05. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Sérgrein Guðjóns Haraldssonar: skurðlækningar þvagfæra
Sérfræðilæknar svara: Hvernig varð sérgrein þeirra fyrir valinu? Hvar lærðu þeir? Hvaða ráð gefa þeir ungum læknum?
Seinni árin hef ég einkum starfað við meðferð nýrnasteina
Ég reikna með að flestum unglæknum sé svipað farið og mér að loknu læknanáminu, að fara inn í starfið með opnum huga, þar sem möguleikarnir á framtíðarstarfi eru svo ótrúlega margir.
Í mínu tilfelli var það ekki fyrr en á kandídatsárinu að ég fór að velja mér grunnlínur framtíðarvinnu. Fann fljótlega að mér hugnuðust mun frekar handlækningar en lyflækningar, þótt ég héldi báðum meginleiðum opnum framan af. Að kandídatsárinu loknu bauðst mér staða deildarlæknis á handlækningadeild Landspítalans 13 D. Þar voru fremstir í flokki Egill Jacobsen, Hannes Finnbogason og Halldór Jóhannsson, sem allir voru miklar fyrirmyndir í þvagfæraskurðlækningum, almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum.
Egill Jacobsen var mér mikil fyrirmynd og kynnti fyrir mér tækni og nýjungar þvagfæraskurðlækninga, sem voru að brjóta sér leið um allan heim frá því að vera undirgrein almennra skurðlækninga og verða fullgild sérgrein. Hvatti hann mig til sjálfstæðra vinnubragða og gaf mér færi á að kynnast þvagfæraskurðlækningum og auka þekkingu mína undir hans handleiðslu.
Að loknu rúmu ári á Landspítala og fyrir tilstilli Egils fékk ég námsstöðu við Central-sjúkrahúsið í Karlskrona í Suður Svíþjóð 1982.
Í Karlskrona starfaði þýskættaður þvagfæraskurðlæknir, dr. Hjalmar Janssen, sem var einn ötulasti baráttumaður fyrir framgangi og sjálfstæði þvagfæraskurðlækninga, sem ég hef kynnst, og lærði ég sérgreinina hjá honum. Hlaut ég sérfræðiviðurkenningu í þvagfæraskurðlækningum og almennum skurðlækningum, sem þá var til siðs.
Vegna áhuga míns á tækninýjungum í þvagfæraskurðlækningum, einkum í holspeglunum og nýrnasteinameðferð, sótti ég um stöðu við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg, en þar var mikill gangur í þessari þróun ásamt nýjungum í höggbylgjutækni við meðferð nýrnasteina.
Á Gautaborgarárunum vann ég samhliða klínískri vinnu að rannsóknum á súrefnisskortsáverkum á nýrum undir handleiðslu Olaf Jonsson og lauk þeirri vinnu með doktorsritgerð 1993.
Starfaði ég síðan sem aðstoðaryfirlæknir og yfirlæknir þvagfæraskurðdeildarinnar í Karlskrona uns við fluttum til Íslands 1994.
Hef síðan starfað við þvagfæraskurðlækningadeild Landspítala við Hring-braut og seinni árin einkum helgað mig starfi við meðferð nýrnasteina og rekstur nýrnasteinbrjótsins Mjölnis. Hefur þetta verið afar fjölbreytilegt starf og mikill fjöldi sjúklinga er meðhöndlaður þar árlega.
Þótt ég hafi vegna aldurs lokið störfum á Landspítala hef ég notið þeirrar ánægju að vera kallaður inn til starfa við steinbrjótinn ef þörf hefur verið á aukamönnun. Einnig er ég enn með stofurekstur tvisvar í viku, en það er ekki auðvelt að draga þannig starfsemi saman og ljúka henni eftir margra ára rekstur.
Þegar litið er yfir farinn veg er það mikilvægast að hafa kynnst þessu frábæra sérfagi og þeim læknum sem starfað hafa við það og þannig fengið að vera þátttakandi í þróun þess, undir handleiðslu og samvinnu frábærra lækna.