11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Ragnar Freyr Ingvarsson formaður LR benti ráðherra á mikilvægi trausts við samningagerð

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, lagði áherslu á mikilvægi þess að það ríkti traust á milli viðsemjenda en félagið semur við Sjúkratryggingar Íslands

Formaður Læknafélags Reykjavíkur sagði gott að hlusta á ráðherrann tala um málaflokkinn. „En svo sér maður fjárlögin. Það verður að lýsa yfir vissum vonbrigðum fyrir hönd sjálfstætt starfandi lækna að sjá ekki vilja ráðherrans þar,“ sagði hann.

Ráðherrann var kominn út á mitt gólf og á kaf í samræðurnar þegar leið á fundinn. Hér svarar hann Þórarni Guðnasyni varðandi það þegar það láðist að framlengja bráðabirgðasamninginn við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og sjúklingar stóðu eftir ótryggðir. Mynd/gag.

Fundurinn ályktaði einnig um samninga við sjálfstætt starfandi lækna. Hann skoraði á stjórnvöld að ganga til samninga með raunveruleg áform um að bæta og efla þjónustu við sjúkratryggða landsmenn.

Ráðherra sagði heilbrigðiskerfið þurfa meiri innspýtingu. Hann kallaði eftir þarfagreiningu til að greina samningsmarkmiðin svo horfa mætti á það sem raunverulega er samið um; verðið, magnið, gæðin og öryggið.

Þórarinn Guðnason, fyrrum formaður Læknafélags Reykjavíkur, stóð upp og benti á alvarleika þess þegar láðist að framlengja reglugerð um greiðslur fyrir þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna í tíma í september. Áhöld hafi verið um hvort sjúklingar væru sjúkratryggðir í hálfan sólarhring.

„Það eru sárindi eftir þetta og menn upplifðu að ráðuneytið hunsaði okkur sérfræðilæknana,“ sagði hann og benti einnig á að þegar samningnum var lokað árið 2015 fyrir nýliðun hafi ungir læknar ekki séð sér fært að koma heim. Læknar flytji heim af fjölskylduástæðum, en ekki þegar ákveðin staða losni á Landspítala.

„Þessi samningur við sérfræðilækna var svo dýrmætur fyrir nýliðun lækna að því leyti að hann var opinn,“ sagði hann og að yfirvöld þyrftu að skilja að það verði að vera opin leið fyrir lækna að koma heim þegar fjölskyldum þeirra hentar.

Ráðherra þakkaði Þórarni og baðst afsökunar á klúðrinu í september. Hann taki ábyrgð á því enda stórmál fyrir fólkið í landinu.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica