12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Sama lyfið getur læknað og skaðað, - af málþinginu Lyf án skaða

„Það sama getur læknað mig og skaðað,“ sagði Jennifer Stevenson, klínískur lyfjafræðingur við King's College London og Guy's and St Thomas' NHS Foundation Trust í London, á málþinginu Lyf án skaða um mikilvægi þverfaglegs samstarfs til að draga úr lyfjatengdum skaða. Málþingið var haldið í lok októbermánaðar í húsakynnum Læknafélags Íslands. Það var vel sótt.

Skoski lyfjafræðingurinn Jennifer Stevenson var aðalgestur á málþinginu Lyf án skaða sem haldið var í lok októbermánaðar. Mynd/gag

„Hvað sjúklingur gerir við lyfin skiptir öllu máli um útkomuna, því það sem við ákveðum á spítölum gerist í samfélaginu,“ sagði hin skoska Stevenson á málþinginu. Hún sagði við Læknablaðið að hún teldi mörg tækifæri til umbóta hér á landi. Það hve margir mættu og sýndu málinu áhuga væri merki um að hægt væri að taka höndum saman og setja stefnu í málaflokkum til að takmarka skaðsemi lyfja.

„Hér er greinilega þverfaglegt starf í gangi og mikilvægt að byggja á því,“ sagði hún. En vill hún gefa ráð? „Já, ekki vera hrædd við að prófa ykkur áfram. Prófa lítið framtak. Það þarf ekki að vera stórt. Gæti til að mynda verið að fókusa á ákveðinn sjúklingahóp, jafnvel þann sem tekur segavarnarlyf (anticoagulant). Þar geta afleiðingarnar verið miklar sé notkunin röng,“ sagði hún.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica