidæmi en hann átti foreldra sem hvöttu börnin sín áfram. Pabbi þurfti sjálfur að leggja mikið á sig, vann í síld til að hafa til námsins,“ lýsir Bryndís. Hún hafi viljað gefa sögufélaginu bókina því þar séu verðmætar heimildir um læknastéttina á þessum tíma.

„Aðstaða þessara manna þegar þeir tóku við læknishéruðum var mjög ólík því sem er í dag,“ segir hún. „Þeir urðu að koma við í Reykjavík í lyfjaverslun og kaupa allt til stofunnar sjálfir og setja sig í skuld.“ Þetta hafi hann þurft að gera. Hann hafi lítið velt því fyrir sér þá, en seinna séð að þessu yrði að breyta.

Setti sig í skuld til að lækna

Guðmundur fæddist 1924 og var læknir frá miðri öldinni, fyrst aðstoðarlæknir í Egilsstaðahéraði. Hann tók við fyrsta héraðinu 1953, Hofsósi. Þar var fjölskyldan á árunum 1954-1961 og flutti þá í Stykkishólm. Þaðan í Hafnarfjörð 1973 þar sem hann var heimilislæknir í tvo áratugi.

„Pabbi var stríðinn. Hann var mikill sósíalisti og ekki mikið fyrir einkarekstur. Hann gagnrýndi að menn þyrftu að kaupa allar græjur til að geta tekið við læknishéraði, meira að segja lyf,“ segir hún.

„Svo batnaði þetta mjög þegar hið opinbera fór að reka heilsugæslu,“ segir hún frá og að þar hafi hann komið að, verið ráðherraskipaður í nefnd þegar lög um heilsugæslu voru gerð.

„Hjartað hans pabba sló með heilsugæslunni,“ segir hún og að hann hafi skrifað um hluti sem talað er um í dag. „Hann var alltaf að tala um gott aðgengi.“

Bókin er 192 síður og eins og fyrr sagði, komin í hendur sögufélagsins. Bryndís segir meira til í handriti. „Þetta er mikið efni, meira en ég átti von á.“ Bókin fangi hann sem lækni og félagsmálamann.

„Svo er alla síðasta síðan, Að lokum. Þá settist ég niður hjá pabba. Ég spurði hann: Er eitthvað sem þig langar að sestja niður á blað, þá skal ég skrifa það niður fyrir þig? Þá segir hann að það að vera öldungur hafi fengið hann til að hugsa til sjúklinganna sinna sem hann hafi haft gegnum árin.“ Hann hafi hugsað sérstaklega til þeirra sem ekki gátu verið heima. Lesa má þessi lokaskrif hér fyrir neðan.

Heima í tengslum sína

Guðmundur var með Parkinson-sjúkdóm. „Mamma gaf okkur öllum mikið að annast hann svona vel,“ segir Bryndís sem fékk tveimur systkinum sínum og afkomendum, börnum þeirra systra, bókina.

„Öllum fannst þetta ómetanlegt því pabbi var svo stór í okkar lífi og huga. Þeim leið eins þau hefðu fengið part af honum til að hafa hjá sér alltaf. Börnin okkar lesa þetta aftur og aftur, detta ofan í textann og segja: Eins og afi sagði, eins og afi skrifaði.“

Verkið hafði mikil áhrif á Bryndísi. „Hann var svo stór og mikil persóna. Maður kom alltaf glaður frá honum. Það var bæði mikið og erfitt að missa hann frá sér og því mikil heilun að skrifa þetta upp. Mér fannst ég alltaf hafa röddina hans í eyrunum,“ lýsir hún.

Bryndís er heyrnarfræðingur með BA-gráðu í sálfræði og starfaði sem sérkennari og við Heyrnleysingjaskólann í 18 ár, þá á Heyrnar- og talmeinastöðinni í 20 ár. Læknisgenin eru þó allt um kring. Tvö börn hennar af þremur eru læknar; Guðmundur Freyr lyf- og bráðalæknir og Guðrún Arna, sem er nýútskrifaður lyf- og gigtarlæknir. Bryndís er svo gift Jóhanni Tómassyni lækni.

Bryndís Guðmundsdóttir sat með föður sínum sem bað hana að varðveita textana sína sem hann hafði ritað í gegnum lífið og læknisstörf sín. Hún færði Félagi áhugamanna um læknisfræði bókina að gjöf í tilefni þess að nú eru liðin 100 ár frá fæðingu föður hennar. Mynd/gag

Mikilvægt að halda tengslum við söguna

„Það er bæði áhugavert og mikilvægt fyrir stéttina að halda tengslum við söguna, ekki síst viðfangsefni forvera okkar í læknastétt og hvernig þeir tókust á við þau, oft með fábreyttum úrræðum og litlum stuðningi,“ segir Magnús Gottfreðsson, formaður Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. „Það var því gaman að heyra af þessari bók sem ættingjar Guðmundar Helga Þórðarsonar læknis stóðu fyrir, þar sem getur að líta safn valinna hugleiðinga hans á löngum læknisferli.“

 

Að lokum

Tvisvar verður gamall maður barn. Það er þannig að maður verður ófær um að sinna sínum nauðþurftum, ófær um að tala, hreyfa sig, nota hendur og fætur og finnur sig vanmáttugan og er í svipaðri stöðu og ungbarn.

Barnið þráir fjölskyldutengsl og finnur sig öryggislaust, ef þau rofna. Það þráir daglegt samband við sína nánustu. Eins er með gamalt fólk, sérstaklega þegar að því kemur, að það getur ekki sinnt sínum nauðþurftum.

Það er þetta með öryggistilfinninguna, sem er svo þýðingamikið fyrir líðan fólks, ekki síst þessa fólks. Það skiptir meira máli heldur en matur og drykkur. Þegar það verður viðskila við fjölskylduna, barnið við foreldra sína, hjón hvort við annað eða aðrir
fjölskyldumeðlimir við fjölskylduna, fer öryggistilfinningin með. Návist þessa fólks við fjölskylduna er mikilvægari en matur og drykkur. Þess vegna verður að gá að því, þegar dvalarstaður er valinn að rjúfa ekki tengslin við fjölskylduna eða þá, sem koma í hennar stað, til dæmis eins og gerist þegar gamalt fólk var tekið nánast með valdi og flutt landshorna á milli og sett inn á hæli, þar sem það var vel haldið í mat og drykk en óhamingjusamt, af því að það hafði skort á tengslin við kunnuga. Þessi tengsl eru meira virði heldur en allt annað og varðandi börn eru það rofin á þessum tengslum, sem eru trúlega undirrótin að rótleysi barna og þar með rótleysi í þjóðfélaginu með öllum þeim geigvænlegu afleiðingum, sem það hefur. 

  Guðm. Helgi Þórðarson



Þetta vefsvæði byggir á Eplica