03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Raddir og reynsla íslenskra lækna. Steinunn Þórðardóttir

Við lifum á tímum vaxandi upplýsingaóreiðu sem er ógn við starfsumhverfi lækna og við heilbrigðisþjónustu framtíðar. Áskoranirnar sem upplýsingaóreiðunni fylgja endurspeglast hvað skýrast á ögurstundum eins og í nýafstöðnum heimsfaraldri COVID-19. Þar varð óreiðan, misvísandi upplýsingagjöf og umræðan á tímabilum þess valdandi að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn þurftu að sitja undir svívirðingum og jafnvel þola ofbeldi fyrir það eitt að sinna störfum sínum eftir bestu fyrirliggjandi þekkingu. Alþjóðlega varð marktæk aukning á bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi gegn læknum og hjúkrunarfræðingum í faraldrinum og versnaði það eftir því sem á hann leið.1 Á tímum þar sem aldrei hefur verið auðveldara að ýta undir upplýsingaóreiðu, meðal annars í gegnum samfélagsmiðla, er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að raddir lækna heyrist í opinberri umræðu og að tryggt sé að almenningur hafi aðgang að áreiðanlegum uppsprettum upplýsinga.

Íslenskir læknar hafa verið öflugir í opinberri umræðu og örlátir á sérþekkingu sína þegar eftir henni er leitað. Sem dæmi um þetta má nefna opin málþing sérstaklega ætluð almenningi á Læknadögum á undanförnum árum. Eins er Læknablaðið uppfullt af fróðleik í mánuði hverjum, fróðleik sem á erindi við samfélagið og vekur mjög oft athygli annarra fjölmiðla.

Læknar hafa þó ítrekað kallað eftir því að fagleg rödd lækna heyrist víðar og oftar, ekki hvað síst í ljósi fyrrnefndrar upplýsingaóreiðu og misvísandi umræðu. Ákallið kemur einnig frá fólkinu í landinu. Upplifunin er sú að upplýsingaóreiðan, auk vaxandi áhuga fjárfesta á markaðssetningu misvel rannsakaðra úrræða til heilsueflingar, forvarna og jafnvel „lækninga“, hefur valdið því að almenningur veit stundum ekki í hvorn fótinn hann á að stíga.

Læknafélagið vill nú svara þessu ákalli með því fara af stað með fundaröð fyrir almenning. Við munum rýna mál líðandi stundar og leita til sérfræðinga læknastéttarinnar á hinum ýmsu sviðum til að sitja fyrir svörum um málefni sem brenna á samfélaginu. Með þessu er ætlunin að skapa vettvang þar sem almenningur hefur aðgang að læknum og læknar fá möguleika á að deila þekkingu sinni með almenningi. Þannig fáum við læknar tækifæri til að gefa af okkur til stærri hóps en við náum til í okkar daglegu störfum. Fundirnir verða aðgengilegir á heimasíðu félagsins til þess að tryggja að sem flestir geti notið góðs af.

Sérþekking íslenskra lækna er ómetanleg auðlind. Fundaröðin er eingöngu ein af mörgum leiðum sem við þurfum að nýta til að þekking lækna gagnist samfélaginu. Hér erum við í þeirri ein-stöku stöðu að læknar leita sér menntunar mjög víða, bæði grunnmenntunar og framhaldsmenntunar. Sú mikla þekking og innsýn í störf og rekstur heilbrigðiskerfa á alþjóðavettvangi sem safnast hefur saman hér gerir okkur kleift að velja úr það sem best reynist við veitingu heilbrigðisþjónustu og einnig að forðast mistök annarra. Þetta er einn af helstu styrkleikum heilbrigðisþjónustu okkar, styrkleiki sem stjórnvöld og stjórnendur heilbrigðisstofnana ættu að nýta sér í mun meiri og kerfisbundnari mæli en nú er gert. Eins vil ég hvetja íslenska lækna, sem einstaklinga og í krafti sérgreinafélaga sinna eða aðildarfélaga LÍ, að vera í virku samtali við stjórnvöld um skipulag og þróun heilbrigðisþjónustunnar. Þannig leggjum við læknar okkar lóð á vogarskálarnar, veitum nauðsynlegt aðhald og tökum sameiginlega ábyrgð með stjórnvöldum á veitingu fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu til framtíðar á Íslandi.

Heimild

1. Zhang S, Zhao Z, Zhang H, et al. Workplace violence against healthcare workers during the COVID-19 pandemic: a systematic review and meta-analysis. Environ Sci Pollut Res Int 2023 ;30: 74838-52.
https://doi.org/10.1007/s11356-023-27317-2
PMid:37209334 PMCid:PMC10199297

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica