05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bókin mín. Þar sem hugur og líkami mætast. Anna Kristín Gunnarsdóttir

Hvaða bók hefur fylgt þér lengst, þú hefur lesið oftast eða haft mest áhrif á þig?

Það voru tvær bækur sem komu upp í hugann við gerð þessa pistils. Báðar tel ég eiga erindi við aðra lækna auk þess sem þær gáfu mér gæsahúð og hraðtakt við lesturinn. Þetta eru bækurnar It's All in Your Head og Into the Grey Zone. Báðar bókakápurnar gripu athygli mína í Waterstones-bókabúðinni við Gower Street í London, sem er einn af mínum uppáhaldsstöðum.

Bókina It's All in Your Head las ég sumarið eftir útskrift úr læknadeild sem var gott nesti inn í kandídatsárið. Hún er listilega vel skrifuð af Suzanne O'Sullivan, taugalækni og klínískum taugalífeðlisfræðingi. Bókin fjallar um starfræn veikindi og hver kafli segir frá einu tilfelli.

Þessa dagana er ég að lesa bókina Farsótt eftir Kristínu Svövu Tómas-dóttur og sonur minn er dyggur aðstoðarmaður. Mynd/Helgi Hrafn

Það sem mér finnst gera bókina áhrifaríka er frásagnarstíll O'Sullivan. Hvernig hún nær að virkja ímyndunaraflið svo lesandinn upplifi að hann sitji með henni í viðtali ásamt því hvernig hún segir sögu sjúklinganna af virðingu og samhygð. Hún útskýrir einnig muninn á sjúkdómi og veikindum – þó að sjúkdómur hafi verið útilokaður gætu enn verið veikindi til staðar sem þyrftu einhvers konar meðferð og stuðning.


O'Sullivan lýsir líka vel rófi líkamlegra viðbragða við hugrænu ástandi, allt frá því að tárast af sorg eða gleði, roðna við vandræðaleg tilefni yfir í ýktari, óeðlilegri og verulega hamlandi viðbrögð eins og starfræn flog. Einnig kemur vel fram hversu misskilin starf-ræn veikindi eru, bæði almennt í samfélaginu en líka innan læknisfræðinnar. Sögurnar í bókinni sýna það skýrt að þetta eru ekki uppgerðarveikindi eða athyglissýki.



Bókina Into the Grey Zone las ég þegar ég starfaði sem sérnámslæknir á lyflækningasviði. Höfundur er Adrian Owen, prófessor í taugavísindum og vitrænni myndgreiningu (cognitive imaging) sem hefur einbeitt sér að rannsóknum á sjúklingum í meðvitundardái (vegetative state). Hann lýsir vel þeim takmörkunum, áskorunum og siðfræðilegum sjónarmiðum sem tengjast viðfangsefninu; gráa svæðinu þegar einstaklingur er talinn vera vakandi án meðvitundar.

Það má segja það sama um Owen og O'Sullivan, honum tókst að láta mig upplifa á köflum að ég væri komin í sama herbergi og rannsóknarteymið með tilheyrandi gæsahúð. Hann segir frá rúmlega 20 ára tímabili þar sem hann reynir að skilja hvað felst í því að vera með meðvitund og síðar hvort hægt sé að ná sambandi við sjúklinga í meðvitundardái. Annað sem hreif mig við bókina er hversu mikinn ávinning sjúklingar og aðstandendur þeirra gætu haft af rannsóknum hans. Fljótlega upplýsir hann lesandann á hvaða hátt viðfangsefnið stendur honum nærri, sem gerir bókina persónulegri og innihaldsríkari.

Annað sem krækir snemma í athygli lesandans er saga sjúklings sem síðar setur sig í samband við Owen og þakkar honum fyrir að „hafa fundið sig“. Ég vil ekki fara nánar út í framvindu tilfellanna þar sem það myndi skemma spennuna fyrir þeim sem gætu hugsað sér að lesa bókina.

Báðar bækurnar dýpkuðu þekkingu mína og nálgun á starfrænum veikindum og meðvitundarleysi. Sögur einstaklinganna eru átakanlegar og góð áminning um það hversu hverfult lífið getur verið. Eftir lestur þeirra beggja verður maður enn þakklátari fyrir heilsuna og hversdagsleikann.

Ég skora á Halldóru Jónsdóttur geðlækni að skrifa næsta pistil. Ég veit fyrir víst að ég er ekki ein um það að hafa útbúið lista yfir þær bækur sem hún mælir með og hugsa að margir hefðu gaman af því að heyra um um þá bók/bækur sem hefur fylgt henni lengst, hún lesið oftast eða haft mest áhrif á hana.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica