04. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Sérgreinin sem ég valdi. Heillandi heimur smitsjúkdóma. Davíð Ólafsson

Ég fékk áhuga á smitsjúkdómalækningum vegna þess góða fordæmis sem smitsjúkdómalæknar á Landspítala sýndu með vilja þeirra til að kenna og hafa samskipti við læknanema og sérnámslækna (sérstaklega þegar þeir reyndu að fá þig til að stoppa sýklalyf!)

Ég var einstaklega lánsamur að hafa haft tækifæri til að vinna með Sigurði Guðmundssyni þegar hann ákvað að enda ferilinn í „klíník“. Ég var á smitsjúkdómadeildinni og sýklafræðideildinni á sjötta árs valtímabilinu í læknadeild og var eftirminnilegt atvik frá því valtímabili þegar Sigurður bað mig um að hitta sig á skolinu á A7 og þegar ég kem þar inn sé ég hálfvandræðalegan Sigurð blanda saman hægðum, úr renniláspoka, í bikarglas og svo sía blönduna með kaffisíu til undirbúnings fyrir saurörveruígræðslu. Það setti annan snúning á gefa skít í sjúklinginn!

Ég fór í kjölfarið til Bandaríkjanna sumarið 2019 þar sem ég lærði lyflækningar við University of Iowa og útskrifaðist þaðan sumarið 2022. Ég hafði ekki tekið lokaákvörðun um að sérhæfa mig í smitsjúkdómum þó það væri efst á blaði og á tímabili, þegar ákveðin veirupest var að ganga um, missti ég næstum allan áhuga á smitsjúkdómum og daðraði við gigtarlækningar, ónæmisfræði eða lungnalækningar.

Sem betur fer sá ég villu míns vegar og nú legg ég stund á sérnám í smitsjúkdómalækningum við Washington University í Saint Louis sem ég mun klára í júlí 2024. Starf mitt þar hefur kveikt áhuga minn á fíknisjúkdómum og tengdum fylgikvillum sem ég mun vinna nánar með og stunda rannsóknir á.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica