03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Af Kubrick og Kárasyni. Einar A. Helgason

Fyrir þremur árum, upp á dag, var ég staddur á Akureyri, þar sem ég var með konu, börnum og tengdaforeldrum í skíðaferð. Fyrir skuggalega tilviljun eru nú tengdaforeldar mínir staddir hér heima hjá mér með konu minni og börnum – í skíðaferð. Í þetta sinn sit ég þó fastur á spítalanum meðan ættleggurinn rennir sér, enda bandarískir sérnámslæknar ekki þekktir af því að fá mikið frí.

Mér verður títt hugsað til manns sem fæddist ekki nema tveggja tíma bílferð héðan, snillingsins Stanley Kubrick. Ég er síst sérfróður um kvikmyndir en ég man að eftir að ég horfði á það sérkennilega afreksverk Kubrick, A Clockwork Orange, las ég um það hvernig hann beitti stílbrögðum til að valda áhorfandanum óhug og óöryggi með óbeinum aðferðum. Til dæmis breyttist magn víns í glasi sem sást á myndinni án þess að nokkur ástæða væri fyrir því. Þessi aðferð meistara Kubrick – sem sjálfur settist að hinum megin hafsins, á Bretlandi – er skásta líkingin sem ég hef fundið til að lýsa þeirri upplifun að flytja hingað frá Íslandi. Hér er flest kunnuglegt – en fátt alveg eins og við eigum að venjast. Pappírsstærðir eru næstum eins – en þó öðruvísi, hraði bifreiða er meiri – en hraðatölurnar lægri, klósett eru eins í laginu – en sturta niður með öðrum hætti.

Stund milli stríða á áttundu hæð Connecticut Children's. Myndina tók Antoinette Farrell, MD, kollegi minn.

Vinnan er líka önnur, þótt hún sé eins. Fyrsta árið fór hér um bil allt í að losna við vöðvaspennuna sem ég upplifði hvenær sem ég mætti í vinnuna. Hvaða gögn styðja eiginlega að unglingar mæti árlega til læknis? Hvernig væri að hafa bara góða heimaþjónustu fyrir nýbura og mæður? Og jú, það er bara víst til amoxiclav í æð (þótt þú eigir það ekki). Ég þurfti að gera allt en var ekki treyst til neins – eða þannig var upplifunin. Og 40 tíma vinnuvika með staðarvaktarfríum er ekkert meira fallegur draumur hér vestanhafs. Fyrst og fremst leið mér þó eins og imba sem hvorki kunni haus né sporð á því starfi sem ég hafði einhvern veginn sannfært yfirmenn mína um að ég væri hæfur til að vinna.

Eftir því sem dagarnir og vikurnar liðu, bættist þó við skilninginn. Og eins bættist við skilninginn á því hve mikið ég kunni. Jú, það er ekki mikið mál að rétta olnbogalið. Mænustungu á nýbura? Gæti gert það blindandi. Ég vissi kannski ekki hvað viðmiðin segja hér, en ég vissi að þetta barn þurfti ekki lengur að vera í ljósameðferð. Þetta höfðu ekki margir kollegar mínir reynt áður. Þegar ég ræddi áður við lærimeistara mína á Íslandi mætti halda að helsti kostur þarlends náms væri að læra að setja æðalegg (sem ég kann reyndar enn frekar illa) en annað hefur komið á daginn. Með hverri vikunni kunni ég betur að meta þá reynslu sem ég fékk sem læknanemi við HÍ, kandídat við Landspítala og á Heilsugæslunni og sem sérnámslæknir við Barnaspítalann.

Sem betur fer mæti ég ekki lengur í vinnuna með trismus og eftir því sem ég slakaði meira á var ég líka opnari fyrir því sem Bandaríkin hafa að kenna mér. Jú, hér eru menn hræddir við lögsóknir en öryggi í meðferð er líka efst í huga allra. Heima vita allir um ömurleika bandaríska tryggingakerfisins, en færri vita að aðgengi fátækra barna að læknisþjónustu í Connecticut er oft mun greiðara en á Íslandi. Kaninn þykir óheflaður – en mér er líka sagt miskunnarlaust þegar ég tek feilspor – og ég fæ að þroskast með því. Og þegar ég geri vel fæ ég líka að vita það.

Ég minnist oft hugarsmíðar annars meistara, Einars Kárasonar, Þar sem djöflaeyjan rís. Kannski eru íhaldsmenn hérlendis að hugsa um Badda og vini hans í Nýja heiminum þegar þeir kyrja „Make America great again“; það verður að segjast að sú þjóð sem ég hef fengið að kynnast er hvorki jafn svöl – né jafn siðblind – og sá holdgervingur ammrískrar menningar á Íslandi. Og þar liggur ef til vill hundurinn grafinn – að við sem fædd erum hér á þessum yndislega útnára heimsins myndum okkur bæði fallegri og ljótari mynd af öllu því sem kemur annars staðar að. Og þá er ekki margt ótalið.

Eftir þrjú ár hér kann ég betur að meta heimalandið – en ég kann líka betur að meta Bandaríkin, fólkið þar og það sem það hefur kennt mér. Ég held að ég komi aftur til Íslands betri maður en ég var. Þetta er illa geymt leyndarmál sem margir vita að er einn af styrkleikum íslensks fagfólks. Og þótt því beri að fagna að fleiri og fleiri geti sótt sína þjálfun heima, þá vona ég að áfram verði haldið í þau sérstöku tengsl sem við höfum víða um heim svo komandi kynslóðir verði þess áfram aðnjótandi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica