01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Lausnin markmiðið en ekki vísindin sjálf, - af málþingi til heiðurs Einari Stefánssyni

„Vísindi eru ekki markmið í sjálfu sér heldur aðferð til að ná markmiði,“ sagði Einar Stefánsson augnlæknir í lok málþings sem haldið var honum til heiðurs föstudaginn 24. nóvember. Vísindamenn þyrftu að velja sér mikilvæg markmið, mikilvæg vandamál til að leysa, vita hver vandinn væri og ljóst að lausnina þurfi. Hún sé mikilvæg, verðmæt, snerti marga og skipti fólk miklu máli. „Rannsóknir eru ekki tilgangur í sjálfu sér.“ Leggja þurfi upp með góða kenningu. Hana megi fá lánaða og sé ekki ósvipað því að taka að sér hvolp. „Ef maður er góður við hann og gefur að éta, þá eignast maður hann.“ Þétt var setið í hringsal Landspítala og erindin mörg.

Skjálgi og skert sjónræn færni hrjáir fyrirbura

Getan til að samræma sjónræna færni og hreyfifærni er skert hjá einstaklingum sem fæddust fyrir tímann samanborið við viðmiðunarhóp. Þetta sagði Dýrleif Pétursdóttir, augnlæknir, þegar hún skýrði frá niðurstöðum rannsóknar sem hún gerði í Svíþjóð, á heiðursráðstefnu Einars Stefánssonar augnlæknis í hringsal Landspítala.

Ungir sem eldri mættu á málþing til heiðurs augnlækninum Einari Stefánssyni prófessor emeritus. Hér má sjá Maríu Soffíu Gottfreðsdóttur, Jóhannes Kára Kristinsson og Dýrleifu Pétursdóttur sem héldu erindi á málþinginu. Myndir/Þorkell

Rannsóknin er doktorsverkefni hennar frá Uppsölum 2021, lýðgrunduð og gerð á sjón og augnheilsu ungra fullorðinna einstaklinga sem fæddust fyrir tímann tæpum þrjátíu árum áður. Hún byggir á tveimur eldri rannsóknum á sama hópi fyrirbura. Sú fyrri á nýgengi sjónukvilla fyrirbura (Retinopathy of prematurity, ROP) í Stokkhólmi hjá 260 einstaklingum sem fæddust fyrir tímann á árunum 1988-1990 og vógu að 1500 grömmum. 40% þeirra reyndust með sjónukvillann og 11% þurftu meðferð.

Tvö ár eru frá því að Dýrleif kom heim eftir tíu ára veru í Svíþjóð. Auk þess að starfa hjá Sjónlagi er hún annar tveggja barnaaugnlækna á Landspítala. Í samtali við Læknablaðið segir hún að sjónhimnan sé ekki fullþroskuð í börnum sem fæðast fyrir tímann.

„Æðarnar sem eiga að þekja augnbotninn hafa ekki gert það og þess vegna skimum við þau fyrir ROP,“ segir hún á milli slíkra skimana á spítalanum á þriðjudegi í desember. „Við skimum alla fyrirbura sem fæddir eru fyrir 32. viku, enda veldur ROP mögulega blindu,“ segir hún.

„Fyrirburar eru í aukinni áhættu á skertri sjónrænni skynjun og auknar líkur eru á að þeir þurfi að nota gleraugu. Auknar líkur eru á skjálga; að börnin séu rangeygð eða tileygð, og fylgja kvillarnir þeim á fullorðinsaldur.“ Augun, rétt eins og lungun eða meltingarfærin, beri þess oft merki fæðist börnin fyrir tímann.

„Staðan hverju sinni fer eftir því hversu snemma þau fæðast. Þetta er stór spönn enda eru börn talin fyrirburar fæðist þau fyrir 37. viku meðgöngu.“ Dýrleif segir að hjá flestum gangi ROP-sjónkvillinn til baka. „Við beitum leysimeðhöndlun eða lyfjagjöf í augað, ef þarf að meðhöndla.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica