11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir segist óttast um eina af meginstoðum spítalans: vísindastarfið

„Mikið rosalega varð ég fyrir miklum vonbrigðum þegar þú skipaðir þessa stjórn yfir Landspítala,“ sagði Helga Ágústa Sigurjónsdóttir innkirtlalæknir og ritstjóri Læknablaðsins. Hún hefði verið í hópi þeirra sem fóru á fund formanns heilbrigðisnefndar Alþingis þegar hún fór fyrir prófessoraráði Landspítala og óskaði eftir stjórn yfir spítalanum. Hún hafi ekki þá trú að þessi stjórn geti fylgt eftir þremur meginhlutverkum Landspítala: kennslu, vísindastarfi og lækningum.

Helga Ágústa Sigurjónsdóttir ritstjóri Læknablaðsins hvatti til meira vísindastarfs og öflugri læknadeildar. Mynd/gag

„Í mínum huga er Landspítali ekki að fylgja lögum um hvað hann á að starfa við.“ Stjórnin sé ekki þannig samansett að hún eigi auðvelt með fylgjast með því að spítalinn virði vísindastarf og kennslu. Hún vitnaði til Svíþjóðar þar sem því væri haldið á lofti að 30% hvers útskriftarárgangs lækna þyrftu að stunda vísindi til að tryggja gott heilbrigðiskerfi.

„Vísindin eru á hraðri niðurleið með knöppu fjármagni til vísinda,“ sagði hún. Án öflugs vísindastarfs þróist heilbrigðiskerfið ekki áfram. Hún spurði einnig hvernig ætti að fjölga læknum á Íslandi. „Í dag eyðum við fullt af peningum; nemendurnir, foreldrar þeirra og íslenska ríkið til að efla erlenda háskóla til að mennta læknana okkar.“ Vilja og pólitíska ákvörðun þyrfti til að efla læknadeildina hér á landi.

„Það er fullt af fólki sem getur kennt læknanemum. Það ríður á að setja mikið fjármagn í læknadeild Háskóla Íslands til þess að þetta unga fólk sem vill verða læknar fái að verða það og þurfi ekki að leita eftir menntun sinni erlendis,“ sagði hún og lýsti því hvernig íslenskir nemar kynnist miklu öflugri heilbrigðisstofnunum erlendis og hefðu lítið heim að sækja. „Þau skila sér síður heim þegar þau eru búin.“

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica