02. tbl. 109. árg. 2023

Umræða og fréttir

Lögfræði 47. pistill. Vottorðafargan og vottorðafrumskógur

Læknar benda á vaxandi álag vegna gerðar alls konar vottorða sem styttir þann tíma sem þeir hafa til að sinna sjúklingum.

Kröfur atvinnulífs og menntakerfis til læknisvottorða vegna veikindafjarveru munu vera talsvert meiri hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Ýmis vottorð tengjast möguleikum sjúklinga á fjárhagslegum ábata, til dæmis með skaðabótum eða öðrum bótagreiðslum. Það getur sett lækni í óþægilega stöðu gagnvart sjúklingi ef læknir telur sig ekki getað skrifað umbeðið vottorð og orðið til þess að sjúklingurinn fær ekki þær bætur sem hann sækist eftir.

Hvernig fá læknar greitt fyrir læknisvottorð? Staðreyndin er sú að greiðslan er mismunandi. Heilsugæslulæknar fá greitt fyrir ýmis vottorð, sem sjúkrahúslæknar fá ekki greitt fyrir. Til viðbótar kemur að heilbrigðisstofnanir innheimta hjá sjúklingi gjald fyrir flest vottorð, sem er ákveðið í reglugerð um greiðsluhlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, nú nr. 1551/2022. Þetta gjald frá sjúkratryggðum rennur til viðkomandi stofnunar, heilsugæslustöðvar eða sjúkrahúss.

Það er því talsvert flækjustig í þessum málum: Fyrir sum vottorð greiðir sjúk-l---ingur ekkert, til dæmis dánarvottorð. Heilsugæslan greiðir heilsugæslulækni 2081 kr. fyrir dánarvottorð sem sjúkrahúsið greiðir sjúkrahúslækninum ekkert fyrir. Fyrir flest vottorð greiðir sjúkl-ingur heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi einhverja fjárhæð samkvæmt reglugerð nr. 1551/2002. Heilsugæslan greiðir heilsugæslulæknum ákveðna fjárhæð fyrir gerð hvers vottorðs, ýmist hærri eða lægri en fjárhæðin, sem sjúklingurinn greiðir stofnuninni. Sjúkrahúslæknirinn fær ekkert fyrir gerð flestra þessara vottorða en sjúklingurinn greiðir sjúkrahúsinu gjald fyrir það og heldur sjúkrahúsið þeirri greiðslu.

Málið er þríþætt. Í fyrsta lagi umfang krafna um læknisvottorð vegna aðgengis að heilbrigðisþjónustu eða til staðfestingar á rétti til bóta eða stuðnings. Í öðru lagi mismunandi greiðslur til lækna vegna skrifa á sams konar læknisvottorði, eftir því hvort læknirinn er heilsugæslulæknir eða sjúkrahúslæknir. Í þriðja lagi að heilbrigðisstofnun ber oftast að innheimta gjald hjá sjúkratryggðum vegna vottorða án tillits til hvort stofnunin greiðir lækni fyrir gerð þess.

Nýverið lauk störfum starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að gera drög að reglugerð um vottorð, álitsgerðir, faglegar yfirlýsingar og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna, ásamt því að gera tillögur um breytingar á verklagi sem stuðlar að skilvirkari vottorðagerð.1

Vinna hópsins leiddi í ljós að á árunum 2018-2021 rituðu læknar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins samtals 504.670 vottorð, meðal annars 134.670 vottorð vegna fjarveru frá vinnu, 108.834 beiðnir um sjúkraþjálfun og 23.629 vottorð vegna fjarvista frá skóla. Á sama tímabili voru ritaðar 13 langar greinargerðir vegna tryggingaratburða. Það gefur auga leið að á landsvísu er heildarfjöldi vottorða töluvert meiri. Til viðbótar má benda á að læknar á Læknavaktinni sem sinnir höfuðborgarsvæðinu virka daga milli kl. 17-22 og kl. 9-22 um helgar, rituðu árin 2020 og 2021 samtals 7274 vottorð vegna fjarvista frá vinnu, 973 beiðnir um sjúkraþjálfun og 452 vottorð vegna fjarvista frá skóla.

Það eru allnokkur ársverk lækna sem felast í þessum fjölda vottorða.

Hvað veldur öllum þessum fjölda vottorða? Oft byggjast kröfur um vottorð á laga- eða reglugerðarákvæðum. Vottorð vegna veikindafjarvista frá vinnu má rekja til 8. gr. laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Þar kemur fram að vinnuveitandi getur ávallt krafist þess að starfsmaður sanni veikindi sín með læknisvottorði.

Samkvæmt 33. gr. b í lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 setur hver framhaldsskóli sér skólareglur þar sem meðal annars er fjallað um skólasókn. Í skólareglum segir gjarnan að skólameistari geti krafist staðfestingar læknis á veikindum nemenda.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 1364/2019 um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands kemur fram að forsenda fyrir endurgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands vegna sjúkraþjálfunar er að fyrir liggi skrifleg beiðni frá lækni eða sjúkraþjálfara á heilsugæslustöð þar sem fram kemur sjúkdómsgreining. Þá geta Sjúkratryggingar sjálfar krafist vottorðs þjálfara eða læknis sjúklings um nauðsyn þjálfunar, einkum vegna þjálfunarmeðferðar umfram 15 skipti á ári, sbr. 8. gr. sömu reglugerðar.

Sjúkratryggingar hafa í fleiri tilvikum sett það skilyrði fyrir veitingu þjónustu annarra heilbrigðisstétta að fyrir liggi tilvísun frá lækni. Má þar nefna tilvísun heimilis- eða heilsugæslulæknir vegna sérgreinalæknaþjónustu barna og vegna talþjálfunar og iðjuþjálfunar.

Um vottorðafarganið var fjallað á málþingi LÍ á Læknadögum 2023. Þar kom margt athyglisvert fram um annmarka á núverandi fyrirkomulagi. Vinna er hafin við að sníða af helstu vankanta, en betur má ef duga skal.

Áðurnefndur starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði drögum að nýrri reglugerð um útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslur heilbrigðisstarfsmanna. Þar er gert ráð fyrir því að heilbrigðisstarfsmanni sé ekki skylt að verða við beiðni sjúklings eða þriðja aðila um útgáfu álitsgerða. Með álitsgerð er í reglugerðardrögunum átt við „faglegt álit heilbrigðisstarfsmanns á heilbrigðistengdum málefnum einstaklings, að beiðni hans eða þriðja aðila, sem byggir á staðfestum gögnum og þarf ekki að tengjast veittri heilbrigðisþjónustu af hendi viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns.“

Reglugerðardrögin eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 21. febrúar nk.2

Heimildir

1. Skýrsla vinnuhópsins: stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/01/24/Leggja-til-breytingar-a-vottordagerd-/?fbclid=IwAR0n5GO9fmcw4uOgvXIzd1AVgGV_fgGjWGpRn9jughdwPiSlmNq6zjEX2vU

2. samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=3384

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica