12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Liprir pennar. Íslenska leiðin. Ævar Örn Úlfarsson

Ég er semsagt nýi gæinn á háskólasjúkrahúsinu. Nýkominn heim eftir 10 ár í Svíþjóð og mér finnst allt æðislegt á þessari eyju. Kollegar mínir eru reyndar duglegir við að segja mér að eymdin og vesældin byrji að bíta um það bil sex mánuðum eftir heimkomu en ég held að þau séu bara að plata mig. Vextir, verðbólga og veður truflar mig bara ekki neitt.

Titlinum á þessum stutta pistli laust niður í mig á þriðjudagseftirmiðdegi. Sátum við nokkrir hjartalæknar samráðsfund þar sem erlendum hjartaskurðlækni misbauð eitthvað óreiðan og skipulagsleysið. „Here we do it the Icelandic way“ flaug þá úr góðum kollega mínum, það þurfti ekkert að ræða þetta mál frekar.

Undirritaður nýlentur og strax farinn að segja vaktstjóranum á hjartadeild fyrir verkum. Mynd/Bylgja Kærnested

En hvaðan kemur þetta íslenska fyrirbæri, þessi reddingarviðleitni sem er svo stórkostleg? Sænskir kollegar mínir hafa allavega oft orð á því hvað það sé magnað hvað íslenskir læknar eru lausnamiðaðir, það er allt græjað, alveg sama hvað kemur upp. Að vísu fékk ég líka að heyra að ég kynni alls kyns ósiði en ég passaði samt upp á að láta ekki Svíana taka þá af mér, ég lærði þá nefnilega í sveitinni. Þarf ekki eitthvað að fara að skoða það að senda alla unglækna í hérað eins og gert var hérna áður fyrr? Mér er nefnilega mjög umhugað um þessa ósiði og þessa reddingarmenningu, þetta er eiginleiki sem má ekki glatast. Kannski er þetta eitthvað arfgengt, einhver gömul landbúnaðar- og sjóaragen sem Íslensk erfðagreining þarf að skoða nánar. Allavega reddast það einhvern veginn allt að lokum.

Gekk til að mynda á milli húsa með dóttur minni að sníkja nammi á þeirri núorðið alíslensku hátíð Halloween, hvað varð um öskudag? Nei bíddu nú við, virðist sem nammið hafi klárast hjá góðum granna. Það hefði nú allt farið á hliðina í þessum aðstæðum hjá hinum hefðbundna Svía en ráðagóði íslenski blóðmeinafræðingurinn sem býr á móti mér var fljót að leysa vandann með Honey Nut Cheerios og börnin svona líka hoppandi kát.

Ég er samt duglegur að reyna að aðlagast íslensku samfélagi. Kominn í einkaþjálfun, takk Hjalti Guðmunds fyrir hvatninguna! Ég dró Halldór vin minn með, sem er líka nýkominn heim frá Lundi. Fæ reyndar alltaf bölvaðan móral því hann er kominn á rafmagnsbíl en ekki ég, skilst að allir þurfi að kaupa slíkan fyrir áramót svo ætli ég verði ekki að biðja um fleiri vaktir. Svo er Halldór líka miklu sterkari en ég en það er skiljanlegt þar sem hann er ortópati. Ég er líka búinn að panta skíðaferðina í febrúar eins og allir hinir, hef samt aldrei stigið á skíði áður, ég verð kannski bara í spa-inu. En þessar skíðagræjur kosta sitt svo ég þurfti að fá mér kreditkort. Af hverju skyldi ég aldrei hafa átt slíkt í Svíþjóð, þetta er voða sniðugt, ég ætla kannski að nota það til að panta Teneferðina um páskana.

Ég er nú samt staðráðinn í að reyna að halda í einhverjar sænskar hefðir í smá stund í viðbót. Held að minnsta kosti tryggð við Kåvepenin og kanelsnúða og er búinn að skipuleggja allar helgar út júní á næsta ári, það er eitthvað.

Jæja, best að fara að leggja pennann frá sér. Er að sjálfsögðu á síðustu stundu með þetta verk en hugga mig við að ég fæ ríflega greitt fyrir þennan pistil enda á gæsluvaktarkaupi. Þarf bara að muna að kíkja á fimleikaskutl-excelskjalið fyrir vikuna áður en ég fer að sofa. Reyndar hefur betri helmingurinn staðið sig talsvert betur en ég í þeim málum, þarf að fara að gyrða mig í brók. Blessuð börnin, þvílíka álagið sem fylgir þessum atvinnuíþróttatómstundum á þessu landi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica