09. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Gagnsemi og skaðsemi fordóma. Björn Hjálmarsson

Ef við vissum allt þyrftum við ekki á fordómum að halda. Kunnátta, þekking og skilningur eru okkar bestu andsvör gegn fordómum. Trúlega eru fordómar okkur mikilvægir til þess að við getum gert okkur heilsteypta heimsmynd og sjálfsmynd. Það tekur langa ævi að kynnast háska og fjölbreytileika heimsins og mótsögnum í okkar innri veruleika. Við erum hverful, brothætt, skeikul og breysk. Við vitum ekki nóg til þess að smíða okkur heilsteypta heimsmynd og sjálfsmynd. Við notum fordóma til þess að stoppa í þekkingargötin. Fordómar geta verið gagnlegir en þeir eru skaðlegir þegar þeir valda mismunun og útskúfun hópa.

Fordómar gagnvart geðsjúkum

Fordómar gagnvart geðsjúkum eru algengur vandi á heimsvísu. Þeir valda mismunun og snúast um viðhorf, tilfinn-ingar og neikvæða hegðun gagnvart fólki með geðröskun.1 Fordómar gagnvart hópum valda ytri og innri útskúfun og hnignandi líkamlegu, andlegu og félagslegu heilsufari. Ytri útskúfun er þegar einstaklingur er skilinn frá hópnum eins og gerist í einelti eða annarri útilokun frá félagslegri þátttöku. Innri útskúfun er þegar einstaklingur upplifir sig ekki tilheyra hópnum lengur. Af þessu spretta erfiðar tilfinningar eins og sektarkennd, skömm, að upplifa sig niðurlægðan og minnimáttar: jafnvel smáðan og sigraðan.

Geri geðsjúkir fordóma samfélagsins að sínum, kemur það í veg fyrir að þeir leiti sér hjálpar við vanda sínum.2 Því veldur ótti um gildislækkun. Það getur aukið geðræna sjúkdómsbyrði. Alvarlegir geðsjúkdómar verða alvarlegri en ella, beini sá geðsjúki neikvæðum og gildishlöðnum fordómum gegn sjálfum sér (internalized stigma). Hann fær skömm á sjálfum sér, sem er afar flókin og félagslega hlaðin tilfinning sem skerðir sjálfsmynd.3

Þegar sá geðveiki innhverfir samfélagslega fordóma leiðir það til hnignandi heilsufars hvað snertir atvinnuþátttöku, félagslega stöðu og fjölskyldulíf.4 Til þess að draga úr þessum skaðlegu áhrifum fordóma á líf geðsjúkra hafa verið farnar eftirfarandi leiðir og hafa sú fyrsta og sú síðasta skilað gagnreyndum árangri.

  • Sálfræðileg kennsla um innhverfða fordóma.
  • Hugræn atferlismeðferð til þess að draga úr skaðlegum hugsunum um sjálfan sig sem spretta af fordómum.
  • Afhjúpun á eðli geðsjúkdóms og markviss fræðsla um hann.
  • Margþátta íhlutanir sem nýta sér alla ofangreinda þætti.

Vanmat á sjúkdómabyrði vegna geðsjúkdóma

Stjórnvöld virðast vanmeta sjúkdómabyrði af völdum geðsjúkdóma, sem getur átt sér eðlilegar skýringar. Vigo og félagar5 töldu 5 orsakir fyrir þessu vanmati:

  • Skörun milli taugasjúkdóma og geðsjúkdóma sem leiðir til vanmats á þeim síðarnefndu.
  • Það að flokka sjálfsvíg og sjálfskaða sem sérstakan sjúkdómaflokk utan ramma geðsjúkdóma.
  • Það að líta á langvinn verkjaheilkenni sem stoðkerfisvanda fremur en mögulegan geðsjúkdóm.
  • Útilokun á persónuleikaröskunum frá útreikningum á sjúkdómabyrði.
  • Það er ekki tekið nægilegt tillit til þess hversu geðsjúkdómar stytta mannsævina með því að ýta undir dánartíðni af völdum annarra sjúkdóma. Meðalævi þeirra sem hafa alvarlegustu geðsjúkdóma er mannsaldri skemmri en annarra.

Þegar leiðrétt er fyrir þessa þætti reiknast Vigo að geðsjúkdómar valdi 32% af þeim hluta sjúkdómabyrði sem lýtur að því að lifa við skerðingu í lífi sínu vegna sjúkdóms og 13% af ótímabærum andlátum vegna sjúkdóms (það er einstaklingar sem ná ekki meðalævi vegna geðsjúkdóms). Það er hlutverk stjórnvalda að gæta jafnræðis í fjárveitingum og úrræðum milli ólíkra sjúkdómaflokka og taka mið af sjúkdómabyrði.

Heimildir

 

1. Michaels PJ, López M, Rüsch N, et al. Constructs and concepts comprising the stigma of mental illness. Psychol Soc Education 2012; 4: 183-94.
https://doi.org/10.25115/psye.v4i2.490
 
2. Gierk B, Löwe B, Murrey AM, et al. Assessment of perceived mental health-related stigma: The stigma-9 questionaire (STIG-9). Psychiatr Res 2018; 270: 822-30.
https://doi.org/10.1016/j.psychres.2018.10.026
PMid:30551331
 
3. Tracy J, Robins R. Putting the self into self-conscious emotions: A theoretical model. Psychol Inquiry 2004; 15: 103-25.
https://doi.org/10.1207/s15327965pli1502_03
https://doi.org/10.1207/s15327965pli1502_01
 
4. Alonso M, Guillén AI, Munoz M. Interventions to reduce internalized stigma in individuals with mental illness: A systematic review. Span J Psychol 2019; 22, e27: 1-4.
https://doi.org/10.1017/sjp.2019.9
PMid:31084665
 
5. Vigo D, Thornicroft G, Atun R. Estimating the true global burden of mental illness. Lancet Psychiatr 2016; 3: 171-8.
https://doi.org/10.1016/S2215-0366(15)00505-2
PMid:26851330


Þetta vefsvæði byggir á Eplica