06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Einn af okkur? Halldóra Jónsdóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Eins og fyrri pistlahöfundar hef ég verið bókaormur frá því að ég man eftir mér og ég er stöðugt að fylgjast með og skipuleggja hvaða bækur ég vil og þarf að lesa. Það eru margar bækur/sögur sem hafa hreyft við mér, kennt mér hluti um lífið, um fegurð og ljótleika, um náttúru, fólk, athafnir og tilfinningar. Þegar ég velti því fyrir mér hvaða bækur ég hef oftast lesið, komst ég að því að það eru auðvitað bestu barnabækurnar, ævintýrin sem ég drakk í mig aftur og aftur sem barn og las svo aftur fyrir mín eigin börn. Fullorðin hló ég og táraðist yfir sömu atburðum í sögum og barnið ég gerði. Líklega vöktu sumar þessara bóka sterkari tilfinningaviðbrögð á fullorðinsárunum með meiri skilningi á umfjöllunarefninu og stöðu persóna og leikenda. Þetta eru bækur Astrid Lindgren, Guðrúnar Helgadóttur og Tove Jansson. Mikið fann ég sem fullorðin til með mömmu Snúðs og Jónatans Ljónshjarta sem sat ein eftir þegar báðir drengirnir hennar voru dánir, þó að þeir væru sprelllifandi í sínu eigin magnaða ævintýri. Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur sem foreldra að lesa áfram barnabækur um allskonar börn, sjá þau og skilja. Ég er alltaf að hitta Emil í Kattholti, Ronju og Madditt og þau eru alltaf jafn heillandi og skemmtileg.

Ég hef haldið áfram að lesa allskonar ævintýri á fullorðinsárum, bæði fantasíur og vísindaskáldskap, en líka annars konar bókmenntir og á marga uppáhaldshöfunda. Sú bók sem hefur hreyft einna mest við mér á síðustu árum er líklega bók norska höfundarins Åsne Seierstad, En av oss, sem kom út í íslenskri þýðingu Sveins H. Guðmarssonar árið 2016. Bókin segir sögu norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik. Hryðjuverk hans þann 22. júlí 2011 voru skelfilegri en nokkur hefði getað ímyndað sér. Breivik drap í allt 77 einstaklinga, fyrst 8 með sprengju við skrifstofu forsætisráðherra í Osló og svo hélt hann til eyjunnar Utøya í stöðuvatninu Tyrifjorden sem liggur um 40 km norðvestur af Osló og skaut 69 ungmenni til bana og særði 66 til viðbótar. Ungmennin voru stödd á sumarþingi ungmennahreyfingar Verkamannaflokksins. Breivik er norskur hægri öfgamaður og þetta var upphafið að byltingu hans gegn stjórn Verkamannaflokksins í Noregi. Honum tókst ætlunarverk sitt í því að hann varð frægur og fékk gríðarlega athygli í kjölfar verknaðarins. Hann hefur sjálfur kallað verknaðinn bókarkynningu á 1500 blaðsíðna Manifestói sem hann skrifaði um baráttu kristinna og múslima og um undirbúning hryðjuverkanna. Hann setti þessi skrif á netið sama dag og hann framdi hryðjuverkin.

Höfundur bókarinnar er rannsóknarblaðamaður og bókin er skrifuð eftir miklar rannsóknir hennar á efninu. Hún lýsir uppvexti Breivik og þroskasögu, pólitískum þreifingum hans og ferð inn í heim hægri öfgaskoðana. Hún lýsir líka skipulagningu hans á árásinni. Bókin segir einnig sögu fjögurra ungmenna sem voru stödd á Utøya og fjölskyldna þeirra. Saga morðingjans er vissulega áhrifarík og fyrir mig sem geðlækni er hún mikilvæg til að skilja hvernig einn einstaklingur getur skipulagt og framið slíkt voðaverk. Það skýrist margt, en vissulega ekki allt. Það er þó saga fórnarlamba hans og fjölskyldna þeirra sem situr eftir og er áhrifamest. Þessi 18 ára ungmenni og framtíðar stjórnmálafólk voru heillandi hvert á sinn hátt, með ólíkan bakgrunn en öll með brennandi áhuga á stjórnmálum, mannréttindum og betra samfélagi.

Þessir atburðir gerðust nálægt okkur og í okkar samtíma. Efni bókarinnar er vissulega þungt og átakanlegt en að mínu mati nauðsynlegt að lesa og freista þess að skilja hvað lá að baki þessu voðaverki. Höfundur nálgast efnið af hlutleysi og segir sögu Breivik og ungmennanna hispurslaust. Saga þeirra og atburðanna í heild er frábærlega skrifuð og veitir manni mikla innsýn í atburðina þann 22. júlí 2011.

Mig langar í lokin að nefna aðra gjörólíka sögu sem er ekki síður mikilvæg og hafði mikil áhrif á mig. Það er The Overstory eftir Richard Powers. Hún segir sögu nokkurra einstaklinga sem hvert á sinn hátt tengjast trjám og skilja líf þeirra, taugakerfi og mikilvægi. Hver saga er grípandi og hreyfði hjartastrengi þessa lesanda. Sögurnar virðast lengi standa sjálfstæðar en í lok bókar tengjast persónur hennar saman og samhengið verður svo miklu stærra og lengra en ein mannsævi.

Ég skora á annan geðlækni, Þórgunni Ársælsdóttur, að skrifa um bók sem hreyfði við henni og segja okkur lesendum frá henni.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica