09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Dagur í lífi bæklunarlæknis á Sjúkrahúsi Akureyrar. Elísabet Björgvinsdóttir

Vaknaði kl. 05:15, fór í ræktina og hljóp 10 km áður en börnin fimm vöknuðu. Djók.

Klukkan hringir kl. 07:30, snúsa tvisvar. Hundurinn vaknar líka, hann er að komast á kynþroska … Fann úttættan bangsa liggjandi á gólfinu, svívirtan … þessi ljónabangsi man sinn fífil fegurri … Sópa upp restinni af ljónabangsanum áður en ég kveiki á kaffivélinni.

Fyrsta vikan er að klárast eftir stutt sumarfrí. Júlí er hálfnaður og það eru 5 gráður úti … á Akureyri … það hlýtur að þýða að inferno er á næsta leyti því að það er alltaf gott veður á Akureyri.


Selfie tekin fyrir tónleika með Ljótu hálfvitunum á Græna hattinum.

Sendi tvö yngstu börnin gangandi á leikjanámskeið í KA. „Mamma mig vantar nesti“.

„Já barnið mitt, mig vantar líka ýmislegt því Seðlabankastjóri hatar mig … Reyndu nú að græja þetta sjálfur, ég fór í Bónus í gær og keypti mat fyrir milljarð.“

Maðurinn minn skutlar mér í vinnuna, það tekur 3,5 mínútur en ég bara nennti ekki að labba … yfirlæknir á ekki að þurfa að labba í vinnuna, ég ætti að vera með prívat-bílstjóra … sagði engin.

Stimpla mig inn, fer á röntgenfund og hitti kollega Ólaf Ingimarsson og afleysingalækninn okkar frá Svíþjóð, hana Elmu.

Deildarlæknirinn og kandídatinn reyna að koma röntgenkerfinu í gang … Æjá , röntgenlæknar halda ekki röntgenfundi því bæklunarlæknar skoða myndirnar sjálfir; ok Ísland.

Förum á stofugang eftir röntgenfund, inniliggjandi túristar og post-op sjúklingar.

Bæklunarlæknar á Akureyri eru mjög fjölhæfir, geta lesið EKG og túlkað blóðprufur … en bara ef það stendur texti á ritinu „abnormal EKG“ og blóðprufurnar eru ekki rauðar.

Spyr Ólaf Ingimarsson sem er að skoða EKG: „Óli hvað fékkstu eiginlega í medicine á lokaprófinu, þú ert úlfur í sauðargæru, hvað er eiginlega að þér?“

Svar: „Að sjálfsögðu, Elísabet, kann maður að lesa EKG, ég les ekki þennan japanska texta, við erum læknar … Það sér hver maður að þessi sjúklingur er úr takti eða eins og maður segir á þýsku: Dieser Mann hat keinen Sinusrhytmus.“

Hláturskast …

Höldum áfram með stofugang. Blótum skemmtiferðaskipum og svo fer ég í pappír. Sit í pappírsvinnu og diktera vottorð … drep.

Fer svo á fund með mannauðsstjóra og staðgengli framkvæmdastjóra lækninga til að ræða framtíðina.

Rosalega er gott að vinna á SAK, bjartsýn upp á framhaldið. Fer heim og elda bjúgu.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica