01. tbl. 109. árg. 2023

Ritstjórnargrein

Afleysingalæknir óskast. Lilja Sigrún Jónsdóttir

Lilja Sigrún Jónsdóttir| heimilislæknir |klínískur dósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins |í ritstjórn Læknablaðsins

doi 10.17992/lbl.2023.01.723

„Það verður enginn skurðlæknir á vakt yfir jólahátíðina,” sagði blessuð konan sem þurfti að flytja með fjölskylduna suður, þar sem hún vænti fæðingar um áramótin. Þetta er ekki frásögn af fæðingu frelsarans; árið er 2022 og landið er Ísland. Af æðruleysi voru gerðar þær öryggisráðstafanir sem þykja viðeigandi fyrir fæðingarhjálp kvenna í dag og vonandi farnaðist konu og barni vel. Þessi saga sem birtist í fjölmiðlum nýverið rammar vel inn stöðu okkar í íslensku heilbrigðiskerfi í dag. Læknar eru of fáir hér á landi, eru mannlegir og þurfa að fá hvíld og frí til að endurnýja starfskrafta, stunda endurmenntun og að viðhalda færni sinni.

Einstaklingar sem hafa lært til læknis hafa lagt að baki langt nám, ýmist hér á landi eða erlendis. Stærstur hluti sérfræðilækna sækir sér framhaldsmenntun erlendis og flytur þá búferlum til margra ára.

Sérfræðilæknir hefur stundað nám á háskólastigi í að minnsta kosti 10-12 ár og á þeim tíma sérhæft sig til starfa í fagi sem er í stöðugri þróun. Sérhæfingin er verðmæt eign í alþjóðlegu samhengi sem þarf að viðhalda með endurmenntun, þjálfun og vísindalegu starfi. Á sama tíma eru læknar við störf að sinna fólki og þar getur verið áskorun að mæta væntingum um straumlínulögun í ferlum og auknum afköstum, enda einstaklingar ólíkir og misjafnlega færir að leita aðstoðar og fá úrlausn sinna mála.

Við sem búum á þessu landi höfum væntingar um að geta notið þjónustu heilbrigðiskerfisins, tímanlega og á skilvirkan hátt, þegar á reynir. Á nýliðnum farsóttartímum hefur almenningur fengið mikla innsýn í hvað þarf til að heilbrigðiskerfið sé starfhæft. Sömuleiðis vísindastarfið sem lá að baki því hvernig bóluefni voru þróuð, prófuð og nýtt til að milda afleiðingar faraldursins, verja líf og heilsu samhliða því að tryggja starfshæfni heilbrigðiskerfisins. Hliðstæð þróun er stöðugt í gangi á hverjum tíma í öllum sérgreinum læknisfræðinnar og því ærið starf fyrir sérfræðinga að tileinka sér nýjungar á hverjum tíma.

Það er dýrmætt hve hátt hlutfall sérfræðilækna flytur heim til Íslands eftir sérfræðinám, til starfa á mismunandi stöðum í heilbrigðisþjónustunni. Tölfræði til margra áratuga sýnir að um fjórðungur starfar þó áfram á erlendri grund eftir sérhæfingu. Orsakir þess liggja ekki fyrir, né heldur hvað gæti stutt við að fleiri skili sér heim. Sú breyting að íslensk ungmenni sækja grunnnám læknisfræðinnar erlendis getur nýst þjóðinni vel. Ef vel tekst til, getur það stutt fjölgun sérfræðilækna hér hraðar en ella.

Starfsumhverfi lækna hér á landi þarf að mæta væntingum þessa sérhæfða starfskrafts sem hefur marga valkosti þegar kemur að vali á starfsvettvangi. Áherslur hjá yngra fólki í dag á jafnvægi vinnu og einkalífs eykur þörf fyrir að tryggja góða umgjörð og stuðning í starfi.

Hvaða tilgangi þjónar nú að ræða þessi mál í upphafi ársins 2023?

Á síðasta aðalfundi Læknafélags Íslands var heiðarleg og beinskeytt umræða um hvað læknar væru að upplifa í sínu starfsumhverfi. Samhljómur hvað varðaði lýsingu á löngum biðlistum, takmörkunum á starfsumhverfi fólks og vinnuálag langt umfram það sem ásættanlegt geti talist. Öll þau sem þar stigu fram gerðu það til að kalla eftir úrbótum og lyfta fram vanda sem þau hafa innsýn í. Sú þrautseigja sem þar birtist sýnir að læknar vilja fá aðstæður til að gera betur en úrbætur eru ekki á þeirra valdi. Ákall þeirra minnti mig á tilvísun í Benjamin Franklin, einn af landsfeðrum Bandaríkjanna: „To fail to plan is to plan to fail”. Það er mín von að áætlanir um leiðir út úr ógöngum þeim sem heilbrigðiskerfið okkar er komið í, séu í vinnslu í ráðuneytum þessa lands. Sömuleiðis vonast ég til að sem flestir kollegar fái tækifæri til að mæta á Læknadaga til að stunda endurmenntun sína og ræða áfram áskoranir og lausnir.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica