01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Tónlistin er mín ástríða, segir Ágúst Ingi Ágústsson

Ágúst Ingi Ágústsson fæðinga- og kvensjúkdómalæknir er að ljúka bakkalárnámi í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands. Mikilfenglegur ómur orgelsins í Skálholti náði honum á þessa braut. Draumurinn um að starfa sem læknir varð orgelleiknum yfirsterkari þegar hann komst í gegnum klásus

„Ég byrjaði að spila á píanó sem krakki. Það var engin sérstök fyrirmynd heldur ákváðu foreldrar mínir að við systkinin skyldum læra á hljóðfæri,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem skipti 18 ára gamall úr píanónámi yfir í orgelleik og er nú að ljúka prófi í kirkjutónlist frá Listaháskóla Íslands.

Ágúst Ingi Ágústsson lauk prófi í kirkjutónlist í nóvember en ætlar þó ekki að verða organisti nema þá í afleysingum enda yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslunni. Myndir/aðsendar

„Ég fór með kór Fjölbrautaskólans í Breiðholti í æfingabúðir í Skálholti. Organistinn sat í kirkjunni og var að æfa sig. Þá fékk ég þessa flugu í höfuðið,“ segir Ágúst Ingi sem flutti meðal annars verk eftir Girolamo Frescobaldi, Johann Sebastian Bach og Marcel Dupré á útskriftartónleikum í Hallgrímskirkju 25. nóvember síðastliðinn. Þar stýrði hann einnig sönghópnum Cantores Islandiae sem sérhæfir sig gregorssöng.

„Flestir myndu skilja það sem munkasöng,“ lýsir Ágúst og einnig því að þar sé um að ræða hinn upprunalega kirkjusöng sem sunginn var í kristnum kirkjum frá upphafi og þar til sálmasöngur tók við í mótmælendakirkjum.

Ágúst Ingi er með orgel heima. „Rafmagnsorgel sem líkir eftir pípuorgeli, með þremur hljómborðum og pedal. Ég hef haldið mig við það en það var vissulega erfitt að hefja nám aftur. Ekki síst líkamlega krefjandi,“ segir hann. „En núna í gegnum þetta nám hef ég aldrei verið í betra spilaformi.“

Ágúst Ingi segir að í náminu þurfi að kunna að spila við guðsþjónustur, þekkja uppbyggingu þeirra og fræðina í kring. „Þetta er svo miklu meira en að spila bara á orgel. Við þurfum einnig að syngja, stjórna kór og kunna á píanó svo eitthvað sé nefnt. Það að vera organisti er því víðfeðmari menntun en bara að spila á orgel.“

En hvernig fer svona áhugamál með læknisstarfinu? „Krefjandi,“ svarar hann. „Það þarf að gera málamiðlanir. Það er kannski ekki síst ástæðan fyrir því að ég er að þessu núna, þegar að ég er búinn með sérnám, búinn að koma mér fyrir og börnin ekki lengur smábörn. Þetta er orðið yfirstíganlegra,“ segir hann.

„Svo verður að fylgja sögunni að ég nýt mikils velvilja í Listaháskólanum. Ég hafði tekið kantorspróf í kirkjutónlist vorið 1998 og hóf læknisnám um haustið,“ segir hann. Hann tók svo einleikspróf á orgelið sem deildarlæknir á Landspítala árið 2008. „Ég lauk því þremur dögum áður en ég flutti til Danmerkur í sérnám.“

Hafa þá orgelleikurinn og læknisstarfið togast á, á lífsleiðinni? „Já, það hefur gert það að vissu leyti,“ svarar hann. „En fyrst ég komst inn í læknisfræði fannst mér rétt að halda áfram og hef ekki séð eftir því. Ég gaf mér þó strax loforð um að hætta ekki að spila á orgel.“ Hann lauk sérnámi í kvensjúkdómalækningum í Danmörku og eignaðist þar þrjú börn með konu sinni, Láru Bryndísi Eggertsdóttur, organista og semballeikara. „Svo er það ekki fyrr en við komum heim aftur sem ég sé möguleika á að taka upp þráðinn aftur. “

En er á stefnuskrá að skipta um starfsvettvang? „Nei, en það kæmi til greina að spila við tilfallandi guðsþjónustur í afleysingum. Ég er í starfi sem mér líður vel í, hef gaman af og þykir spennandi. En tónlistin er mín ástríða.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica