02. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Sérgreinin mín. Endurhæfingar-lækningar. Lærði á Sunnaas í Noregi. Guðrún Karlsdóttir

Hvernig varð sérgrein lækna fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?

Ég útskrifaðist úr læknadeild árið 1991 og eignaðist mitt fyrsta barn stuttu síðar og fór því ekki á kandídatsárið fyrr en í byrjun 1992. Þegar ég hafði lokið kandídatsárinu hafði ég ekki hugmynd um hvaða sérgrein ég ætti að velja. Ég fann þó að ég gat útilokað sumar sérgreinar, fann mig kannski ekki alveg í þessu hefðbundna sjúkrahúsumhverfi og var aðeins að hugsa um heimilislækningar. Ég sá svo auglýsta stöðu deildarlæknis á Reykjalundi og ákvað að slá til og sótti um, það spillti heldur ekki fyrir að ég bjó á þessum tíma í Mosfellsbæ. Ég vissi svo sem ekki mikið hvað ég var að fara út í, kennsla í endurhæfingu er lítil í læknanáminu. Ég hóf störf á Reykjalundi í byrjun árs 1994 og var þar í eitt ár og fann mig strax í þessu umhverfi.

Það er bæði gott, gagnlegt og ótrúlega gefandi að vinna í teymi með ólíkum fagaðilum og fá þannig breiðari sýn á sjúklinginn og styðja hann til bata og út í samfélagið á nýjan leik eftir veikindi og slys, oft við breyttar aðstæður. Í flóknum málum er mikill stuðningur fólginn í því að vinna í teymi og skoða málin út frá mismunandi sjónarhornum. Held að það hafi verið það sem heillaði mig við þessa sérgrein, þessi heildræna nálgun og samvinna.

Á Reykjalundi kynntist ég mörgum góðum læknum og reynsluboltum eins og Hauki Þórðarsyni sem á þessum tíma var yfirlæknir á Reykjalundi. Ég starfaði meðal annars í taugateymi Reykjalundar með Hjördísi Jónsdóttur endurhæfingarlækni sem var einstök og mikill mannvinur og kenndi mér margt. Segja má að kynni mín við hana og hennar störf hafi ekki síst haft áhrif á val mitt á sérgrein.

Eftir árið á Reykjalundi var ég búin að ákveða að fara í endurhæfingarlækningar og fór markvisst að undirbúa það. Endurhæfingarlækningar eru nokkuð breitt fag og á þessum tíma þurfti maður að starfa á mismunandi deildum þar sem reynsla nýtist í endurhæfingu. Á næstu árum starfaði ég á geðdeild Borgarspítalans, öldrunarlækningadeild og Grensásdeild þar sem taugadeild Borgarspítala var staðsett á þeim tíma. Ég fékk svo námsstöðu á Sunnaas endurhæfingarsjúkrahúsi í Noregi árið 1998 og starfaði þar í þrjú ár. Sunnaas er endurhæfingarsjúkrahús á Nesoddtangen, ekki langt frá Osló, í dásamlegu umhverfi og þar er fyrst og fremst taugaendurhæfing, frumendurhæfing eftir til dæmis mænuskaða, heilablóðföll og heilaáverka.

Við vorum þrjú ár í Noregi og eftir að ég kom heim hef ég starfað á Grensásdeild lengst af og einnig nokkur ár á Reykjalundi. Ég hef lengi verið í stjórn Félags endurhæfingarlækna og kom að undirbúningi fyrir sérnám í endurhæfingarlækningum og við erum í dag með samþykkt tveggja ára sérnám í faginu og stefnum á að bjóða upp á fullt sérnám. Ég hef ekki stundað mikla rannsóknarvinnu, hef fyrst og fremst verið í klíník og líkað það vel. Hef aðeins komið að rannsóknum á afdrifum heilablóðfallssjúklinga og á einstaklingum með starfræn taugaeinkenni. Í dag starfa ég enn við mína sérgrein, ég er í hlutastarfi á Grensásdeild og hef nýlega hafið störf á Heilsustofnun í Hveragerði og hef tilfinningu fyrir því að það verði góð blanda.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica