01. tbl. 109. árg. 2023
Umræða og fréttir
Ætlaði að fljúga um allan heiminn en kynnist honum núna sem læknir án landamæra - Gunnar Auðólfsson í viðtali
„Ég ætlaði að verða atvinnuflugmaður,“ segir Gunnar Auðólfsson, yfirlæknir skurðlækninga á Landspítala, sem var langt kominn með atvinnuflugmannsréttindin þegar hann náði inn í læknisfræði í Háskóla Íslands. Hann tók flugmannsréttindin samhliða en dróst alltaf meira inn í læknisfræðina. Meðan á aðgerðum stóð úreltist flugmannsprófið en Gunnar nær þó að ferðast um heiminn í hópi Lækna án landamæra
„Það var svo mikil niðursveifla í fluginu og gekk illa hjá Icelandair (Flugleiðum) og það runnu því á mig tvær grímur þegar ég var að ljúka náminu,“ segir Gunnar og lýsir því hvernig rætt hafi verið um það að framgangurinn væri hægur, atvinnuöryggið lítið og óvíst um framtíð flugiðnaðarins.
„Ég ákvað þá að læra eitthvað annað líka og þegar ég var að klára í læknadeild rofaði til í fluginu og þau sem lærðu með mér fengu öll vinnu og urðu fljótt flugstjórar.“ Hann hlær og viðurkennir að hann hugsi oft hvað ef hann hefði haldið sig við flugið.
Gunnar Auðólfsson segir ferðaþorstann ekki hafa slokknað þótt hann hafi snúið af þeirri braut að verða atvinnuflugmaður og kosið lýtaskurðlækningar. Hann sér fyrir sér fleiri ferðir með Læknum án landamæra til að kynnast samfélögum innan frá. Mynd/gag
„Ég geri það við allskonar tilefni. Þau bjóða mér stundum frammí þegar ég ferðast og hitti þau sem ég lærði með. Það kveikir í manni,“ segir Gunnar, sem sest niður með Læknablaðinu á mildum októberdegi. Blaðamaður fullyrðir að hann hafi hugsanlega ekki náð að losa sig við heilbrigðisgenin; hans nánasta fjölskylda heilbrigðisstarfsfólk. Líka konan hans, Sigríður Másdóttir augnlæknir.
Hvattur áfram af foreldrunum
„Mér var samt ekki stýrt í þessa átt. Foreldrar mínir hvöttu mig áfram í flugnáminu sem ég hafði snemma áhuga á,“ segir hann, en hann útskrifaðist með atvinnuflugmannspróf á Íslendingaslóðunum Gimli í Manitóba í Kanada árið 1992.
„Það kom flatt upp á þau að ég skyldi svo velja að verða læknir.“ Hann flaug lengi litlum rellum. „En ég seldi hlutinn í vélinni minni þegar ég fór í sérnám.“ En hvað ef? „Já, maður spyr sig öðru hvoru,“ segir hann dreyminn. „En ég sé ekki eftir neinu.“
Gunnar stundaði nám í rannsóknum í Bandaríkjunum á lostástandi og líffæraflutningum. „Ég hafði snemma áhuga á einhvers konar skurðlækningum,“ segir hann og lýsir því hvernig lýtaskurðlæknar hafi starfað við hlið hans í Bandaríkjunum. Hann hafi kynnst þeim og orðið forvitinn. Síðar hafi þessi áhugi leitt hann til Svíþjóðar í sérnám og loks til Glasgow.
„Lýtalækningar ganga út á að endurskapa það sem hefur tapast. Starfið er mikið á skurðstofum og þar fannst mér skemmtilegast að vera,“ segir Gunnar sem vildi nú gjarnan verja jafnlöngum tíma á skurðstofum Landspítala og fyrir COVID. „Þá vorum við með 5 skurðdaga í viku en nú aðeins þrjá,“ segir hann.
„Afkastagetan hafði byggst upp jafnt og þétt fram að COVID. Þá var mesta hindrunin að skurðstofurnar mættu vera fleiri en nú er ekki einu sinni hægt að opna allar skurðstofurnar sem voru í notkun,“ lýsir hann. Hjúkrunarfræðinga og starfsfólk almennt vanti. „Í næstum tvö ár höfum við aðeins náð að sinna bráðustu tilfellunum.“ Hlaðist hafi á biðlistana. „Það háir okkur mjög hvað aðgengi að skurðstofum er takmarkað.“ Hann horfi til þess að nú í nýju ári sé stefnt að opnun fleiri skurðstofa. „Svo þetta horfir til bóta.“
Óslökkvandi útþrá
Gunnar flutti heim eftir áralangt starf í útlöndum árið 2007. Fyrst opnaði hann stofu með starfi á spítalanum en fór svo að sinna hlutastarfi í Noregi. Hann lagði þau störf á hilluna þegar hann var ráðinn yfirlæknir á Landspítala. Ár er eftir af skipunartímanum.
„Einn möguleikinn er að sækja aftur um,“ segir hann en hann meti nú stöðuna. Sjái jafnvel fyrir sér að flækjast meira um heiminn. Þá komum við að helstu ástæðu viðtalsins. Gunnar hefur nefnilega verið viðloðandi samtökin Læknar án landamæra í mörg ár. Farið til Bosníu og Mósúl í Írak.
Læknar án landamæra (Médecins Sans Frontières) eru góðgerðarsamtök, stofnuð árið 1971. Þau vinna samkvæmt þeirri lífsskoðun að allt fólk eigi rétt á læknishjálp og að það sé brýnna að lina neyð þess en að virða landamæri. Samtökin hafa unnið um allan heim einsog sjá má á kortinu.
„Mig langar nú seinni hluta ferilsins að gera meira af því,“ segir Gunnar, sem hefur meðal annars sérhæft sig í skarði í vör og góm. „Mörg samtök þurfa hjálp lækna og fara þangað sem er þörf.“ Hann metur nú stöðuna.
„Ég fór til Bosníu árið 1996 með IFOR-sveitum NATÓ sem fóru inn á Balkanskagann til að viðhalda friðarsamkomulagi þegar stríðið var að lognast út af,“ segir hann og lýsir tveggja vikna undirbúningi með norska hernum fyrir margra mánaða úthaldið í Bosníu, í Doboj, Modrica og Tuzla. En í Tuzla var hann meðal annars í sameiginlegri björgunar- og þyrlusveit herja Noregs og Bandaríkjamanna.
Gunnar starfaði á spítala í Mósul í Írak sem hjálpar þeim sem hlutu útlimaáverka í borgarstríðinu. Ár er nú frá ferðinni sem hann segir hafa verið hvetjandi fyrir sig.
Reynsla sem hafi markað hann. „Ég hef því alltaf hugsað mér að gera meira af þessu,“ segir hann, og fór í janúar í tvo mánuði til Mósúl í Írak. „Ég starfaði á spítala sem sinnti særðum og slösuðum í borgarastríðinu þegar verið var að svæla út ISIS-sveitirnar. Nú hefur spítalinn þrengt svið sitt í að þjónusta þá sem hafa hlotið útlimaáverka,“ segir Gunnar. Samtökin reka tvo spítala í Mósúl. Annan fyrir kvensjúkdóma og fæðingar og hinn fyrir útlimaáverka.
„Margt fólk glímir við fjölónæmar sýkingar og mörg fengu enga úrlausn þegar stríðið geisaði sem nú er reynt að bæta úr,“ segir hann.
Sótti kraft í unga fólkið
Gunnar segir bæði lærdómsríkt og spennandi að sjá aðbúnaðinn á þessum spítala og bera saman við sitt daglega umhverfi. „Þarna var vissulega allt mjög einfalt. Tvær skurðstofur í steyptri byggingu og legudeild í gámabyggingum. Þá var önnur gámabygging fyrir stoðþjónustu,“ segir hann og að á margan hátt megi bera aðstöðuna saman. Þar hafi allt þó verið minna og einfaldara.
„Ég þurfti því að taka mið að því sem til var af umbúðum og verkfærum. Vinna innan rammans sem bauðst og stundum að hugsa í lausnum, hverfa til grunnþekkingarinnar og vera fljótur að ákveða til hvaða ráða réttast væri að grípa,“ lýsir hann. „Það er ágætur skóli að þurfa að grípa til klassískra eða eldri úrræða læknisfræðinnar öðru hvoru.“ Breytingar sem þessar hjálpi til við að bægja frá hættunni á kulnun í starfi.
„Maður kemur á vissan hátt endurnærður til baka,“ segir hann og lýsir kommúnunni sem hann bjó í. „Ég var í stóru íbúðarhúsi þar sem reynt var að haga því þannig að allir hefðu sitt herbergi. Þar bjuggu alls konar sérfræðingar samtakanna,“ segir hann.
„Þá kynntist maður fólki alls staðar að úr heiminum. Þar var margt ungt fólk bæði kraftmikið og innblásið, sem var frískandi fyrir mig og uppörvandi. Fann kraftinn og bjartsýni þeirra,“ segir hann.
Reynsla sem hann vill meira af
Gunnar segist ekki hafa upplifað sig í lífshættu í þessum tveimur ferðum. „Ég fann að það er vel að öllu staðið en líka að það þarf lítið til svo eitthvað fari úrskeiðis.“ Hann hafi þó verið stoppaður við vegartálma af vopnaðri 6 manna sveit á leið á flugvöllinn í Írak – einni þeirra sem hafi ekki viljað leggja niður vopn sín eftir stríð og hagi sér eins og ríki í ríkinu.
„Ég hafði verið undirbúinn að fara aldrei út úr bíl í svona aðstæðum og aðeins væri þess sérstaklega krafist,“ segir hann, og hvernig hann hafi þurft þess. Hann hafi beðið í ofvæni þegar höfuðpaurinn skipaði honum úr bílnum og spurði hvers vegna hann hefði svona háan blóðþrýsting.
„Þá hafði bílstjórinn sagt þeim að hann hefði lækni í bílnum á heimleið.“ Þungvopnaður maðurinn hafi ekki skilið svarið og bílstjórinn látið sem hann kynni ekki ensku til að þýða. „Hann vildi ekki þýða því þá hefðu spurningarnar dunið á mér um alla fjölskylduna og við ekki náð flugi.“ Þeim hafi verið sleppt.
En hvaðan kemur þessi áhugi. „Lýtaskurðlæknissérgreinin er að miklu leyti sprottin upp úr áverkum eftir heimsstyrjaldirnar. Ætli þetta hafi því ekki síast inn þegar ég las fræðin,“ segir Gunnar og útilokar ekki að útþráin spili þar einnig inn í. „Ég hef alltaf verið svolítið upptekinn af því að sjá sem mest af heiminum, og þá ekki endilega sem túristi. Ég vil fara á framandi slóðir og kynnast öðruvísi menningu,“ segir hann, en hann kom heim eftir farsæl ár í Skandinavíu árið 2007.
„Já, römm er sú taug,“ segir hann og hlær. Fannst það jafnvel mistök því Hrunið dundi yfir en þó ekki. Hann fór svo, eftir að hafa lokað stofunni sem hann opnaði, að fara viku og viku aftur út.
„Margir Íslendingar voru á leiðinni til Noregs á þeim tíma en í staðinn fyrir jakkafataklædda menn, fyllti heilbrigðisstarfsfólk og menn í Ístak-jökkum vélarnar.“
Nú starfar hann alfarið á Landspítala enda er það regla að yfirlæknar reki ekki eigin stofur. En hvetur hann aðra lækna til að ganga í raðir Lækna án landamæra?
„Já, allir sem hafa áhuga á því að prófa svona ættu að íhuga að slá til. Reynsla mín er góð og ég get mælt með því. Þarfir svona samtaka eru fjölbreyttar og það er sóst eftir fólki úr ólíkum sérfræðigreinum. Hjá Læknum án landamæra er áherslan helst á skurð-, svæfinga- og kvensjúkdómalækna og einhverju leyti barnalækna,“ segir hann og horfir sjálfur á ný verkefni.
„Við erum fá á deildinni og svona langar fjarverur erfiðar. En ég vildi það gjarnan. Já, það er draumurinn.“