02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Karólínska: Ásta Dögg Jónasdóttir

Ásta Dögg Jónasdóttir varði doktorsritgerð sína við Department of Clinical Science, Intervention and Technology við Karolínsku stofnunina í Stokkhólmi 25. nóvember 2022. Ritgerðin heitir „Inflammatory biomarkers in ANCA – associated vasculitis.“

Andmælandi var Knut Aasarød prófessor emeritus frá NTNU í Noregi. Aðalleiðbeinandi var prófessor Annette Bruchfeld, og meðleiðbeinendur prófessor Iva Gunnarsson og Aleksandra Antovic. Mynd/gag

Hvað segir nýdoktorinn?

„Af hverju vildir þú verða læknir?

„Ég ákvað snemma að mig langaði að verða læknir. Ástæðan var sú klassíska að vilja láta gott af sér leiða og hjálpa öðrum en fræðin hafa einnig alltaf vakið áhuga minn.“

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

„Það er sjálfsagt einstaklingsbundið en tel að það sé algengt að doktorsnemar ferðist allan skalann. Það koma miklir álagstímar en það koma vissulega líka skemmtileg tímabil þar sem maður sér árangur af vinnunni.“

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

„Þetta er erfið spurning og ég tel að ekki sé hægt að leysa vanda heilbrigðiskerfisins með einu verki og í raun ekki hægt að svara þessu í stuttu máli. En ég myndi vilja sjá betri heildarsýn í heilbrigðiskerfinu. Einnig myndi ég að sjálfsögðu vilja sjá aukin tækifæri og fjármagn til rannsókna í heilbrigðisvísindum hérlendis.“

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

„Ég hef því miður lítið getað lesið mér til skemmtunar undanfarið ár. Ég hlusta þó mikið á hljóðbækur á meðan ég sinni hinum ýmsu heimilisverkum og get nefnt eina virkilega góða hljóðbók sem ég hlustaði á nýlega, Kim Jiyoung, Born 1982 eftir Cho Nam-Joo. Ég er núna að lesa Tól eftir Kristínu Eiríksdóttur sem ég fékk í jólagjöf og er mjög hrifin.

Ég er að horfa á ítölsku þættina „My brilliant friend“ sem eru byggðir á skáldsögum Elena Ferrante. Get svo sannarlega mælt með þeim.

Ég er ekki mikill partýpinni þegar það kemur að tónlist, finnst best að setja eitthvað gamalt og gott á fóninn eins og Nina Simone. Hef annars verið að hlusta á söngkonurnar Laufey og Jensen McRae undanfarið.

Varðandi líkamsrækt þá finnst mér skemmtilegast að fara á skíði með fjölskyldunni. Annars reyni ég að koma hreyfingu inn í hversdagsrútínuna og hjóla því sem oftast til og frá vinnu.“

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

„Að vera með fjölskyldunni minni og góðum vinum er það allra skemmtilegasta. Ég hef líka gaman af handavinnu, eins og að prjóna, teikna og mála. Það er að sjálfsögðu gaman að ferðast, við erum tiltölulega nýlega flutt heim frá Svíþjóð og ég hlakka til að ferðast meira innanlands með börnunum okkar.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica