01. tbl. 110. árg. 2024
Ritstjórnargrein
Til hamingju íslenskir læknar með 110. árgang Læknablaðsins. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir
Læknablaðið er eitt af elstu tímaritum landsins. Af þeim blöðum sem enn eru gefin út eru eingöngu Skírnir – Tímarit hins íslenska bókmenntafélags (1827), sem er elsta tímaritið á Norðurlöndum, og Morgunblaðið (1913), eldri en Læknablaðið.1 Guðmundur Hannesson var fyrsti ritstjóri blaðsins þegar Læknafélag Reykjavíkur hóf útgáfu blaðsins 1915, en þá hafði hann gefið blaðið út sjálfur á handskrifuðu formi 1902-1904. Sannkallaður frumkvöðull. Síðan hefur blaðið verið gefið út sleitulaust og hefur nú sinn 110. afmælisárgang. Frá upphafi hefur Læknablaðið birt vísindaefni íslenskra lækna og síðar félagslegt efni einnig, sem hefur verið heilbrigðiskerfinu öllu afar mikilvægt. Gott heilbrigðiskerfi byggir á grunni þeirra vísinda sem fyrir liggja og þróast með vísindavinnu sem læknar og aðrir í heilbrigðiskerfinu stunda og verður aldrei skilið þar á milli. Af þessu tilefni verður í þessum 110. afmælisárgangi nýr efnisflokkur, Saga Læknablaðsins, sem Þröstur Haraldsson, fyrrum blaðamaður Læknablaðsins mun taka saman.
Íslenskir læknar eiga marga frumkvöðla. Í raun má segja að allir læknar sem farið hafa erlendis og stundað sérfræðinám og jafnvel doktorsnám, hafi allir komið með nýja þekkingu til baka til Íslands og eru því frumkvöðlar hver á sínu sviði. Þannig hefur læknanám á Íslandi, sérgreinalækningar og vísindavinna þróast með tilkomu nýrrar þekkingar og hæfni sem þjóðin öll hefur notið. Margir læknar hafa lagt sérlega mikið af mörkum innan kennslu, lækninga og vísinda og á þessum tímamótum er ástæða til að líta til baka og gera því skil í nýjum efnisflokki: Frumkvöðlar í læknastétt. Í þessu blaði birtist fyrsta grein þessa efnisflokks þar sem vísindavinnu innan læknadeildar út frá frumkvöðlavinnu Helga Valdimarssonar prófessors og fleiri eru gerð skil. Göngudeild sykursjúkra fagnar 50 ára afmæli sínu í þessum mánuði og er frumkvöðlavinnu Þóris Helgasonar, stofnanda hennar gerð skil með viðtali við eftirmenn hans. Árið 2023 fagnaði Blóðbankinn 70 ára afmæli sínu, starfsemi sem byggir á frumkvöðlastarfi Ólafs Jenssonar yfirlæknis sem hafði forgöngu um stofnunina. Svona má lengi telja, allt fram til dagsins í dag, er frumkvöðlastarfsemi lækna er gjarnan kölluð nýsköpun. Nýsköpun hefur í raun átt sér stað innan læknisfræðinnar frá upphafi. Reynt verður að taka saman frumkvöðla í læknastétt í sögulegu samhengi í þessum afmælisárgangi.
Í gagnabanka alríkislæknisfræðibókasafnsins Medline (National Library of Medicine) í Bandaríkjunum eru greinar frá yfir 70 löndum, birtar frá 1966, og finnast greinar úr Læknablaðinu þar fram til 1974. Mikið þrekvirki var unnið undir ritstjórn Vilhjálms Rafnssonar að koma blaðinu formlega aftur á Medline og þar með PubMed-leitarvélina í mars 2005.2 Þetta er óneitanlega frumkvöðlastarfsemi og staðfesting þess að birtar greinar í Læknablaðinu standist alþjóðlegar kröfur um fræðileg vinnubrögð.3
Fortíðin spegluð við nútímann, er nýr efnisflokkur þar sem greinar birtar í 1. árgangi Læknablaðsins eru speglaðar við nútímann. Hvað hefur breyst á þessum 110 árum? Í þessu fyrsta blaði afmælisárgangsins speglar Jón Snædal öldrunarlæknir Codex Ethicus frá 1915 við þann nýjasta. Jón er einn af okkar frumkvöðlum sem í viðtali við Læknablaðið sagðist stoltastur af stofnun Minnismóttökunnar á Landakoti.4
Greinarhöfundar og vísindamenn, ritrýnar, ritstjórnir og starfsfólk blaðsins fyrr og nú og fyrri ritstjórar eiga miklar þakkir skildar fyrir óeigingjarnt starf við að gera blaðið að því sem það er. Auk ritstjórnar og ritstjóra eru starfsmenn blaðsins í dag þrír, Védís Skarphéðinsdóttir, ritstjórnarfulltrúi blaðsins til fjölda ára, Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, blaðamaður blaðsins síðustu ár og Margrét Laxness umbrotsmaður. Þeim er þakkað fyrir þá góðu vinnu sem tryggir útkomu glæsilegs blaðs 11 sinnum á ári.
Kæru læknar og aðrir lesendur. Það er skemmtilegt og fróðlegt ár framundan hjá Læknablaðinu sem hefur nú útlitslegan hátíðarbrag í tilefni afmælisins. Um leið og ég óska blaðinu bjartrar framtíðar, óska ég þess að íslenskir ráðamenn auki sterklega fjármagn til íslenskrar vísindavinnu og auki skilning sinn á þýðingu þeirrar vinnu. Gott heilbrigðiskerfi byggir á dyggri og öflugri vísindavinnu.
Heimildir
1. Einarsson Ó. Læknablaðið nírætt. Læknablaðið 2005; 91: 9. | ||||
2. Rafnsson V. Læknablaðið í Medline. Læknablaðið 2005; 91: 403. | ||||
3. Sigurjónsson H. Ekki sjálfsagt að halda úti vísindatímariti í litlu málsamfélagi. Segir Jóhannes fyrrverandi ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins. Læknablaðið 2014; 100: 538-40. | ||||
4. Gunnarsdóttir GA. "Ég er ekki hættur" - segir Jón Snædal. Læknablaðið 2023; 109: 570-2. |