12. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Þrjátíu málþing á Læknadögum í janúar 2024, Katrín Þórarinsdóttir stýrir þeim

Læknirinn, vísindamaðurinn og frumkvöðullinn Özlem Türeci, prófessor við Helmholtz-stofnun krabbameinslækninga og Johannes Gutenberg-háskólann í Mainz, verður meðal erlendra fyrirlesara á Læknadögum í janúar. Türeci var meðal stofnenda líftæknifyrirtækisins BioNTech. Það þróaði árið 2020 fyrsta mRNA-bóluefnið sem samþykkt var til notkunar gegn COVID-19.

„Já, ég hlakka mikið til að hlusta á erindið hjá Özlem um þróun nýrra bóluefna og heyra hennar framtíðarspá í þessum efnum,“ segir segir Katrín Þórarinsdóttir, formaður Fræðsluráðs og gigtarlæknir. „Mér finnst einkennandi fyrir Læknadaga nú hvað það er mikil fjölbreytni í efnisvali og einnig hversu mikill metnaður hefur verið lagður í málþingin.“

Katrín Þórarinsdóttir er formaður Fræðsluráðs sem stendur að Læknadögum. Þeir verða dagana 15.-19. janúar 2024. Mynd/gag

Sex málþing á dag, 30 í heildina, verða á Læknadögum í janúar auk síðdegisþinga. Þá verða um 15 hádegisfundir og fimm vinnubúðir. Katrín segir búist við 850-1000 manns. „Við vonumst auðvitað til að læknar fjölmenni á Læknadaga og við viljum einnig hvetja annað heilbrigðisstarfsfólk til þess að mæta.“ En er eitthvert málþing sem hún ætlar ekki að missa af? „Ég get eiginlega ekki gert upp á milli þeirra. Þetta á eftir að verða erfitt val þegar kemur að sjálfum Læknadögum.“

Læknadagar eru umfangsmiklir að vanda og verður þriðjudagurinn þemadagur: Klínísk viðfangsefni tengd lyflæknisfræði fyrir og eftir hádegi og Endurhæfing á Íslandi fyrir og eftir hádegi, svo eitthvað sé nefnt. „Læknadagar eru frábært tækifæri fyrir okkur lækna að fræðast og sjá nýjungar í læknisfræði en líka að hitta kollegana og styrkja böndin. Það er því synd að sleppa þeim,“ segir hún í léttum tóni.

Opnað verður fyrir skráningu á Læknadaga í byrjun desember.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica