06. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Stefna á að fjölga læknanemumum 7 haustið 2024, segir forseti læknadeildar

Læknadeildin ætlar fyrst að fjölga læknanemum þegar fjármögnunin er ljós.
„Boltinn er hjá stjórnvöldum,“ segir Þórarinn Guðjónsson forseti læknadeildar.
Fulltrúi Jessenius-læknaskólans í Slóvakíu vill sjá fé fylgja íslenskum læknanemum út

„Við búumst við því að læknanemar verði 67 haustið 2024 og að við fjölgum þeim í 75 árið eftir,“ segir Þórarinn Guðjónsson, forseti læknadeildar. Stíga þurfi varlega niður áður en fjölgað er þar sem fyrsti 60 manna hópurinn fari nú í klínískt starf. „Margt þarf að breytast áður en við fjölgum,“ segir hann. Mikil vinna hafi farið fram og mörg minnisblöð skrifuð.

Læknanemar í kennslustund í Læknagarði árið 2019. Þeim á að fjölga en fyrst þarf að tryggja fjármögnunina. Mynd/gag

„Við erum búin að vera í fullri vinnu við að greina stöðuna,“ segir hann. „En við höfum ekki heyrt frá ráðuneytinu um fjármögnunina. Við höfum séð auglýsingar eins og aðrir um að það eigi að koma með fjármagn en ekki er búið að eyrnamerkja það hingað inn. Við gerum ekkert fyrr en við vitum hvað við höfum í hendi,“ segir hann. „Stjórnvöld eru þannig lagað búin að samþykkja þetta en þó hefur ekkert gerst. Boltinn er hjá þeim.“

Samkvæmt tölum læknadeildarinnar var beinn kostnaður hennar í fyrra um 2,3-2,4 milljónir á ári á hvern nema í læknisfræði. „Þá er ekki tekinn með stjórnunarkostnaður innan heilbrigðisvísindasviðs eða kostnaður við stjórnsýslu Háskóla Íslands,“ segir hann. Kostnaðurinn sé því um 13,8-14,4 milljónir á hvern læknanema í heild.

Þórarinn segir málið ekki aðeins snúast um peninga heldur einnig aðstöðuna. „Verið er að byggja nýjan spítala og hús vísinda en það verður ekki tilbúið fyrr en eftir 3-4 ár. Við erum samt jákvæð fyrir því að svara kallinu. Við munum gera það þegar peningar koma.“

Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi og fulltrúi Jessenius-læknaskólans á Íslandi, bendir á fleiri leiðir til að fjölga íslenskum læknum og telur að slóvakíski skólinn gæti tekið 70-90 íslenska stúdenta á ári en þar stunda nú um 200 Íslendingar nám. „Mest hafa 60 íslenskir stúdentar náð inntökuprófi og staðfest skólavist.“ Námsgjöldin eru nú 10.900 evrur, eða tæpar 1,6 milljónir á ári.

„Íslenska ríkið ætti að íhuga að greiða skólagjöld og uppihald nemenda og leyfa þeim að velja hvert þeir fara. Þannig fengi ríkið fjölbreytni í læknastéttina sína og hóp með stærri sjóndeildarhring,“ segir hann. „Þetta er einnig ódýrara fyrir ríkið en að fjölga læknanemum heima fyrir og það eina sem er raunhæft, því við erum jú ekki nema tæp 390 þúsund.“

Ríkissjónvarpið greindi frá því í fréttum í apríl að algengt væri að nýútskrifaðir læknar að utan skuldi um 20-30 milljónir króna eftir grunnnámið. Menntasjóður gat ekki staðfest þessar tölur en sagði læknanema erlendis fá 1,9 milljónir til viðbótar við aðra lánsupphæð, sem hafi verið að hámarki 6,3 milljónir í skólagjaldalán á síðasta skólaári. „Já, en þó má ekki gleyma að mun ódýrara er að lifa í Slóvakíu en á Íslandi,“ segir Runólfur. „Það er því ekki óraunhæfari kostur fyrir þau sem búa ekki í foreldrahúsum að fara til Slóvakíu.“

Þórarinn segir að hann hafi ekki skoðun á þessari hugmynd Runólfs. Tilfinning sín sé að flestir þessara nemenda myndu gjarnan vilja vera í námi hér heima. „Ég myndi því frekar vilja sjá fjölgunina hér heima. Við erum í samvinnu við sjúkrahúsin á landsbyggðinni og viljum fjölga möguleikunum en það má ekki koma niður á gæðum.“

En er þessi kostnaður við að mennta lækna hér heima raunverulega hindrun? „Í samanburði við aðra skóla er þetta mjög lág tala,“ segir Þórarinn. „Við erum greinilega alltaf að fylgja íslenska þetta reddast módelinu. Það er eins og það sé ekki gert ráð fyrir því að utanumhald við svona kennslu kosti.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica