0708. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Flugvöllur eða fjölbýlishús – hvar slær hjartað? Magdalena Ásgeirsdóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er höfuðborgar hvergi getið. Í 10. grein sveitarstjórnarlaga segir: Reykjavík er höfuðborg Íslands.

Þann 28. nóvember 2019 var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu. Í samkomulaginu eru aðilar sammála um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan á undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Í samkomulaginu er miðað við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar. Þá lýsir Reykjavíkurborg jafnframt yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi. Þann 27. apríl 2023 var birt skýrsla starfshóps sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra skipaði til að meta áhrif á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Niðurstaða starfshópsins er að ný byggð í Skerjafirði muni að óbreyttu þrengja að og skerða notagildi Reykjavíkurflugvallar vegna breytinga á vindafari.

Reykjavíkurflugvöllur þjónar ekki eingöngu innanlandsflugi, um völlinn fer meirihluti alls sjúkraflugs á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá Mýflugi voru 887 sjúkraflug á þeirra vegum árið 2022 og 70-80% þeirra fóru um Reykjavíkurflugvöll.

Sjúkratryggingar Íslands semja um kaup á heilbrigðisþjónustu, bæði innanlands og utan, fyrir þá sem eru sjúkratryggðir á Íslandi. Um er að ræða sérhæfða heilbrigðisþjónustu erlendis, svo sem líffæragjafir og líffæraígræðslur héðan, stofnfrumuskipti, hjartaaðgerðir barna og fósturaðgerðir. Flestir þessir samningar eru við sjúkrahús í Svíþjóð en ákveðnar meðferðir til dæmis í Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Landspítali er spítali allra landsmanna og þar „millilendir” allt veikasta fólk landsins. Staðsetning hans við jaðar Reykjavíkurflugvallar hefur örugglega bjargað fleiri mannslífum en nokkur gerir sér grein fyrir. Hingað koma sérhæfð teymi erlendis frá með sjúkraflugvélum, tengja til dæmis hjarta- og lungnavélar við bráðveik börn fyrir flug. Þar skiptir hver einasta mínuta máli og tafir eru versti óvinurinn. Einnig er flogið heim með fárveika Íslendinga sem veikjast erlendis. Við teljum okkur velferðarsamfélag og þjóð á meðal þjóða og í því felst alþjóðleg samvinna, meðal annars varðandi líffæragjafir og líffæraígræðslu. Staðsetning landsins er þannig að við erum á mörkum þess að geta tekið þátt í þessu samstarfi. Þegar við gefum líffæri koma hingað líffæragjafateymi, oft á fleiri flugvélum en einni þar sem líffærin fara til fleiri en eins lands. Líffærin þola mislangan tíma utan líkama, viðkvæmast er hjarta sem þolir um það bil fjórar klukkustundir. Flug til Gautaborgar þar sem ígræðslur hafa farið fram undanfarin ár eru þrjá klukkustundir. Því má heldur ekki gleyma að þegar Íslendingar sem eru á biðlista eftir líffæri fá kallið, sem er fyrirvaralaust, er oftast flogið beint frá Reykjavíkurflugvelli í sjúkraflugi. Ef Reykjavíkurflugvöllur verður ónothæfur og það þarf að fara til Keflavíkur getum við líklega hvorki gefið eða þegið hjarta og lungu. Erlend líffæragjafateymi koma allt að 12 sinnum á ári samkvæmt Kristni Sigvaldasyni gjörgæslulækni. Neyðarakstur til Keflavíkur er mögulegur þegar lögregla hefur lokað öllum stofnbrautum að Reykjanesbrautinni en er það mögulegt á háannatíma að morgni eða síðdegis? Flugbrautir í Keflavík eru langar og aksturstími flugvéla áður en tekið er á loft er að jafnaði lengri en á Reykjavíkurflugvelli, við þetta tapast dýrmætur tími.

Heilbrigðisþjónusta er á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Höfuðborg, hlutverk og skyldur ættu líka að vera skilgreind og bundið í lög en ekki háð duttlungum sitjandi borgarstjórnenda.

Ég velti fyrir mér hvort almenn umræða eins og um uppbyggingu í Nýja Skerjafirði og skerðing á notagildi Reykjavíkurflugvallar væri eins lítil og raun ber vitni ef borgaryfirvöld hefðu til dæmis ákveðið að leysa til sín landsvæði golfvalla sem eru í borginni til að þétta byggð?

Heimildir

Áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Stjórnarráð Íslands/Innviðaráðuneytið - stjornarradid.is - apríl 2023.

Flugvallakostir á suðvesturhorni landsins. Stjórnarráð Íslands/Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið - stjornarradid.is - stjornarradid.is - nóvember 2019.

Ríki og borg undirrita samkomulag á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu. - Stjórnarráð Íslands/Innviðaráðuneytið - stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/11/28/Riki-og-borg-undirrita-samkomulag-a-grunni-skyrslu-um-flugvallakosti-a-sudvesturhorninu/ - júní 2023.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica