06. tbl. 109. árg. 2023

Ritstjórnargrein

Rannsóknir – þekking – þjónusta. Ásgeir Haraldsson

Ásgeir Haraldsson | prófessor í barna­lækningum og forstöðumaður fræðasviðs | Barnaspítala Hringsins | Landspítala

doi 10.17992/lbl.2023.06.745

Undanfarin ár hefur mikil umræða farið fram um stöðu vísinda og rannsókna í íslenska heilbrigðiskerfinu. Ljóst er að frá aldamótum hefur dregið verulega úr heilbrigðisrannsóknum á Íslandi – sem vissulega er verulega alvarlegt mál. Ráðgjafafyrirtækið McKinsey hefur reglulega farið yfir stöðu Landspítalans. Í nýjustu skýrslu fyrirtækisins kemur fram að umfangi og árangri vísindavinnu hefur hrakað verulega.1 Um aldamót var staða rannsókna, mæld í birtingum greina og tilvitnunum í birtingar, sambærileg við önnur Norðurlönd. Ein ástæða þeirrar stöðu er gott samstarf við Íslenska erfðagreiningu og Hjartavernd. Í úttekt McKinsey og í grein prófessors Magnúsar Gottfreðssonar2 hefur árangur háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum batnað ár frá ári á sama tíma og dregur úr árangri á Landspítala. Þessari þróun verður að snúa við.

Rannsóknir eru undirstaða þekkingar. Þekking leiðir til framfara. Framfarir í heilbrigðisvísindum leiða til betri árangurs. Framfarir skapast af rannsóknum um heim allan. Þessar framfarir eru hraðar og miklar, þekking gærdagsins verður fljótt gömul. Þekkt er að þau erlendu háskólasjúkrahús sem flestir þekkja vegna afburða árangurs og framfara, eru einmitt þau háskólasjúkrahús sem leggja mestan metnað í öfluga rannsóknastarfsemi. Það er ekki tilviljun. Ekki er þó alltaf hægt að yfirfæra erlendar rannsóknir beint yfir á íslenskar aðstæður og því mikilvægt að rannsóknir fari einnig fram hérlendis. Nauðsynlegt er að metnaðarfullir heilbrigðisstarfsmenn geti tekið þátt í þeirri þróun og þekkingarauka.

Athyglisvert er að það eru ekki einungis niðurstöður rannsóknanna sem bæta heilbrigðisþjónustuna, það eitt að rannsóknir og kennsla fari fram á heilbrigðisstofnunum leiðir til betri árangurs og meira öryggis í meðferð sjúkdóma.3,4 Á þeim stöðum þar sem rannsóknir fara fram er starfsmönnum nauðsynlegt að hafa nýjustu og bestu þekkingu á takteinum, fara eftir ýtarlegum rannsóknaráætlunum og meta árangurinn. Þetta hefur komið vel fram í mati á áhrifum rannsókna á árangur þjónustu.3,4 Þannig skilar rannsóknastarfsemi sér í aukinni þekkingu sem leiðir til betri þjónustu við sjúklinga og betri árangurs. Til þess er leikurinn gerður.

Við þetta má að sjálfsögðu bæta að margar rannsóknir meta einmitt árangur og gæði meðferðar, finna styrkleika og veikleika og skapa jarðveg fyrir umbætur og framfarir. Augljóst er að skortur á öflugum og öruggum rannsóknum í heilbrigðiskerfinu dregur jafnt og þétt úr styrk þess og gæðum. Vanfjármögnun rannsókna í heilbrigðisvísindum, ekki síst í klínískum rannsóknum, grefur þannig undan styrkleikum kerfisins. Styrkjakerfi til rannsókna, ekki síst klínískra rannsókna, er veikt á Íslandi og aðstaða oft ófullnægjandi. Fjármögnun rannsókna er því þung, sem mögulega leiðir til þess að erfiðlega gengur að fá öfluga vísindamenn til starfa innan heilbrigðiskerfisins – sem fyrr eða síðar mun koma niður á gæðum þjónustunnar. Hnignun rannsóknarstarfsemi á Íslandi er því vissulega áhyggjuefni.

Hvað er til ráða? Hin augljósa staðreynd er vanfjármögnun rannsókna í íslenska heilbrigðiskerfinu. Í grein prófessors Gylfa Zoëga5 kemur fram að endurreisn heilbrigðiskerfisins frá efnahagshruninu hefur gengið afar hægt og ekki fylgt auknum verkefnum og fólksfjölda – hvað þá nýjum vísindaverkefnum. Stjórnendum í heilbrigðiskerfinu er því verulegur vandi á höndum. Þrátt fyrir vilja til að auka rannsóknir í heilbrigðisvísindum og skilning á nauðsyn þeirra, er augljóst að meðferð sjúklinga í dag hefur forgang. Þessi skortur á rannsóknum kann að veikja stöðuna til framtíðar.

Engum vafa er undirorpið að vísindi og rannsóknir leiða til aukinnar þekkingar. Þekking leiðir til framfara – sem í heilbrigðiskerfinu merkir betri árangur. Vanmat á nauðsyn öflugra rannsókna og þekkingarleitar er alvarlegt mál. Vanmat á þeirri hættu sem því fylgir að hundsa vísindi kann að reynast dýrkeypt.

Á ársfundi Landspítala fyrir skömmu kynnti heilbrigðisráðherra hugmyndir að nýjum heilbrigðisvísindasjóði. Hér er vonandi um nýtt og öflugt upphaf að ræða. Það er ekki val að leiða vandann hjá sér, það er ekki val að standa í stað, það er ekki val að dragast aftur úr nágrannaþjóðum okkar í að innleiða bestu þekkingu og fá til starfa öfluga starfsmenn með brennandi áhuga á aukinni þekkingu og batnandi þjónustu.

Kyrrstaða er ekki valkostur.

Heimildir

 

1. Stjórnarráð Íslands, Heilbrigðisráðuneytið desember 2021, Framtíðarþróun þjónustu Landspítala. (McKinsey skýrslan)
 
2. Gottfreðsson M. Úr fyrsta sæti í botnsætið á 15 árum - saga um samruna og vannýtt tækifæri. Vísbending 2021; 39: 1-4.
 
3. Jonker L, Fisher SJ, Dagnan D. Patients admitted to more research-active hospitals have more confidence in staff and are better informed about their condition and medication: Results from a retrospective cross-sectional study. J Eval Clin Pract 2020; 26: 203-8.
https://doi.org/10.1111/jep.13118
PMid:30784152
 
4. Jonker L, Fisher SJ. The correlation between National Health Service trusts' clinical trial activity and both mortality rates and care quality commission ratings: a retrospective cross-sectional study. Public Health 2018; 157: 1-6.
https://doi.org/10.1016/j.puhe.2017.12.022
PMid:29438805
 
5. Zoëga G. Um vísitölur, heilbrigðismál og kosningar. Vísbending 2021; 39: 30.

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica