11. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Dagur í lífi læknis sérnámsgrunnslæknis. Krister Blær Jónsson
Vakna 6:50, teygi mig yfir á náttborðið og slekk á vekjaraklukkunni. Kveiki á Rás 1 í sömu hreyfingu, Morgunvaktin. Snooza fram yfir morgunfréttir og stekk svo fram úr.
Vigta kaffibaunir, skelli þeim í kvörnina og mæli vatnið í réttu hlutfalli (1g:16ml). Set svo nýmalaðar baunirnar í kaffivélina og kveiki. Örstutt sturta á meðan kaffið mallar. Drekk morgunbollann og hlusta áfram á útvarpið, kem mér að lokum fyrir í hægindastól á meðan kærastan klárar að gera sig til.
Leggjum saman af stað í Fossvoginn 7:40. Ég stekk út og hún heldur áleiðis á lögmannsstofuna. Tek lyftuna upp á 7. hæð, mér verður starsýnt út um lyftugluggann og sé stigann hæðast að mér á meðan ég lyftist upp. „Tek hann kannski á morgun,” hugsa ég með mér.
Mynd af mér á SGL-árinu, Barnaspítala Hringsins, í 5 daga skoðun. Með á mynd er Theodór Kári Alexandersson, birt með leyfi foreldra.
Fer í Landspítala-náttfötin, lyflækningahvítur frá toppi til táar (í stíl við klossana), næli mér í kaffibolla og kem mér fyrir í Blásölum, klukkan er 8:03. Medisín. Fragtflutningaskip Landspítala. Hér er ég bara kandídat á plani. Kemst að því hvort að plan dagsins standist, fæ ég sama teymi og í gær? Jú, heppnin er með mér í dag.
Labba niður á deild og finn höktandi sýndartölvu, kynni mér nýju sjúklingana og allt sem hefur gerst hjá þeim eldri. Geng stofugang, hringi konsúlt, fæ mér meira kaffi og panta blóðprufur. Hádegismatur. Minn uppáhaldstími, hitti gamla bekkjarfélaga sem eru einnig að stíga sín fyrstu skref á kandídatsárinu. Hér deila allir sögum af hinum ýmsu deildum spítalans. Tölum um rafræn eyðublöð, áhugaverð tilfelli og mat dagsins. Erum ekki byrjuð að stunda gangalækningar. LSH-Bistro fær misjafna einkunn og er þeim eiginleika gætt að matreiða kjúklingaleggi úr fjórum mismunandi kryddblöndum og nefna alla réttina eftir framandi löndum.
Klára hádegismatinn, fylli á tómann kaffibollann og kem mér aftur upp á deild. Tek stigann núna, vil ekki sjást of oft í lyftunni. Næst þarf að huga að útskriftum dagsins, LSH hefur jú tekið við af BSÍ sem samgöngumiðstöð landsmanna með daglegar áætlunarferðir á HVest, HSu, Landakot og SAk. Endurkomutímar, lyfseðlar og bréf til sjúklings – sérfræðigrein kandídatsins, allt þarf þetta að vera klárt. Vaktaskipti, segi gömlu bekkjarsystkini frá veikustu sjúklingunum á deildinni, passa sérstaklega upp á góða yfirfærslu ábyrgðar, en losna ekki við þá tilfinningu að hér sé haltur að leiða blindan. Held heim, furða mig á ákvörðun Reykjavíkurborgar að loka ⅓ akreina Kringlumýrarbrautar í septemberbyrjun, traffíkin umlykur einkabílinn á meðan.
Plan eftirmiðdagsins, golf. Nýjasta áhugamálið. Tók það upp eftir útskrift, ég átti þegar hjól og gönguskó. Þurfti því að velja um annaðhvort skíði eða golfkylfur og enginn var snjórinn í júní (þó meðalhitinn í Reykjavík hafi verið <10°C). Staldra ekki lengi við heima og stekk af stað í GKG að hitta félagana. Mætum aðeins fyrir rástímann til að hita upp. Höldum svo af stað, 9 holur framundan. Fáum það staðfest að sumarið á Íslandi sé enn á fullu flugi í september, 7-10°C. Höggin eru síbreytileg og kúlan hvikul, enda undirritaður nýbyrjaður, líkt og á kandídatsárinu. Tölum ekki um læknisfræðina fyrr en á 7. holu. Held svo heim með einn fugl, par og nokkra skolla.
Kvöldmaturinn er alveg að verða klár þegar ég kem heim, næ að hjálpa aðeins til og leggja á borð áður en maturinn er klár. Ég sé þá um kvöldmatinn næst, en við kærastan reynum að skiptast á. Kveikjum á kvöldfréttunum á meðan við borðum og tölum um daginn. Eftir matinn tekur það helsta á streymisveitunum við. Oftast er þetta einn þáttur, stundum tveir. Kíki á skema morgundagsins fyrir svefninn, hvað ætli bíði mín? Jú, nýtt teymi og ný deild en sami spítalinn. Velti því svo fyrir mér áður en ég sofna „verður það stiginn eða lyftan?”
P.S. Gaman að fá svo útborgað mánaðarlega.