11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

„Við þurfum viðurkenningu á að ástandið sé svona alvarlegt“ - sagði Ólafur Þór Ævarsson á aðalfundi LÍ

„Ég er þakklátur fyrir að þú sérð kjarnann,“ sagði Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir og fulltrúi Læknafélags Reykjavíkur, og dró saman erindi ráðherrans. Hvernig hann sæi að mönnunin væri of lítil, fjármagnið of lítið. Læknar skildu að framfylgja þyrfti stefnum, erfitt væri að byggja spítala og gera samninga. Nú ynni hann með óvenju marga lækna veika af álagi.

„Ég óttast að þótt það séu úrbætur í gangi og við heyrum að þú hafir aðalatriðin á hreinu; að það þurfi að gerast eitthvað meira núna,“ benti Ólafur á. Hann kom inn á íþróttamyndlíkingu eins og ráðherrann notar gjarnan. „Okkur líður ekki eins og við séum í skemmtilegum handboltaleik. Okkur líður meira eins og okkur sé hent út úr þyrlu á hæsta fjallstoppi. Annar stafurinn er brotinn og skíðin 15 ára gömul,“ sagði hann.

Ólafur Þór Ævarsson benti á að staðan væri alvarlegri en áður. Mynd/gag

Læknar þyrftu því „eitthvað meira núna“ en orð. Þeir þyrftu viðurkenningu á því að ástandið væri eins alvarlegt og þeir lýstu. Öryggi sjúklinga væri stefnt í hættu. „Það er ekki eðlileg staða að ungir læknar á hátindi ferils síns hugsi um það annan hvern dag hvernig þeir geti komist hjá starfinu og hætt,“ sagði Ólafur Þór.

Ráðherra sagði að hann hefði lýst þessari stöðu fyrir ríkisstjórninni. Staðan væri býsna alvarleg.

Sjúkraskrárkerfið kannski ekki annað en sokkinn kostnaður

Friðbjörn Sigurðsson, krabbameinslæknir og fyrrum formaður Læknaráðs, kallaði á aðalfundinum eftir nýju sjúkrahúsi á Akureyri sem og nýju sjúkraskrárkerfi.

Heilbrigðisráðherra sagði marga tala um sjúkraskrárkerfið. Stundum þurfi að horfast í augu við að kostnaðurinn hingað til sé sokkinn. Hann gæti þó ekki tekið þessa ákvörðun einn eða fullyrt að hún væri sú skynsamlegasta. „Þetta er risamál,“ sagði ráðherrann.

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica