01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Þjónustan við sykursjúka að umbyltast með tækninni, Ástráður B. Hreiðarsson og Rafn Benediktsson í viðtali

Fólk er bæði yngra og veikara en áður þegar það greinist með sykursýki. Lífsstíllinn spilar inn í en einnig skortur á læknum, segir Rafn Benediktsson yfirlæknir göngudeildar sykursjúkra á Landspítala. Göngudeildin, með þeim fyrstu á landinu, fagnar nú 50 árum. Læknablaðið hitti þá Rafn og Ástráð B. Hreiðarsson, tvo af þremur sem hafa gegnt stöðu yfirlæknis deildarinnar. Þeir ræddu stöðuna, starfsemina og frumkvöðul hennar, Þóri Helgason

Sjálfvirkar dælur, gervigreind og skýjaþjónusta eru að umbylta þjónustu við sykursjúka. Þetta segir Rafn Benediktsson, yfirlæknir innkirtladeildar á Landspítala.

Ástráður Hreiðarsson og Rafn Benedikts-son eru tveir þeirra þriggja innkirtlalækna sem gegnt hafa stöðu yfirlæknis á göngudeild innkirtla og efnaskipta sem nú fagnar 50 árum. Sá þriðji, Þórir Helgason, var hvatamaður að stofnun hennar árið 1974. Mynd/gag

„Nú getum við haft eftirlit með fólki hvenær sem er og veitt því aðstoð þegar það þarf á okkur að halda.“ Rafn segir starfsemi fimmtugrar göngudeildarinnar að umbyltast með tækninni.

„Nú setjum við upp hugbúnað sem gerir okkur kleift að byrja vinnudaginn á því að skoða hverjir eru í lagi í dag. Við þurfum ekki að tala við þá, heldur tölum við þá sem eru með slæma sykurstjórn í dag eða síðustu viku og sjáum hvað við getum gert til að hjálpa þeim núna. Við höfum séð að með dælunum hefur stjórnunin snarbatnað.“

Rafn segir þessa nýjung hafa bæði kosti og galla. Sjúklingurinn fái kostina en læknar gallana með þyngri verkefnum. „Læknarnir þurfa nú að taka þung samtöl í hvert sinn sem þeir hitta skjólstæðinga. Vinnan er því meira krefjandi og deildin ofhlaðin upplýsingum.“

Þurfa fleiri hendur

Læknablaðið sest niður á kaffistofunni á göngudeildinni við Eiríksgötu með þeim Rafni og Ástráði innkirtlalæknum. „Glæsileg aðstaða,“ segir Ástráður og horfir í kringum sig en þarna hefur deildin verið til húsa síðan 2019. „Framfarir. Það er ekki hægt að segja annað.“

Ástráður hætti árið 2012 eftir farsælt starf, annar þriggja yfirlækna deildarinnar. Hann hóf þar störf 1981 eftir áratug í Danmörku. Eftirmaður hans Rafn svarar: „Við þurfum samt fleira starfsfólk, meira pláss en aðstaðan er þó miklu betri en nokkurn tímann hefur verið.“ Þrír innkirtlalæknar, mættu vera fjórir, segir Rafn að sé samkvæmt heimild spítalans, jafnmargir og fyrir aldarfjórðungi.

„Bandaríkjamenn telja að miðað við fólksfjölda þyrfti 10,“ segir hann og bendir á að landsmönnum hafi fjölgað um 50% á síðustu 25 árum. Þeir eru sammála um að aðstaðan sé afar ólík því þegar Ástráður tók til starfa fyrir 42 árum.

„Á göngudeild sykursjúkra var einungis eitt skoðunarherbergi þar sem tveir læknar unnu í senn og aðeins tjald á milli,“ lýsir Ástráður í viðtali við Jafnvægi, tímarit Samtaka sykursjúkra, og vitnað er í í minningargrein um Þóri.

„Næringarráðgjafi deildi herbergi með meinatækni og hjúkrunarfræðingi. Þegar hjúkrunarfræðingur þurfti að gefa sjúklingi insúlínsprautu eða leiðbeina um spraututækni var salernið eina afdrepið.“ Nú segir hann: „Já, þetta var byrjunin, en svo lagaðist aðstaðan smátt og smátt.“

Deildin var hornreka

Þórir Helgason gegndi yfirlæknisstöðunni fyrstur frá 1974 til starfsloka 1998. Hann barðist fyrir stofnun deildarinnar á Landspítala eftir sérnám í Bretlandi og störf á sykursýkisdeild Aberdeen General Hospital. Hann hafði þá sýn að sjúklingum væri fylgt ævilangt á göngudeild háskólasjúkrahúss. Á Landspítala stóð hann í stappi við stjórnendur til að fá starfskrafta og betri aðstöðu.

Þórir Helgason ásamt öðru starfsfólki og fulltrúum ríkis og hagsmunaaðila við opnun göngudeildarinnar fyrir 50 árum, þann 11. janúar 1974.

„Göngudeildarstarfsemi á Landspítala var hornreka á þessum árum,“ segir í minningargrein Boga Andersen læknis um Þóri tengdaföður sinn, sem lést árið 2019. Ástráður bætir við: „Þórir var mikill hugsjónamaður.“

Göngudeild sykursjúkra er ein sú fyrsta á Íslandi, segir Rafn en nokkrum mánuðum fyrr stofnaði augndeildin sína á Öldugötu. „Þetta hugtak, göngudeild, var ekki til og nýtt að það væri staður á spítalanum þar sem fólk væri ekki inniliggjandi. Annars fórstu til þíns læknis á stofu,“ lýsir Rafn. Hjúkrunarfræðingur, næringarfræðingur og meinatæknir á staðnum hafi einnig verið nýjung.

„Það er ekki spurning að það var þörf fyrir þjónustuna þá,“ segir Ástráður og þeir Rafn telja að enn sé lítill skilningur á mikilvægi þess að grípa inn í og fyrir-byggja afleiðingar sykursýki.

„Við vitum ekki hversu margir hafa sykursýki 2 á Íslandi,“ segir Rafn og að það sé eitt af stóru málunum tengdum sjúkdómnum. Þingsályktunartillaga frá árinu 2016 og skýrsla frá 2018 á vegum ráðuneytisins liggi fyrir um að gera skuli gagnagrunn svo að hægt sé að átta sig á fjöldanum.

„Skilgreint er í lögum að landlæknir eigi að halda skrá um sykursýki en embættinu hefur ekki tekist að gera það,“ segir Rafn. „Það hefur ekki staðið sig.“ Hann skilji vinnuálag embættisins vegna COVID. „En þetta er langur tími.“ Hins vegar sé vitað hve margir séu með týpu 1. „Þeir eru tæplega 1300, þar af 150 börn. 80% þeirra eru í eftirliti hér á deildinni, 10% á stofu og 10% á göngudeild í Keflavík.“ Enginn innkirtlalæknir er á Akureyri og sjúklingarnir því á forræði Landspítala.

„Við höfum fylgt þeim í fjarþjónustu, farið norður og þjálfað upp teymi þar til að sjá um þá á milli heimsókna,“ segir Rafn. Ástráður lítur á hann. „Já, Þórir fór alltaf norður einu sinni í mánuði fyrstu árin.“

Lífaldur sykursjúkra hækkað

Rafn segir að hér áður hafi fólk ekki endilega fengið langvinna fylgikvilla eins og fótameinin og nýrnabilunina eða augnsjúkdóminn vegna sykursýki.

„Það dó úr öðru áður; eins og hjarta- og æðasjúkdómum. Sykursýki 2 veldur fyrst og fremst dauða við heilablóðföll og hjartaáföll. Ef þú færð það sextugur nærðu ekki að koma þér upp fótameini 75 ára, ert látinn. Ég held að það sé hluti af þróuninni,“ segir Rafn. Fólk lifi lengur.

„Á móti kemur því að við erum með fólk sem er með lengra gengna sykursýkisjúkdóma,“ útskýrir hann. Ástráður segir lækna hér áður hafa verið meðvitaða um áhrif lífsstíls á sjúkdóminn.

„Og Þórir var öflugur í að breiða út fagnaðarerindið. En vissulega var þekkingin ekki til staðar nema að einhverju leyti.“ Rafn bendir á að Þórir hafi lagt mikla áherslu á mataræði. Það hafi þurft því mælingarnar hafi ekki verið mjög nákvæmar. Nú megi bregðast við hegðuninni hverju sinni með insúlínskömmtum eftir þörfum.

„Núna mælum við sykurinn undir húð á nokkurra mínútna fresti. En Ástráður, voru menn ekki að mæla sykur í þvagi þegar þú byrjaðir?“ Hann svarar: „Jú, akkúrat.“ Rafn bætir við: „Já og setja ákveðna töflu í þvagið.“ Ástráður lýsir því hvernig fólk hafi notað strimla sem dýft var í þvagið.

„Ákveðnar litabreytingar endurspegluðu sykurmagnið og gátu þannig gefið ástæðu til hækkunar á insúlínskömmtun,“ segir hann. „Nokkrum árum síðar byrjuðu sykursjúkir að mæla blóðsykur í stað þvagmælinga. Meðferð með insúlíndælum hófst við deildina árið 2004 og hafði Arna Guðmundsdóttir, læknir, veg og vanda af þeirri meðferð.“

Þeir ræða þróunina. „Núna gengur þeim betur sem treysta á gervigreindina fremur en sjálfan sig,“ segir Rafn. „Þessir sjálfvirku algóritmar ná betri árangri heldur en hefðbundin meðferð.“ Þótt þróunin sé hröð, sé enn gríðarlega mikið álag að vera með sykursýki. „Það hefur ekki breyst þótt tæknin sé betri.“

Tímarnir tvennir. Ástráður lærði í Danmörku. Rafn í Bretlandi eins og Þórir. Þeir þrír, Þórir, Ástráður og Rafn, unnu um tíma allir saman. „Já, þegar ég var kandídat,“ segir Rafn. Nú horfa þeir fram veginn og Rafn hvetur yfirvöld til að skoða stöðuna og vinna að forvörnum. Ástráður hvetur einnig til framsýni í málaflokknum. „Já, það er gaman að sjá hvernig starfið hefur þróast.“ Þeir slá lokatóninn.

„Það kostar lítið að takast á við þessi mein sem við berjumst við miðað við fylgikvillana sem þau orsaka,“ segir Rafn. Ástráður tekur undir. „Já, það er hægt að spara mikla peninga með því að setja meiri peninga hér.“

Aflimunum fjölgar á Íslandi

Sérstök fótameinagöngudeild er nú rekin innan göngudeildar innkirtla og efnaskipta á Landspítala, þrjú í 1,5 stöðugildi. „Fótameinum vex fiskur um hrygg,“ segir Rafn Benediktsson, yfirlæknir deildarinnar. Aflimunum á Íslandi hefur fjölgað.

„Fólki með sykursýki fjölgar hér á landi. Það lifir lengur en það gerði og verður því veikara og glímir við fleiri langtímavandamál.“ Aflimunum fjölgi ekki aðeins í tölum heldur einnig hlutfallslega. Auk fótaaðgerðafræðinganna sé sárahjúkrunarfræðingur í 80% starfi.

„Sýnt hefur verið fram á að þessi þjónusta minnkar líkur á aflimunum,“ segir Rafn. Algengast sé að fólk missi fætur.

Fótaaðgerðafræðingur hefur verið á deildinni í rúman aldarfjórðung, síðan Ástráður réði Magneu Gylfadóttur sem starfað hefur lengst fótaaðgerðafræðinga. Hann lýsir því hvernig deildin hafi fengið aðfinnslur fyrir að vera með fótsnyrtingu í boði, hvort fólk gæti ekki farið út í bæ eins og aðrir. „En þetta snérist ekki um fótsnyrtingu,“ segir hann og bendir á fordómana sem deildin hafi mætt. Fótameinin ógni útlimunum og fræðingarnir bjargi þeim.

Rafn lýsir því einnig að blinda sé nú algengari vegna sykursýki. Hátt í 40 teljist lögblindir vegna hennar. Ástráður segir að áður hafi hlutfallslega færri glímt við blindu hér en í samanburðarlöndum. Rafn segir þá stöðu óbreytta.

Augnbotnamyndavél er bæði á göngudeildinni á Eiríksgötu og á Akureyri. „Svo erum við að stíga næsta skref með því að láta gervigreind greina myndirnar fyrir okkur.“ Þá verður hægt að grípa breytingar frá byrjun og gera margt til að stoppa þróunina.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica