05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknum hugnast ekki opin eða verkefnamiðuð vinnurými

Félag sjúkrahúslækna hefur þungar áhyggjur af þeirri þróun að bjóða sameiginleg verkefnamiðuð vinnurými fyrir heilbrigðisstarfsfólk í stað þess að læknar hafi sín afdrep. Landspítali stefnir í þá átt og í nýja meðferðarkjarnanum verða aðeins sameiginleg teymisrými.


Einkaskrifstofur fyrir einstaka starfsfólk eru á útleið, en sveigjanlegri vinnuaðstaða kemur í staðinn, til dæmis opin vinnurými, næðisrými, lítil óbókanleg og bókanleg fundarherbergi og símaklefar. Þetta segir í svari Landspítala við fyrirspurn Læknablaðsins um opin vinnurými.

„Aðstaðan á að henta starfseminni hverju sinni, en hún á ekki að vera merkt einstaka starfsfólki,“ segir í svarinu. Það sé í samræmi við það sem gerist á nýjum spítölum á Norðurlöndunum og í samræmi við stefnu ríkisins í þessum málum.

Læknar eru ekki hrifnir. Nýlega sagði Michael Clausen barna- og ofnæmislæknir upp 20% stöðu sinni til 20 ára sem ofnæmislæknir á spítalanum. Ástæðan var að skrifstofan sem hann var á var gerð að opnu vinnurými. Hann segir spítalann á rangri úreltri leið.

„Þó að aðalstarf okkar lækna sé að taka góða sjúkrasögu og skoða sjúklinginn vel, fer verulegur tími í að kynna okkur sjúklinginn, vanda hans og vinna úr þeim gögnum sem við höfum safnað.“ Væri fólk spurt vildi það örugglega að læknir þess fengi að velta fyrir sér sjúkdómsgreiningu þess ótruflaður í ró og næði – það kjósi hann einnig að gera og hafi því hætt.

„Sjúklingar vita að góður læknir gefur sér tíma, veltir steinum við og spáir í því af hverju staðan sé eins og hún er,“ segir Michael.

Félag sjúkrahúslækna lýsti í ályktun á aðalfundi um mitt síðasta ár yfir þungum áhyggjum vegna yfir-lýstrar stefnu stjórnvalda og áforma um opin og/eða verkefnamiðuð vinnurými lækna á heilbrigðisstofnunum.

„Nei, nei, við fengum aldrei nein viðbrögð,“ segir Theódór Skúli Sigurðsson, formaður félagsins. „Það er svo mikilvægt að menn berjist fyrir þeim fáu skrifstofurýmum sem eftir eru á spítalanum,“ segir Theódór.

Kostnaður drífi breytingar

Stefna spítalans er skýr samkvæmt svarinu og það þrátt fyrir umræðu um ýmsa ókosti og neikvæð áhrif á velferð starfsmanna. Í meistararitgerð Ragnheiðar Huldu Ólafsdóttur segir að kostnaður sé gjarnan drifkraftur þessara breytinga.1

Ragnheiður gerði kerfisbundna skoðun á 26 fræðigreinum um áhrif opinna vinnurýma á skynjaða framleiðni og velferð þekkingarstarfsmanna. Þar kemur fram að þekkingarstarfsmenn afkasti mestu í vinnu þegar þeim líður vel og velferð þeirra sé í fyrirrúmi. Lítið næði eða truflun sé fylgifiskur opinna rýma.

U06-Fig-1
Michael Clausen og Theódór Skúli Sigurðsson. Mynd/gag

Í fræðigreinunum megi heilt yfir lesa að starfsfólki þyki óþægilegt að eiga ekki vinnuaðstöðu sem það geti gengið að. Einbeiting sé minni, minna næði, fólki finnst meira fylgst með því. Þó svo að samskipti séu talin aukast í opnum og verkefnamiðuðum vinnurýmum, minnki samheldni starfsmanna. Neikvæðir félagslegir þættir séu fleiri en þeir jákvæðu og fólk opni sig síður á persónulegri nótum.

Hreinlæti er nefnt í rannsókninni og töluvert meiri hætta á útbreiðslu sýkla og veikinda sem geti borist á milli starfsmanna. Því þurfi að huga sérstaklega að hreinlæti í verkefnamiðuðum vinnurýmum.

Ýmislegt er nefnt í yfirferð Ragnheiðar til að opin eða verkefnamiðuð vinnurými gangi upp, góð hönnun, loftgæði og mikilvægi þess að starfs-menn geti fengið næði. Í ritgerðinni ber hún saman opin og verkefnamiðuð rými. Þau síðarnefndu virki betur en þau opnu en mælt sé með hermilíkani þegar fara eigi í slíkar breytingar á vinnustöðum til að sjá hvort henti betur.

Vilja ekki opin vinnurými

Theódór segir lækna einfaldlega ekki vilja opin rými eða verkefnamiðuð rými, á kostnað hefðbundinna skrifstofa. „Og ég vil nefna það saman. Allir vita að opin vinnurými eru tilraun sem mistókst og þá er nafninu breytt í verkefnamiðuð rými, sem er einfaldlega sami hluturinn í nýjum búningi að mínu mati.“

Munurinn er tíundaður í rannsókn Ragnheiðar. Í opnu vinnurými eiga starfsmenn sína starfsstöð þar sem skilrúm eru lág eða engin milli starfsmanna. Í verkefnamiðuðu vinnurými sé rýmið innréttað með mismunandi verkefnaaðstöður í huga og frjálst sætaval eftir hentisemi.

Theódór segir að víða erlendis hafi menn bakkað með þessar ákvarðanir, ekki aðeins á heilbrigðisstofnunum heldur almennt í stórfyrirtækjum. „Starfsfólki líður ekki vel,“ segir Theódór og bendir á að það sé opinber stefna íslenskra stjónvalda að hafa vinnurými opin en svo sé þetta sett í hendur stofnana að útfæra hvernig.

„Framkvæmdasýsla ríkisins hefur það hlutverk að keyra þessu stefnu í gegn. En þegar maður gengur á fulltrúa þeirra og spyr: Hvernig á að framkvæma þetta? Þá bakka þeir og segja að þeir skipti sér ekki af því hvernig opinberar stofnanir vinni eða skipuleggi sín vinnuými. Í kjölfarið taki við sérkennilegur stólaleikur þar sem menn benda hver á annan en enginn vill bera ábyrgðina,“ lýsir Theódór.

COVID besta sönnunin

Michael segir enga rannsókn staðfesta betur virði vinnufriðarins en COVID-faraldurinn gerði. „Þá unnu menn heima, afköstuðu meira og leið betur. Það sem gerst hefur í dag um allan heim, þar með talið á sumum ríkisstofnunum á Íslandi, er að starfsfólki er leyft að vinna 1-2 daga heima í viku. Er þetta ekki algjör uppgjöf á opnum vinnurýmum?“

Michael segir lækna oft þurfa að miðla erfiðum upplýsingum til sjúklinga. Í verkefnamiðuðum vinnurýmum sé nú bent á símaklefa. „Það getur vel verið að hægt sé að skapa rými þar sem hver og einn getur loggað sig inn. Það er bara svo mikið flækjustig.“ Theódór segir það stöðuna á gjörgæslunni.

„Oftar en ekki er það slagur að finna tölvu á lausu. Svo þegar ég kem aftur að tölvunni sem ég var að nota hefur annar loggað sig inn. Ég get ekki verið með gögn og þarf að fara annað. Kliður, læti, hávaði og stöðugt truflaður.“

Theódór segir stöðuna þegar erfiða. „Víða ræða teymi viðkvæm málefni einstaklinga í opnum rýmum spítalans.“ Með tilfærslu frá skrifstofum fyrir lækna yfir í opin vinnurými sé aukin hætta á að vegið sé að persónuvernd sjúklinga.

En er spítalinn þá ekki að gera sig ósamkeppnishæfan þegar kemur að starfsvali lækna, fari hann þessa leið?

„Björg Landspítalans er fyrst og fremst að það er ekki annar spítali,“ segir Michael, floginn úr ofnæmislæknisteymi Landspítala.

 

 

Heimild

Ólafsdóttir RH. Áhrif opinna vinnurýma á skynjaða framleiðni og velferð þekkingarstarfsmanna. Kerfisbundin skoðun fræðigreina. Meistararitgerð við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, 2021.
 

Opin eða verkefnamiðuð rými: hver er munurinn?

Opið vinnurými: Starfsmenn eiga sína starfstöð í vinnurými þar sem skilrúm eru lág eða engin milli starfsmanna.

 

Verkefnamiðað vinnurými: Vinnurými innréttað með mismunandi verkefnaaðstöður í huga og frjálst sætaval eftir hentisemi. 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica