04. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknisráð í beinu streymi, ný fundaröð Læknafélagsins
Læknafélag Íslands stendur að röð fjögurra funda undir nafninu Læknisráð þar sem boðið er samtal um málefni líðandi stundar
„Aukið aðgengi eykur skaðann,“ sagði Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, á fyrsta fundi af fjórum í fundaröð Læknafélags Íslands sem kallast Læknisráð. Þar er tæpt á ýmsum brýnum málefnum sem tengjast heilbrigðismálum á Íslandi. Sirrý Arnardóttir, fyrirlesari, stjórnendaþjálfi og kennari, stýrir fundunum. Þeim er streymt og upptaka er á vef félagsins, lis.is.
Þórarinn Tyrfingsson læknir og fyrrum forstjóri SÁÁ mætti og lagði orð í belg á fyrsta fundi Læknafélagsins, Læknisráði. Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri SÁÁ, Erna Gunnþórsdóttir læknir á Vogi og Sirrý Arnardóttir fundarstjóri lögðu línurnar og læknarnir svöruðu fyrirspurnum. Mynd/gag
Valgerður sagði á þessum fyrsta fundi að alvarleg ópíóíðafíkn væri vaxandi vandi hér á landi. Þörf á sérhæfðri lyfjameðferð hefði aukist. Hátt í 400 hefðu fengið gagnreynda lyfjameðferð við ópíóíðafíkn á göngudeild SÁÁ í fyrra.
„Það er brýn þörf á meiri meðferð og endurhæfingu vegna fíknisjúkdóms og skjótara aðgengi að meðferð vegna fíknisjúkdóms,“ sagði hún og hvatti til aukins aðgengis að naloxone-nefúðanum. Hann ætti að vera til taks rétt eins og hjartastuðtæki. Valgerður sagði einnig mikilvægt að minnka refsingu við neyslu og lagði sem fyrr segir áherslu á lífsbætandi lyfjameðferð til að sporna við neyslu.
Mál sem hátt hefur borið í umræðunni þar sem læknir var sviptur leyfi til að ávísa lyfjum til fíkla var rætt á fundinum. „Það eru opnar dyr hjá okkur,“ sagði Valgerður. Símtöl frá fíklum hafi hins vegar ekki enn borist. SÁÁ styðji ákvörðun landlæknis.
Sirrý spurði að lokum hvert læknisráðið væri við ópíóíðafíkn. „Ekki gera ekki neitt,“ svaraði Valgerður. „Þetta er algengur sjúkdómur sem engin skömm er að því að hafa,“ sagði hún. „Aðalatriði er að taka ábyrgð á því og leita sér aðstoðar.“