02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Endurhæfingar-lækningar. Einstaklega gefandi starf. Anna Lilja Gísladóttir

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Í grunnnámi læknisfræði hérlendis kynnast nemendur endurhæfingarlækningum að mjög takmörkuðu leyti. Á námsárum mínum var kennslan í formi einstaka fyrirlestra og nokkurra daga viðveru á Reykjalundi. Þegar ég rifja upp þennan tíma þá er mér sérstaklega minnisstætt tilfelli konu á miðjum aldri sem var í endurhæfingu eftir alvarleg veikindi sem höfðu herjað á úttaugakerfið. Einlægt þakklætið sem hún lýsti vegna starfseminnar og í garð þeirra framfara sem hún upplifði gáfu mér þá tilfinningu að þarna gætu læknar haft veruleg jákvæð áhrif á lífsgæði sjúklinga sinna. Hugsanlega vaknaði áhugi minn á endurhæfingarlækningum þar án þess að ég gerði mér í raun grein fyrir því.

Nokkrum árum síðar, fyrir einskæra tilviljun, fékk ég tækifæri til að kynnast heimi endurhæfingarlækninga á nýjan leik. Í Morgunblaðinu sá ég auglýsta lausa stöðu deildarlæknis á Grensásdeild Landspítala og ákvað að láta slag standa og sækja um. Ég man sérstaklega vel eftir hlýja viðmótinu sem tók á móti mér allt frá fyrsta degi og maður upplifði sig strax sem hluta af teyminu.

Starf læknis á Grensási er margþætt í formi starfs á legudeild, dagdeild og göngudeild, auk þess að sinna ráðgjöf við aðrar deildir spítalans. Grensásdeild sinnir fjölbreyttum hópi sjúklinga sem orðið hafa fyrir margskonar ólíkum sjúkdómum eða slysum. Skjólstæðingar okkar eiga það þó allir sameiginlegt að hafa orðið fyrir einhvers konar færniskerðingu og hafa það að markmiði að vilja auka færni sína, virkni og þátttöku og þar með lífsgæði. Við reynum að styðja skjólstæðinga okkar á þessari vegferð með því að efla þá þætti sem hafa jákvæð áhrif á endurhæfingarferlið. Með því móti reynum við að hámarka líkurnar á að þeir nái markmiðum sínum, sama hversu stór eða smá þau eru. Unnið er í þverfaglegum teymum við heildræna nálgun vandamála sem getur verið einstaklega gefandi og lærdómsríkt.

Ég starfaði sem deildarlæknir á Grensási í tæp tvö ár. Í kjölfar þess starfaði ég samtals í eitt ár sem deildarlæknir á geðdeild og taugadeild Landspítala sem eru tvö af þeim sviðum læknisfræðinnar sem sérnámslæknar í endurhæfingarlækningum þurfa að öðlast klíníska reynslu á. Að þeim tíma loknum flutti ég til Stokkhólms til að ljúka sérnáminu. Sérnám í endurhæfingarlækningum er að lágmarki fimm ár þar sem bróðurpart tímans er starfað á sérhæfðum endurhæfingardeildum. Í mínu sérnámi lagði ég sérstaka áherslu á taugaendurhæfingu og starfaði lengst af á endurhæfingardeild á Danderyds sjukhus sem hefur meðal annars sérþekkingu á alvarlegum afleiðingum heilaskaða.

Í dag starfa ég sem endurhæfingarlæknir á Grensási og sem kennslustjóri sérnáms í endurhæfingarlækningum hérlendis. Þegar ég flutti til Stokkhólms var ekki í boði sérnám í endurhæfingarlækningum á Íslandi. Mér finnst því frábært að hafa fengið það tækifæri að fá að vera hluti af þeim ötula hópi lækna sem kemur að uppbyggingu sérnámsins hér á landi. Ég gæti ekki hugsað mér að vinna nokkurs staðar annars staðar og tel ég mig hafa valið hárrétta sérgrein fyrir mig út frá áhugasviði, starfsumhverfi og lífsgæðum sem fylgja þessu starfi.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica