03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Kvalir í kvosinni. Salóme Ásta Arnardóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Eins og margir jafnaldrar mínir varði ég drjúgum hluta bernsku minnar með andlitið grafið ofan í bækur. Afi minn var prentsmiðjustjóri, sem kom sér vel fyrir bókaorm eins og mig því ég fékk um hver jól stafla af bókum sem prentaðar voru í prentsmiðju Sambandsins. Bóklestur minn fór í gegnum ýmis tímabil eins og lífið sjálft. Stundum nægði bóklestur skólans, seinna urðu frjálsar stundir of fáar til að lesa sér til ánægju. Eftirminnileg var hugmynd sem kom að mér í sérnámi með heimilið fullt af litlum börnum en hún var sú að ljóðalestur myndi henta mér, enda um fljótlesnar meiningar og hugsanir að ræða. Þannig kynntist ég bæði íslenskum og norrænum „nútíma-“ ljóðskáldum ágætlega og naut vel.

Í önnum dagsins valdi ég líka í mörg ár frekar léttlesnar Uglubækur en heimsbókmenntir eða listaverk jólabókaflóðsins.

Það er þrautin þyngri að velja eina bók umfram aðrar til að skrifa um í Læknablaðið. Bókin Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur sem kom út hjá Máli og menningu í 2005 er þó vert að nefna. Þessi bók snart mig á margan og ólíkan hátt á sínum tíma, þótt endurlesning á dögunum hafi í raun verið mikil vonbrigði. Bókin fjallar um sársauka, verki og hugarvíl og það án þess að mér líði eins og ég sé í vinnunni. Það er nefnilega til vandræða í menningarneyslu minni að leikrit og bókmenntir fjalla oftar en ekki um samskiptavanda og veikindi sem kalla fram óheyrilega þreytu og hugsanir um að vinnudagurinn sé nú alveg nógu langur þó hann sé ekki teygður enn frekar út í það sem átti að vera afþreying og uppbygging. En aftur að Yosoy. Ég held að það hafi verið setning á blaðsíðu 27 sem negldi það fyrir tuttugu árum:

„Um leið hafði Ólafur samúð með sérfræðingunum. Það var auðvitað óþolandi að vera sérfræðingur í einhverju og eiga samt engar skýringar. Með öll þessi prófskírteini og allar þessar græjur og gagnmenntaða læknasál – að þurfa að standa eins og glópur yfir þjáðri manneskju og segja: Því miður, ég veit ekki hvað er að þér, bless og gangi þér vel.“

Bókin hverfist um starfsmenn líkamslistaleikhúss í húsnæði Álafoss-verksmiðjunnar í Mosfellsbæ. Þarna er unglingurinn Jói sem ekki finnur til sársauka, Elín alverkja barn og læknirinn Ólafur, fyrirlesari við læknaskóla í Belgíu og sérfræðingur í sársauka, sem reynir að komast til botns í erfiðleikum barnanna án þess að geta notað aðferðir lækna til rannsókna, því að hann er ekki læknir þessara barna heldur tekur þátt í þessu leikhúsi fáránleikans í Álafosskvosinni á öðrum forsendum. Fléttan er fangandi, sársaukalausi unglingurinn fer sér að voða og alverkjabarnið læknast með hjálp greiningar og skurðaðgerða. Vangaveltur um sársauka og verki, taugakerfið og heilann og hvort hugsunin sé í heilanum eða heiminum fléttast svo saman við. Í lokin vinnur skipuleggjandi framvindunnar keppni og er vinningurinn aðgerð þar sem tekin er frá henni blygðunarkennd og tilfinningasveiflur, sem minnir óþyrmilega á sum geðlyf nútímans.

Sem fullorðinn læknir með sífellt meiri efa gagnvart hugsanagangi læknisfræðinnar, þá reyndist erfitt að lesa þessa bók aftur. Óvissan er orðin hversdagsleg og nú til dags er öllum ungum læknum kennt að segja af auðmýkt; „það hef ég nú ekki hugmynd um en gæti reynt að komast að því“ sem er nauðsynlegt tilsvar á öllum læknastofum. Svar sem þó frelsar lækna ekki frá þeirri angist sem fylgir því að vera trúað fyrir vanlíðan sem við getum varla nefnt og ekkert bætt af viti.

Ég skora á Hólmarann Halldór Jónsson heimilislækni að skrifa um sínar bækur.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica