05. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Fleiri og fjölbreyttari styrkir

Katrín Þórarinsdóttir | gigtarlæknir á Landspítala og formaður Fræðslustofnunar Læknafélags Íslands

doi 10.17992/lbl.2024.05.790

Allflestir, ef ekki allir læknar hafa eitthvað komið nálægt rannsóknum. Margir hafa þurft að skrifa BS-ritgerð eftir nokkrar rannsóknarvikur sem oft eru þeirra fyrstu skref á fræðabrautinni. Sumir læknar fara í meira rannsóknartengt nám, til dæmis doktorsnám, og komast þá að raun um að það getur verið flókið að rannsaka. 

Það sem oft er erfitt við að rannsaka eru praktísku hlutirnir. Ekki nægir að verkefnið sé vel skipulagt með flottri rannsóknarspurningu, vel skrifaðri aðferðarlýsingu og áhugasömum leiðbeinanda. Það þarf að skrifa styrkumsóknir til þess að fjármagna rannsóknirnar. Þar að auki þarf doktorsneminn að finna tíma utan vinnu fyrir vísindastörfin en það er erfitt til lengdar að rannsaka og skrifa greinar á kvöldin og um helgar. Þetta getur því verið erfitt þegar ekki er til staðar kerfi til að hjálpa doktorsnemunum á þessari braut. Ákjósanlegt væri að vinnuveitandinn styddi til dæmis við rannsóknarmiðað sérnám þar sem helmingur náms væri vinna og helmingur rannsóknir. Þetta er þekkt fyrirkomulag erlendis og hefur gert mörgum læknum kleift að klára metnaðarfullt sérnám og doktorsnám á sama tíma.

Fyrir utan þessar hindranir sem standa í vegi doktorsnema þá eru einnig áskoranir fyrir rannsakendur sem lokið hafa doktorsnámi og hafa hug á að stunda sjálfstæðar rannsóknir. Það er ekki auðvelt fyrir lækna í klíník að fá tíma til rannsókna. Það er heldur ekki hlaupið að því að fjármagna rannsóknirnar. Það er einfaldlega of lítið af styrkjum í boði.

Þegar talað er um rannsóknir og vísindi á Íslandi er oft vitnað í skýrslu McKinsey, sem sýnir svart á hvítu hvernig áhrifastuðull tilvitnana Landspítala hrapaði á milli 2003-2010. Þessi mikla lækkun er talin stafa af skorti á styrkjum en einnig skorti á skipulagi við úthlutun. Bent er á í skýrslunni að í Svíþjóð sé ákveðinn hluti af heilbrigðisútgjöldum eyrnamerktur rannsóknum og að þar sé mótuð rannsóknastefna, sem stýrir úthlutun styrkja.

Síðasta ár hefur borið á fréttum af stærri styrkveitingum og áherslu á nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Allt er þetta mjög jákvæð þróun. Fjármagn til minni rannsókna er þó enn af skornum skammti. Hægt er að sækja um styrki hjá Vísindasjóði Landspítala, sem hefur líklegast haldið lífinu í mörgum smærri verkefnum. Ekki má horfa fram hjá þessum litlu verkefnum. Stór og umfangsmikil verkefni eiga sér oft rætur í minni læknanema-verkefnum.

Það þarf að hlúa að öllum stigum rannsókna og öllum tegundum rannsókna því við viljum sjá fjölbreyttar rannsóknir innan grunnvísinda, faraldsfræði og klínískra rannsókna. Stuðla þarf að vexti allra þessara rannsóknargerða. Það þarf einnig margs konar styrki til þess að fá sem fjölbreyttast rannsóknaumhverfi, til dæmis tækjastyrki, styttri og lengri styrki og til mismunandi starfsstétta. Það þarf styrki frá fleiri aðilum, og má þar nefna fagfélög lækna, sjúklingasamtök, fjárfesta, háskóla og fyrirtæki. Læknar þurfa að hvetja til þessara styrkveitinga.

Að lokum: til þess að efla vísindastarf lækna þurfum við læknar að vera duglegir að vekja athygli á þeirri vönduðu vísindavinnu sem unnin er á Íslandi og halda áfram að minna á mikilvægi rannsókna.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica