03. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sjáum ekki fyrir enda sýklalyfjaónæmis, segir Karl G. Kristinsson

„Við sjáum því miður ekki að við séum að komast fyrir sýklalyfjaónæmi,“ segir Karl G. Kristinsson, sérfræðilæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Vísindatímaritið Nature birti í upphafi árs grein vísindamanna frá Roche og Harvard háskóla um nýja aðferð til að herja á banvæna lyfjaónæma bakteríu, Acinetobacter baumannii

Lyfjaónæma bakterían hefur verið á lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar yfir skæðustu fjölónæmu bakteríurnar. „Það sem er fréttnæmt er að þetta er nýr flokkur sýklalyfja,“ segir Karl G, Kristinsson, prófessor emeritus í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðilæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala og að síðast hafi komið nýr sýklalyfjaflokkur á markað 1987, ciprofloxacin.

Karl G. Kristinsson, sérfræðilæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, hefur um árabil varað við sýklalyfjaónæmi og kallað það þögla faraldurinn. Mynd/gag

„Sýklalyfið virkar á bakteríu sem er orðin mjög ónæm fyrir sýklalyfjum og dánartíðni sjúklinga sem fá ífarandi (blóð)sýkingar af völdum hennar er 40-60%,“ segir Karl sem hefur nefnt sýklalyfjaónæmi þögla faraldurinn.

Hann segir að hafa beri í huga að þessi sýklalyf verki einungis á eina bakteríutegund, Acinetobacter baumannii. Hún sýki að jafnaði ekki heilbrigða einstaklinga en sé einstaklega skæð spítalabaktería, sem helst valdi spítalalungnabólgum og blóðsýkingum.

„Nær alónæmar A. baumannii bakteríur eru algengar á sjúkrahúsum í Suður- og Austur-Evrópu, en eru sem betur fer ekki landlægar á Íslandi,“ segir hann og bendir á að langt sé í land að lyf verði á boðstólum þótt vísindagreinin marki þá leið.

„Virkni lyfsins hefur verið prófuð í tilraunaglösum og sýkingatilraunum í músum og öryggi lyfsins hefur aðeins verið kannað í frumuræktunum og í rottum,“ segir hann. Nú sé byrjað að prófa það í mönnum en þó eigi eftir að prófa það í þremur fösum og ráðast í stóra klíníska rannsókn áður en hægt sé að sækja um markaðsleyfi. Hann slær því á vonir um að lyfið verði brátt á boðstólnum: „Mörg ný lyf hafa ekki náð því að komast á markað sem lyf í mönnum.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica