12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Rafræn sjúkraskrá og sauðfjárvarnarlínur. Sólveig Bjarnadóttir

Í pistlunum Úr penna stjórnarmanna LÍ birta þeir eigin skoðanir en ekki félagsins.

Í síðastliðnum mánuði gerðist það að tölvukerfi Landspítala hrundi. Þetta kom fyrir á háannatíma klukkan hálf ellefu á mánudagsmorgni. Fyrst gekk treglega að senda lyfseðil, svo var Saga frosin, og Heilsugáttin raunar líka, og þegar ég tók upp tólið til að hringja í tölvudeildina var enginn sónn í símanum. Símkerfið var hreinlega dottið út svo ég gat ekki einu sinni kvartað. Það er búið að hakka okkur! Skýringin var þó reyndar bara stutt og sakleysislegt rafmagnsleysi í Fossvoginum, eða svo er mér sagt.

Þessi bilun vægast sagt lamaði alla starfsemi. Við fórum í morgunkaffi, sem var mjög notalegt – en þetta sýndi bersýnilega hvað við erum háð þeim tölvukerfum sem við vinnum í. Rafrænu sjúkraskrárkerfin sem hinn almenni starfsmaður á Landspítala notar mest eru Saga og Heilsugátt. Í einfaldri mynd má líta svo á að Saga sé forrit sem geymir, birtir og skráir sjúkraskrártexta. Heilsugátt sækir hins vegar gögn úr Sögu og öðrum kerfum og miðlar upplýsingum og beiðnum milli kerfa. Þannig er auðvelt í Heilsugátt að opna nótur, panta blóðprufur, myndrannsóknir, ræktanir og þess háttar. Eftir sem áður eru gögnin þó geymd í Sögu.

Sögukerfið hefur verið í þróun frá árinu 1993 og er alfarið í eigu Origo. Frá þeim tíma hafa Embætti landlæknis (EL) og heilbrigðisstofnanir átt í reikningsviðskiptum við Origo við þróun Sögu. Síðastliðið haust lagði sprotafyrirtækið Kara Connect fram kæru á hendur EL þar sem embættið hafði ekki boðið út kaup við þróun á fjarfundarlausnum í sjúkraskrá. Kærunefnd útboðsmála skilaði úrskurði nú í vor þess efnis að embættið hefði með þessu brotið lög og bæri að bjóða út slík kaup. EL hefur ekki unað þessari niðurstöðu og hefur stefnt Köru Connect til að málið verði endurupptekið. Þetta mál hefur marga anga og ég hvet fólk til að kynna sér úrskurð kærunefndar en ekki liggur fyrir niðurstaða úr endurupptöku málsins.

Án formlegs útboðsferlis hef ég síðastliðið ár boðið út starfskrafta mína sem sérnámsgrunnslæknir og unnið á þremur stöðum í íslenska heilbrigðiskerfinu, það er á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík. Á hverjum stað þurfti ég að læra á nýtt vinnulag og ný kerfi. Til að mynda eru aðeins takmarkaðir hlutar af Heilsugátt í boði utan Landspítala og kerfin tala illa saman milli landshluta. Sjúkraskráin virðist þannig hólfuð niður eftir landshlutum rétt eins og um sauðfjárvarnarlínur væri að ræða. Eitt dæmi eru aðvaranir um mikilvæg atriði er varða öryggi sjúklinga sem eru skráðar í hið svokallaða „Snjókorn” í Sögu. Þessar upplýsingar eru skráðar innan stofnunar en ekki miðlægt og eru illa aðgengilegar milli stofnana. Bráðaofnæmi fyrir hnetum skráð á Akureyri sést þannig ekki á Landspítala – hneturnar urðu hreinlega allar eftir við sauðfjárvarnarlínuna á Holtavörðuheiði og fyrirfinnast ekki í Reykjavík. Þetta er hin mesta furða.

Á þessum nótum sendi aðalfundur LÍ, haldinn 14. október síðastliðinn, frá sér áskorun til heilbrigðisráðherra um að gera sjúkraskrár aðgengilegar öllum þjónustuveitendum í einum miðlægum og óháðum gagnagrunni. Slíkur ráðahagur myndi auka öryggi sjúklinga, bæta vinnuumhverfi lækna verulega og minnka sóun, til að mynda við tvítekningu rannsókna. Það má einnig velta fyrir sér hvert við stefnum með framþróun sjúkraskrár á Íslandi. Er rétt að sama fyrirtækið hafi verið ráðandi í þróun sjúkraskrárkerfa á Íslandi yfir 30 ára tímabil og hafi átt í reikningsviðskiptum við ríkið að andvirði margra milljarða? Á sama tíma virðist erfitt fyrir nýsköpunarfyrirtæki að koma inn í núverandi umhverfi og það er torvelt að nálgast gögn sem ættu með réttu að vera miðlæg. Fagfélög lækna sendu frá sér formlegt erindi varðandi margumrætt snjókorn um síðastliðin áramót en þrátt fyrir það hafa orðið litlar hreyfingar.

Enginn er eyland og það væri óskandi að hægt væri að samtengja kerfi á skilvirkari hátt. Það er sannarlega dýrt að þróa hugbúnað en það væri fróðlegt að fá nákvæmar tölur um kostnað ríkisins hvað þetta varðar. Ég kalla því eftir frekari umræðu og umfjöllun um þessi mál auk afléttingar á varnarlínum milli landshluta – enda margt ólíkt með sauðfé og rafrænum sjúkraskrám.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica