01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Síðbúið svar til Árna Bergmann. Hans Jakob Beck

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Í janúarmyrki fyrstu daga ársins 2006 bjó ég einn í galtómu húsi á Stórahaugi í Bergen. Fjölskyldan ókomin, búslóðin aðeins beddi sem hægt var að troða í leigubíl og bók sem ég hafði fengið í jólagjöf, Listin að lesa eftir Árna Bergmann. Árni er mesti og mætasti bókmenntamaður sem ég þekki. Ég gleypti bókina í mig, æstist upp og las hana aftur. Svo tók ég fram tölvuna og skrifaði Árna bréf, mér var nóg boðið. Nei Árni, fyrir mér eru bókmenntir ekki bara þessi stórkostlegu menningarafrek sem þú tínir til. Skáldverk eru aðeins einn angi bókmennta, helst skrifuð af þeim sem ekki hafa lifað neitt sem vert er að segja frá, né vita neitt sem aðra þyrstir að heyra. Svona var ég æstur. Bréfið týndist ósent.

Ég er alinn upp á hálfgerðu bókasafni, eins og heimili bókhneigðs fólks voru í þá daga og fyrir mér voru bækurnar internetið. Lestur rekinn áfram af forvitni. Undraheimur tíbetskra munka í bókinni Þriðja augað eða lygilegar hetjusögur sænska læknisins Axel Munthe í Sagan um San Michele. Meira að segja Hæstaréttardómar urðu æsispennandi eftir að maður náði tökum á atriðisorðaskránni. Barnabækurnar hlóðust líka smám saman upp í herberginu mínu. Palli var einn í heiminum starði árum saman á mig í stuttbuxum með sleikjó, ný bók af Dagfinni dýralækni á hverjum jólum eftir pöntun og síðar unglingabækur, strákabækur í mínu tilfelli, æsispennandi og dularfullar samkvæmt bókarkápu. Og auðvitað Tinni. Lestur minn hélt áfram að vera hrærigrautur.

Galdur bókmenntanna er margvíslegur, en fyrir mér er það einfaldleikinn og tímavélin. Maður les dásamlegt fimbulfambið í Dægradvöl Benedikts Gröndal og finnst kallinn sitja í næsta stól eins og maður sem búið er að flá tímann af. Skáldsagan býr yfir einlægni trúbadorsins í einfaldleika sínum og lítil bók getur líka rúmað margra ára pælingar mikils spekings, eins og bækur Georg Henrik von Wright sýna, til dæmis Vetenskapen och förnuftet. Hver sem er getur gert minningar sínar að stórkostlegri sögu, ef hann kann að skrifa eins og Frank McCourt í Angelas Ashes eða er jafn trúr viðfangsefninu og Kjartan Júlíusson bóndi á Skáldstöðum í Reginfjöll að haustnóttum. Að ógleymdum alþýðufræðimönnunum sem gert hafa meistaraverk á borð við Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson.

Þegar ég nú reyni að finna einhverja heildarmynd og skilja minn eigin bókmenntasmekk fæ ég þessa hugmynd: megnið af fagurbókmenntum sem ég þekki má rekja til nokkurra setninga í þeirri bók sem ekki að ósekju er kölluð bók bókanna. Þetta er frásögn Fyrstu Mósebókar af óhlýðni mannsins, brottrekstri Adams og Evu úr aldingarðinum. Það er ótrúlegt hvað hægt er að segja í nokkrum orðum. Við erum dauðleg og útskúfuð. Við erum moldin ein og berum óhlýðnina í blóðinu. Við erum dæmd til kvala og erfiðis og misréttið hefur Guð sjálfur fyrirskipað. Við sökum aðra um það sem er okkur að kenna og ölum á hatri til þeirra. Einn vanhugsaður munnbiti kostaði þetta, bitinn sem gerir okkur mennsk.

En bókmenntir eru sárabæturnar, mótleikur okkar gegn Guði. Það er eitthvert móteitur í sögum af okkur sjálfum, dauðlegum, breyskum og útskúfuðum. Við sökkvum okkur ofan í málafærslubækur, eins og allar sakamálasögur eru og hvað er Njála annað? Atvikalýsingar glæpa og siðleysis soga okkur að sér. Svo eru bækur sem horfa heimspekilega á málið, eins og eitt af stórvirkjum bókmenntasögunnar, Glæpur og refsing. Mætti ekki líka nefna Sjálfstætt fólk sem útleggingu af brottrekstarsögu biblíunnar? Nú hafa bæst við sögur af annars konar hetjum og óræðari, hinum smáðu og fyrirlitnu, oft skrifaðar af konum. Sumar svo kjarkaðir höfundar að leggja út af eigin lífi, eins og Ásta Sigurðardóttir í Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns og Elísabet Jökulsdóttur í Aprílsólarkuldi.

Svona hefur biblíumenningin endalaust getið af sér sögur af baráttu góðs og ills, hatri og blindri ást í flárri veröld. Í þessum fagurbókmenntum er allt leyft nema fegurðin.

Svo að þegar til kastanna kemur laumast ég aftur og aftur í ljóðabækurnar, kannski Hauströkkrið yfir mér eftir Hannes Pétursson, í leit að annars konar skynjun þar sem maður er hluti náttúrunnar, ekki brottkast. Þar sem lífið er gott í eðli sínu eins og í svipmyndum Jónasar Árnasonar í Veturnóttakyrrur. Nú langar mig að lesa nýja ljóðbók eftir Gyrði Elíasson á jólanóttina, Gyrðir er minn maður. Það er dásamlegt að lesa ljóð sem skilur ekkert eftir sig annað en gamla tjörulykt af húsi í örstutta stund.

Ég skora á Helgu Hansdóttur öldrunarlækni að segja sína bókmenntasögu.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica