12. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Forsetinn og heilbrigðisráðherra hittu íslenska læknanema í Slóvakíu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ræddi mikilvægi alþjóðlega námsins sem fer fram við læknadeild Komeníusarháskólans í Martin við heilbrigðisráðherra Slóvakíu í opinberri heimsókn á dögunum. Einnig ýmsa samstarfsfleti milli landanna til framtíðar á sviði menntunar og vísinda. Ráðherrann fylgdi forseta Íslands. Þeir heimsóttu einnig íslenska læknanema.

„Öll aðstaða í skólanum er til fyrirmyndar og það var einstaklega skemmtilegt að sjá hversu framúrstefnulegt og vel búið færni- og hermisetur er í skólanum,“ segir Willum. Við skólann stunda nú um 170 Íslendingar nám í læknisfræði og 79 hafa útskrifast frá háskólanum frá 2012. „Þessi skóli er því orðinn mikilvægur hluti af menntun íslenskra lækna,“ segir heilbrigðisráðherra. Spurður hvort hann teldi þörf á sérstökum aðgerðum til að fá þessa læknanema heim þegar náminu lýkur, bendir hann á að sem betur fer hafi þessir efnilegu læknar sótt heim að námi loknu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fylgdi forseta Íslands í opinbera heimsókn til Slóvakíu. Þeir hittu íslenska læknanema þar og má sjá þá hér ásamt Elizu Reed
forsetafrú með hópnum. Mynd/forsetaembættið

„Því má helst þakka eflingu sérnáms á Íslandi undanfarin ár sem er áfram í mikilli sókn.“ Læknanemar sem útskrifist úr grunnnámi frá erlendum háskólum, eins og í Slóvakíu, eigi nú auðveldara með en fyrr að hefja sérnám á Íslandi. Ástæðan séu breytingar sem veiti ótakmarkað lækningaleyfi að loknu 6 ára læknanámi við Háskóla Íslands.

„Það er viðvarandi verkefni að stuðla að bættu starfsumhverfi lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Við viljum að þeir læknar sem halda utan til grunnnáms eða sérnáms komi aftur til Íslands og að læknar sjái almennt hag í því að starfa á Íslandi,“ segir Willum Þór.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica