05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Vitundarvakningu þurfi um líffæragjafir

„Ég myndi vilja að við gerðum allar nýrnaígræðslur sem sjúklingar okkar þurfa hér á Íslandi,“ segir Jóhann Jónsson læknir sem hefur unnið bróðurpart starfsævinnar í Bandaríkjunum. Hann sleppti aldrei hendinni af Íslandi og vann að því í fríum sínum að koma líffæraígræðslum upp á Landspítala. Rúm 20 ár eru frá fyrstu aðgerðinni þar — sem hann einmitt gerði

 

Læknavarpið · Jóhann Jónsson - viðtal í maí 2024

 

„Við gerum orðið helminginn af öllum nýrnaígræðslum hér á landi en sendum hinn helming sjúklinganna til Gautaborgar í Svíþjóð,” segir Jóhann Jónsson, yfirlæknir ígræðslulækninga á Landspítala, sem vill sjá allar nýrnaígræðslur fyrir landsmenn gerðar hér heima. Hann segir að þótt löggjöfin leyfi nú ætlað samþykki fyrir líffæragjöf við andlát, standi ósk þess látna eða ættingjar stundum í vegi fyrir frekari líffæragjöfum.

„Við þurfum vitundarvakningu. Við þurfum að gera öllum ljóst að líffærin hjálpa öðru fólki. Öll deyjum við einhvern tímann og gott væri ef við myndum gefa líffæri og bæta þannig lífsgæði annarra. Margir bíða,” segir Jóhann í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins.

Fjóra áratugi í Bandaríkjunum

Jóhann fór til Bandaríkjanna í sérnám í almennum skurðlækningum eftir læknanámið hér heima. Hann lærði svo ígræðslulækningar sem undirsérgrein við Georgetown WHC-háskólasjúkrahúsið í Washington. Þá lauk hann prófi í rekstri heilbrigðisstofnana frá Johns Hopkins-háskólanum og var í rúman aldarfjórðung yfirlæknir kviðarholslíffæraígræðsludeildar Inova Fairfax-spítalans í Virginíuríki. Hann byggði þá deild upp frá grunni.

„Mér bauðst að koma og setja upp ígræðsludeild á einkaspítala rétt utan við Washington-borg.” Þar gerði hann lifrar-, nýrna- og brisígræðslur og gerði til dæmis teymið hans 160 nýrnaaðgerðir á síðasta ári.

„Við vorum tveir skurðlæknar upphaflega. Svo hafa margir skurðlæknar komið þarna í gegn.” Samanlagt hafi 25 nýrnaígræðslur verið gerðar fyrir Íslendinga í fyrra, hér heima og í Svíþjóð. „Við erum enn of fá fyrir ígræðslur annarra líffæra.”

Jóhann var í um 40 ár í Bandaríkjun-um með eiginkonu sinni, Sigurveigu Víðisdóttur, og þremur börnum. Hann hefur þó verið með annan fótinn á Íslandi allt frá árinu 2003. Þá gerði hann fyrstu nýrnaígræðsluna frá lifandi gjafa á Landspítala. „Við höfum því gert nýrnaígræðslur frá lifandi gjöfum í tuttugu ár.” Hingað kemur teymi frá Svíþjóð þegar grænt ljós fæst á líffæragjafir við andlát en slíkt teymi er ekki til hér á landi.

„Það er stór aðgerð að ná líffærunum óskemmdum úr látnum einstaklingum. Svíar hafa því flogið til Íslands í einkaþotu, tekið hjarta, lifur, lungu, bris og nýru. Það var ekki fyrr en 2019 að mér tókst að semja við þá að þeir myndu skilja nýrun eftir. Þeir fengju hin líffærin,” segir Jóhann og því hafi einnig verið gerðar aðgerðir frá látnum gjöfum hér á landi frá þeim tíma.

Jóhann segir margborga sig að gera ígræðsluaðgerðir á Íslandi í stað þess að fljúga með fólk út. „Já, það er að minnsta kosti fjórfalt ódýrara að gera aðgerðirnar hér heima en að senda einstakling, oft og tíðum í einkaþotu, til Gautaborgar — og fjölskylduna með,” segir Jóhann.

„Á þeim 20 árum sem við höfum gert þessar aðgerðir hér heim höfum við sparað skattborgurunum hundruð milljóna,” segir Jóhann. Mikill vilji sé til að gera meira hér heima.

Læknissonur úr Bítlabænum

Jóhann er læknissonur úr Keflavík. Faðir hans, Jón Kristján Jóhannsson, lærði líka skurðlækningar í Bandaríkjunum. Jóhann fylgdi fjölskyldunni út tveggja mánaða og kom til baka fimm ára og altalandi á ensku.

„Svo ólst ég upp í Keflavík þar sem gert var grín að enskunni minni svo ég lokaði á þá þekkingu. Þegar ég kom út þurfti ég að læra hana upp á nýtt,” segir hann og státar nú af bandarískum ríkisborgararétti.

Hann fór í MH og svo í læknadeild. „Já, númerus klásus,” segir hann og lýsir því hvernig hengdur hafi verið upp miði eftir prófin með nöfnum þeirra sem náðu. „Við komum þarna öll að. Einn félagi minn kom úr hrúgunni á móti mér og sagði: Aldrei hefði mér dottið í hug að þú myndir ná. Ég þurfti því ekki að skoða töfluna,” segir Jóhann og brosir. En af hverju þessi viðbrögð? Hann hugsar sig um.

„Ætli ég hafi ekki verið aðeins of mikið á kaffihúsum þessa fyrstu mánuði námsins,” segir hann kátur.

 

Með annan fótinn hér heima

Jóhann var eins og áður sagði með annan fótinn á Íslandi eftir að hann hafði stofnað deildina á Inova Fairfax-sjúkrahúsinu. „Ég var alltaf í tengslum við Ísland og Íslendinga,” segir hann og hvernig vinna við að skoða ígræðslur hér heima hafi hafist 1995. Þær urðu þó ekki að veruleika fyrr en átta árum síðar.

„Nýir harðduglegir menn komu inn: Eiríkur Jónsson, þvagfæraskurðlæknir, Margrét Andrésdóttir og Runólfur Pálsson nýrnalæknar unnu þétt að málinu. Ég kom líka að ígræðslum í börnum og við gerðum aðgerðir á börn undir 10 kílóum. Blóðbankinn gerði krosspróf og mótefnamælingar og studdi vel við okkur,” segir hann. „Það eru alltaf hindranir í vegi en þær voru allar yfirstíganlegar.”

Ljóst er að Jóhann á ríkan þátt í ígræðslum hér á landi. Hann segir mikilvægt að landsmenn fái þjónustuna hér heima. „Það er alltaf langbest að vera veikur á íslensku,” segir hann, fást við veikindi sín á eigin tungumáli.

Svínin fái aukið hlutverk

Jóhann segir töluverða þróun hafa orðið í ígræðslum á síðustu tveimur áratugum, þá sérstaklega í aðgerðum er snúa að lifandi gjöfum.

„Við gerðum stóran síðuskurð við fyrstu aðgerðina árið 2003 og tókum nýrað út. Nú tökum við nýrað með kviðsjá. Við þá breytingu fór fólk heim á 1-2 degi eftir aðgerð með pínulítið ör á kviðnum.” Nú sé vinsælt að taka nýrun með þjarka. Nýrnaígræðslurnar sjálfar hafi hins vegar ekki breyst mikið.

„En lyfjagjöfin hefur gert það. Ný lyf, ný meðferð,” segir Jóhann. Þekkingunni hafi fleygt fram. Nú sé vitað að nýru endist ekki nema í 15 ár að jafnaði. „Smám saman áttar líkaminn sig á að nýrað er ekki hans.” Lífsstíllinn leiki sitt hlutverk og mikilvægt sé að taka ónæmisbælandi lyfin samkvæmt klukku. Þeim mun skyldari sem gjafinn sé þeganum, því betri sé endingin.

„Ég hef grætt nýra milli eineggja tvíbura. Þeir þurfa ekki ónæmisbælingu því líkaminn finnur engan mun.” Lyfin stroki út mun milli manna og nú hilli undir að þau stroki út muninn milli manna og dýra — genabreyttra svína.

„Fyrsta svínanýrnaígræðslan var gerð fyrr á árinu,” segir Jóhann og að sjúklingurinn hafi farið heim þann sama dag og viðtalið var tekið. „Já, heim með fullkomlega virkt nýra úr genabreyttu svíni.” Tímarnir séu að breytast.

„Ég tel að við séum að fara inn í þá tíma að við þurfum ekki að biðja heilbrigt fólk um að gefa úr sér nýru heldur getum fengið nýrun þegar við þurfum úr gjafasvínum. En tíminn leiðir það í ljós.”

Horfir stoltur yfir ferilinn

Jóhann horfir stoltur um öxl. „Ég held að ég sé ánægðastur með að hafa fengið að setja upp eigið prógramm í Bandaríkjunum sem gekk vel, stækkaði. Svo er ég stoltur af prógramminu hér á Íslandi líka. Þetta eru topparnir á ferlinum mínum,” segir hann. Þetta hafi hann gert með aðstoð góðs fólks.

„Við megum vera stolt af íslenska heilbrigðiskerfinu,” segir hann. Stuttar boðleiðir og gott kerfi. „Hér eru gerðar flóknar aðgerðir. Krabbameinslyfjameðferðirnar eru state of the art og ég gef því kerfinu háa einkunn,” segir Jóhann, sem sér ekki fyrir sér viðveru á skurðstofum að fimm árum liðnum heldur í sól. Hann segist farinn að huga að því að afhenda eftirmönnum keflið. Börnin þrjú löngu flogin úr hreiðrinu og hafi hreiðrað um sig út um allan heim, í Bandaríkjunum, Svíþjóð og á Spáni. Þau hjónin ein á Íslandi.

„Á fimm ára plani er að vera á Suður-Ítalíu eða Spáni, þar sem er aðeins heitara. Ég sakna góða veðursins.”

U05-Johann-Jonsson

Jóhann Jóhannsson varði meginþorra starfsferilsins í Bandaríkjunum. Fríin fóru í að koma á fót nýrnaígræðsludeild á Íslandi og gerði hann fyrstu aðgerðina árið 2003. Síðan hefur hann leitt ígræðslurnar hér á landi úr lifandi og látnum gjöfum sem og ígræðslur í börn. Hann kom heim 2021 og er yfirlæknir ígræðslulækninga á Landspítala. Mynd/gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica