0708. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Liprir pennar. Vegur fljótanna. Ferdinand Jónsson
Öldur erfiðleika, fordóma og réttlætis leika á morgunflóði. Inn í þessi orð.
Ég hef verið geðlæknir í Tower Hamlets, í miðborg Lundúna, í 16 ár. Í þessu landi lærði ég mitt fag. Tuttugu og sex ára útivera. Hér er gott að vera. Innan hins hásiðaða heilbrigðiskerfis unir sonur hjúkrunarfræðingsins íslenska sér vel. Er hlutdrægur. Ég held að þetta sé besta heilbrigðiskerfið. Bretar stoltir. Og þó að óveðursskýin hrannist upp, láta þeir ekki eitthvað fara sem þeir elska. Fátækir og ríkir eru jafnir frammi fyrir NHS, sem og guði.
Ætlaði að læra í Bandaríkjunum, eins og svo margir mætir læknar heima. Glaður að svo varð ekki. Fæ aðstoðarlæknana til að eiga samskipti við sendiráð Bandaríkjanna þegar senda þarf þegna þeirra heim. Óttast að ég fengi aldrei fararleyfi þangað, ef ég segði þeim hvað mér raunverulega finnst. Sérstaklega hvernig þeir meðhöndla þá, sem mest eiga undir högg að sækja. Alvarlega veika fólkið. Átakanlegt að sjá heimilislausar manneskjur, eins og vofur, á götum allsnægtanna. Það þarf engar gráður til að sjá að þetta fólk er mikið veikt. Sem slíkt hefur það, eða fjölskyldur þess, ekkert gert rangt. Fólk með augljósa heilasjúkdóma á götunum, glatað í heimi ómeðhöndlaðra, langtgenginna geðsjúkdóma.
Siðferði er grunnur þess að vernda sjúklinga og fjölskyldur gegn grimmum örlögum, sem margir geðveikir Bandaríkjamenn mæta.
Í raun grunnur alls.
Minn söknuður til heimahaga er viðvarandi og á tíðum sár.
En líf okkar eru ólík.
Að flytja hingað bjargaði mér.
Ég ólst upp á tímum mikillar skammar. Áður en samkynhneigð var meðtekin. Ef til vill á yfirborðskenndan hátt. Eftir hörmungar alnæmisfaraldursins.
Á Thamesárbökkum fæddist frelsi leyfanleikans, litanna rauðu, dimmu, heitu …
Það er gott að vera Íslendingur hér. Samskiptamáta minn færi ég gjarnan yfir á upprunann: Íslendingar eru opnir og segja sannleikann. Sérstaklega þegar hann á ekki við … Eru eins við alla. Láta heilbrigðisráðherra og hæstvirta dómara í réttarsal heyra það …
Líkar vel við Breta. Þótt Brexit fyrirgefi ég seint. Allar lygar og handvammir heimsfaraldursins.
En það er eitthvað fagurt við fólk sem hættir að slá garðana sína vegna ástar til skordýra. Og í Tower Hamlets mætast þjóðir jarðar. Bretar gestrisnir, kurteisir og fordómar vel faldir. Óvíða er hægt að vinna með eins mörgum þjóðum. Nema líkindi okkar og mennsku.
Og starfið gefur mikla von í erfiðum heimi hnattrænna vandamála. Ég hef séð ómældan kærleika sem ókunnir eiga og gefa öðrum í neyð. Upplifun full auðmýktar. Veitir varanlega von.
Á minn verndarhjúp. Gegn erfiðu starfi og öllum sársaukanum … Geðhvarfafljótið hefur fylgt mér í meira en 36 ár. Alvarlegur geðsjúkdómur. Þekktur báðum megin borðs. Brenn fyrir faginu.
Þetta ferðalag hefur auðvitað ekki verið nein skemmtiferð. Þekki hörmungar veikindanna, neyðina og fordómana vel á eigin skinni. En alltaf verið vel studdur og varinn af nánum vinum, sem margir eru líka geðlæknar. Á ástríka fjölskyldu. Frábært fagfólk hefur annast mig. Skiljanlega segi ég ekki frá þessu opinberlega.
En allt hefur sinn tíma.
Staðreynd er að geðlæknisfræðin á sér myrka sögu. Fordómarnir kraftmiklir. Hingað safnast líka öfgahópar sem eiga sannleika. Boða fagnaðarerindi einfaldra lausna. Vita allt best ... Og okkar lífsbjargandi lyf litin hornauga. Vissulega þreytandi en orrusturnar helgar þó að stríðið vinnist seint. Inn í miðjan hildarleik rata saklausir læknanemar. Sem og ég forðum. Ef ekki tekst að vinna á þeirra neikvæðu hugmyndum munu þær versna. Þungi fordóma er mestur meðal annarra heilbrigðisstétta.
Merkur yfirlæknir, á lyfjadeild Konunglega Lundúnaspítalans í Whitechapel, innti læknanema, sem var á leiðinni til mín, eftir því hvert hann færi næst.
„Geðið.”
„Ég hélt að það væri hætt að kenna það.”
Og íslenski læknirinn í Tower Hamlets skýldi sér aftur á bak við upprunann, meðan beljandi Skeiðarárfljóts flæddi …
En gleði á góðum degi að fá að vinna með þjóðum heims og mörgum þeim miklu manneskjum sem glíma við geðsjúkdóma.
Vonin sjaldan langt undan.
Hún er smitandi.
Og eyja móður minnar rís í Tower Hamlets.
Framhjá flýtur tímalaus Thamesáin, sem og voldug Þjórsá minnar æsku.