01. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Aldraðir hrumari eftir COVID-19-faraldurinn, segir Ragnheiður Halldórsdóttir á SAK

Fólk frá 75 ára aldri á Akureyri hefur einangrað sig meira eftir COVID-faraldurinn. Það er margt hvert hætt að mæta í félagsstarf, afþakkar félagsskap og ýmislegt annað tengt starfi eldri borgara. Þetta segir Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sem sér nú hátt í fjórðungs fjölgun innlagna í elsta aldurshópnum á sjúkrahúsið frá árinu 2019

„Ég er öldrunarlæknir og hef verið að að fylgjast með þessum hópi og séð að fólk hefur einangrað sig meira heima. Það hefur ekki haft sig aftur af stað eftir COVID,“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir öldrunarlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Það er svo varasamt fyrir heilsuna að loka sig af á þessum aldri og hætta að hreyfa sig, hætta að umgangast fólk.“

Ragnheiður Halldórsdóttir öldrunarlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri segir fráflæðisvandann engu minni á Akureyri en í borginni. Mynd/aðsend

Komum 75 ára og eldri hefur fjölgað um 20-25% frá árinu 2019, eða fyrir COVID-19, á meðan aukningin almennt er 9%. Ragnheiður segir faraldurinn klárlega hafa tekið sinn toll af öldruðum. Hrumleiki þeirra hafi aukist. Heilbrigðisstofnun Norðurlands hafi verið í vanda með heimahjúkrun og nú hafi spítalanum verið tilkynnt að ekki verði tekið við nýjum í hana næstu vikurnar. Fleiri festist því á spítalanum eftir innlögn.

„Þetta þýðir að við getum ekki útskrifað fólk heim sem þarf eftirlit með sárum og þvag-leggjum og hjálp við blóðþynningar-sprautur og kemst ekki auðveldlega milli heimilis og sjúkra-hússins.“

Ragnheiður segir vítahring myndast þegar þjónustan utan spítalans stíflist. Bæði megi skýra fjölgunina með verra atgervi fólks en einnig þar sem mygla leiddi til lokunar 22 rýma á hjúkrunarheimilinu Hlíð, þótt 10 hvíldarrýmum hafi svo verið bætt við. Staðan á spítalanum á Akureyri sé því hlutfallslega engu betri en á Landspítala.

„Við erum með 20% af bráða- og endurhæfingarrýmum upptekið vegna fólks sem bíður eftir réttu úrræði, 11 einstaklinga. Það samsvarar 110 á Landspítala. Við erum því ekki á betri stað.“ Teppan hafi mest verið 28% rýmanna nú í vor. Erfiðir tímar séu framundan. „Maður horfir til þess þegar pestirnar fara að geisa því okkur skortir einangrunarrými á spítalanum.“

Ragnheiður segir sjúkrahúsið á Akureyri í samvinnu við minni heilbrigðisstofnanir í kring: á Sauðárkróki, Siglufirði og Húsavík, sem hafi jafnvel tekið til sín aldraða Akureyringa. „Við höfum gert þetta í samvinnu við ráðuneytið til að skapa pláss.“

Ragnheiður segir lyflækninga- og skurðdeildirnar á sjúkrahúsinu, auk geðdeildarinnar, á slæmum stað. Nýtingarhlutfall lyflækningadeildar hafi til að mynda verið 101,3% fyrstu 11 mánuði ársins og 97,5% á skurðlækningadeild.

„Við nýtum öll skúmaskot, setjum auka rúm inn á herbergi og í sumum tilfellum hefur fullorðið fólk verið lagt inn á barnadeild.“ Hún segir fleira starfsfólk þurfa til að anna þessum fjölda. „En það hefur verið mikil áskorun að ráða inn það heilbrigðisstarfsfólk sem við þurfum.“

Efla eigi dagdeildir og flýta útskriftum eins og kostur sé og fækka innlögnum. Ófaglært starfsfólk hafi verið ráðið inn og lyfjaþjónustan efld. „Það eru allir undir miklu álagi, sérstaklega fólkið sem vinnur á deildum með mikla nýtingu rýma.“

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica