05. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Læknar gegn umhverfisvá

Á Læknadögum í janúar síðastliðnum var stofnað Félag lækna gegn umhverfisvá. Fór stofnfundurinn fram í kjölfar áhugaverðs málþings á Læknadögum um stöðu umhverfismála á Íslandi og tengsl þeirra við lýðheilsu. Markmið félagsins er að standa vörð um heilsu fólks með því að stuðla að aukinni áherslu á verndun umhverfis. Eru slík félög nú starfrækt í mörgum löndum og eiga flest aðild að alþjóðlegu samfélagi lækna gegn umhverfisvá (International Society of Doctors for the Environment).

Hvers vegna er þörf á aðgerðum?

 

Lýðheilsa er algjörlega háð heilbrigðri náttúru jarðarinnar. Hnignun líffræðilegs fjölbreytileika, mengun og loftslagsbreytingar eru nú að mati Sameinuðu þjóðanna helsta ógnin við heilsu mannkyns. Nú þegar eru komnar fram alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem fara stöðugt versnandi. Öfgar í veðráttu og hitastigi jarðarinnar verða meiri með ári hverju og eru að gera búsvæði hundruða milljóna manna óbyggileg. Loftmengun í borgum vegna bruna jarðefnaeldsneytis og slits á götum, með tilheyrandi svifryksmengun, orsakar milljónir ótímabærra dauðsfalla á ári hverju. Hnignun í líffræðilegum fjölbreytileika og heilsu vistkerfa er ógn við framtíð landbúnaðar og fæðuöryggis í heiminum.

Þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur umhverfisins hringi nú ákaflega, sjást þess engan veginn merki að á Íslandi hafi verið gripið til nægilegra aðgerða, hvorki innanlands né í alþjóðlegu samstarfi. Því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að setja þrýsting á aðgerðir af hálfu stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga til að snúa þróuninni við og leiða okkur til betri framtíðar með batnandi heilsu lífríkis jarðarinnar og um leið íbúa hennar.

Hvers vegna læknar?

Starf lækna er fyrst og fremst að stuðla að og vernda heilsu skjólstæðinga sinna. Vitandi um tengslin milli heilsu jarðarinnar og heilsu mannanna er okkur því nauðsynlegt að vera einnig málsvari náttúrunnar. Læknar hafa í áranna rás haft ákveðna rödd í samfélaginu sem hlustað er á og því teljum við mikilvægt að nýta okkur þekkingu og reynslu lækna sem afl í baráttunni fyrir umhverfinu.

Hvað ætlar Félag lækna gegn umhverfisvá að gera?

Félagið mun þrýsta á að Íslendingar leggi stóraukna áherslu á umhverfismál. Róttækra breytinga er þörf hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum og almenningi og mun félagið taka þátt í samfélagsumræðu, sinna greinaskrifum og fjölmiðlaviðtölum auk þess að veita umsagnir um lagafrumvörp. Unnið verður í samstarfi við önnur félög og samtök sem berjast fyrir umhverfisvernd á Íslandi. Að sjálfsögðu mun félagið einnig leggja áherslu á umhverfisvitund í heilbrigðiskerfinu. Saman erum við með öflugra umboð til áheyrnar og því er stofnun þessara samtaka mikið framfaraskref fyrir lækna sem brenna fyrir umhverfismálum.

Eftirfarandi geta skráð sig í
Félag lækna gegn umhverfisvá:

Læknar með lækningaleyfi á Íslandi

Læknanemar á Íslandi

Íslenskir læknanemar erlendis.

Hlekkur til skráningar í félagið er á innri vef Læknafélags Íslands lis.is

 

Félag lækna gegn umhverfisvá leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar tafarlaust á Íslandi til að vernda náttúru lands og sjávar og þar með stuðla að bættri heilsu almennings:

Komum í framkvæmd aðgerðum sem raunverulega draga úr losun gróðurhúsalofttegunda:

• Keyrum minna

• Bönnum komur einkaþotna til landsins

• Fækkum flugferðum

• Komum á lestarsamgöngum milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins

• Aukum opinbera niðurgreiðslu til grænmetis- og ávaxtaræktar

• Borðum minna af kjöti

• Mokum ofan í skurðina

• Hættum laxeldi í opnum sjókvíum á Íslandi

• Eflum skimun, fræðslu og forvarnir gegn sýklalyfjaónæmi á Íslandi

• Minnkum notkun á einnota plasti

• 30x30 – Friðum að minnsta kosti 30% af landi og hafsvæði Íslands fyrir árið 2030

• Tryggjum að fráveita í þéttbýli verði öll samkvæmt reglugerð fyrir árið 2030

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica