11. tbl. 108. árg. 2022

Fræðigrein

Tímabundið minnisleysi – tilfellaröð frá 2010-2021

Transient Global Amnesia in the Reykjavik area

doi 10.17992/lbl.2022.11.715

Ágrip

INNGANGUR
Tímabundið minnisleysi (Transient Global Amnesia, TGA) er góðkynja heilkenni sem einkennist af skyndilegu minnisleysi og gengur yfir á innan við 24 klukkustundum. TGA birtist án annarra staðbundinna taugaeinkenna. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka heilkennið á höfuðborgarsvæðinu.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Rannsóknin var lýsandi afturskyggn tilfellaröð á tímabilinu 2010-2021. Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem fengu greininguna TGA (G45.4) á Landspítala á rannsóknartímabilinu. Eftirfarandi þættir voru skoðaðir: greiningarár, aldur við greiningu, kyn, einkenni, útleysandi þættir, upplýsingar um myndrannsóknir, áhættuþættir og heilsufarssaga. Úrvinnsla fór fram í Excel og Rstudio.

NIÐURSTÖÐUR
Alls greindust 348 TGA-köst, að meðaltali 29 á ári, þar af voru 9,9% með fyrri sögu um TGA. Meðalaldur var 64,1 ár og voru 50% á aldursbilinu 58-70 ára. Kynjaskipting var jöfn (49,9% konur). Mögulegur útleysandi þáttur fannst í 53,7% tilvika. Sá algengasti var líkamleg áreynsla (24,4%), þar á eftir voru hitastigsbreytingar í vatni og andlegt álag. Í 82,8% tilvika voru einstaklingar með hækkaðan blóðþrýsting við komu. Í 96% tilvika voru einstaklingar sendir í tölvusneiðmynd (í öllum tilvikum fundust engar bráðar breytingar) og í 36,2% tilvika í segulómskoðun. Í 10,3% segulómskoðana greindist flæðisskerðing á drekasvæði heilans.

ÁLYKTANIR
TGA er ekki óalgengt góðkynja ástand sem mikilvægt er að læknar þekki til, ekki síst til að forða sjúklingum frá frekari óþarfa rannsóknum. Niðurstöður rannsóknarinnar er varða aldur, kynjahlutfall og útleysandi þætti voru í samræmi við erlendar rannsóknir. Heilkennið er talið skýrast af vanstarfsemi í dreka heilans, sem klínísk birtingarmynd og myndgreiningar styðja við. Orsökin er þó enn óþekkt.

Greinin barst til blaðsins 1. júlí 2022, samþykkt til birtingar 27. september 2022.

 

Inngangur

Tímabundið minnisleysi (Transient Global Amnesia, TGA) er góðkynja heilkenni sem einkennist af skyndilegu framvirku minnisleysi sem gerir einstaklingnum ómögulegt að mynda nýjar minningar meðan á kasti stendur. Heilkennið birtist án annarra staðbundinna taugaeinkenna og án skerðingar á meðvitund. Minnisleysið gengur sjálfkrafa yfir á innan við 24 klukkustundum. Meðan á kastinu stendur spyr sjúklingur gjarnan aftur og aftur sömu spurninga, er óáttaður á stað og stund en áttaður á eigin persónu. Afturvirkt minnisleysi, einhverja daga eða mánuði aftur í tímann, fylgir oft TGA, en þær minningar koma til baka þegar kastið er yfirstaðið. Tímabundið minnisleysi hefur engar þekktar afleiðingar nema minnisgloppu sem nær yfir tíma kastsins.1,2 TGA hendir fólk að jafnaði ekki nema einu sinni, en sumar rannsóknir hafa sýnt að 2,0-23,8% einstaklinga með sögu um TGA fái endurtekin köst.3

Árið 1964 var 17 tilfellum lýst af Fisher og Adams, og gáfu þeir heilkenninu nafnið Transient Global Amnesia.4 Þar lýstu þeir því að sjúklingarnir upplifðu skyndilegt framvirkt minnisleysi og spurðu endurtekinna spurninga sem varði í mínútur eða klukkustundir, án annarra staðbundinna taugaeinkenna. Þessir sjúklingar náðu fullum bata, að frátaldinni minniseyðu sem hafði myndast samsvarandi við tíma kastsins. Frá 1990 hafa greiningarskilmerki kennd við Hodges og Warlow verið notuð sem grunnur að greiningu TGA (tafla I).5

Skömmu fyrir kast eru margir sjúklingar undir sérstökum kringumstæðum, eða verða fyrir einhverskonar álagi. Þetta álag sem eru útleysandi þættir geta bæði verið af andlegum eða líkamlegum toga. Útleysandi þættir sem hefur verið lýst eru til dæmis líkamleg áreynsla, kynlíf, valsalva-æfingar, sársauki og andlegt álag. Einnig er ekki óalgengt að sjúklingar verði fyrir hitastigsbreytingum stuttu fyrir upphaf TGA-kasts, eins og að fara í sjósund eða heita sturtu.4

Samkvæmt fyrri rannsóknum er árlegt nýgengi TGA um 5-11 á hverja 100.000 íbúa.3,6 Algengara er að eldra fólk fái kast af tímabundnu minnisleysi, og hækkar nýgengið í 23,5-32 á hverja 100.000 einstaklinga ef einungis er tekið tillit til 50 ára og eldri.3,7

Ekki hefur tekist að sýna fram á eina sameiginlega orsök sem útskýrir TGA og hefur ástandið valdið fræðimönnum heilabrotum í gegnum tíðina. Helst hefur verið reynt að sýna fram á tengsl milli mígrenis, floga, geðrænna orsaka og æðakerfiskvilla, bæði slagæða- og bláæða, við TGA. Þó hefur ekki tekist að skýra birtingarmynd sjúkdómsins á fullnægjandi hátt út frá ofannefndum þáttum. Dreki (hippocampus) heilans gegnir lykilhlutverki við rúmfræðilegt minni og atburðaminni, og sérstaklega við festingu nýrra minninga. Drekinn er megin þátttakandi í taugahringrás Papez sem gegnir lykilhlutverki í myndun minninga. Ef truflun verður á þessari hringrás getur það birst sem minnisleysi með mismunandi birtingarmyndum eftir staðsetningu truflunarinnar. Staðbundin truflun á starfsemi eða skemmd í dreka birtist ekki síst sem framvirkt minnisleysi.8,9

Ef segulómskoðun (SÓ) er framkvæmd innan ákveðinna tímamarka sést flæðisskerðing í hluta drekans hjá mörgum (36-84%) TGA-sjúklingum á flæðismyndaröðum (diffusion weighted imaging, DWI).10 Enn fremur sjást þessar breytingar oftast á CA1-svæði drekans.6,11,12 CA1-svæði drekans er sérstaklega viðkvæmt fyrir efnaskiptaálagi (metabolic stress), eins og blóðþurrð og súrefnisskorti. Rannsóknir á dýrum hafa leitt í ljós að slíkt álag getur breytt losun og upptöku glútamats á svæði CA1. Þessar rannsóknir benda til tengsla milli vissra útleysandi þátta og efnaskiptasamvægis (metabolic homeostasis) drekans í meingerð TGA.11,13,14

Tímabundið minnisleysi hefur aldrei verið rannsakað áður á Íslandi. Var markmið þessarar rannsóknar að kortleggja heilkennið á höfuðborgarsvæðinu í gegnum komur á Landspítala, og kanna aldur, kynjahlutfall, samveikindi, útleysandi þætti, einkenni og greiningaraðferðir.

Efniviður og aðferðir

Rannsóknin var afturskyggn tilfellaröð sem náði yfir tímabilið frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2021 (12 ára tímabil). Þýðið náði til þeirra sem fengu greininguna Transient Global Amnesia (ICD G45.4) samkvæmt Alþjóðlegu flokkunarkerfi sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála 10 (International Classification of Diseases and Related Conditions 10, ICD 10) á Landspítala. Kennitölur voru fengnar hjá vísindarannsóknanefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala. Listinn samanstóð af 518 skráningum með greiningarkóðann G45.4, þar af var 81 skráning endurtekning á sama tilfelli. Til að teljast vera með staðfest TGA þurfti að uppfylla greiningarskilyrðin í töflu I. Möguleg TGA voru tilvik sem ekki vöktu grun um annað sjúkdómsástand, en klíníska birtingarmyndin var óhefðbundin eða að nákvæmari upplýsingar skorti í sjúkraskrá. Af þeim 437 skráningum sem eftir stóðu reyndust 296 tilvik vera staðfest TGA, 52 möguleg TGA og í 89 tilvikum reyndist um ranga greiningu að ræða (mynd 1). Af þeim sem höfðu fengið ranga greiningu voru 10 tilfelli metin sem flog, 5 sem mígreni og fjögur sem skammvinn blóðþurrðarköst í heila.

Mynd 1. Flæðirit yfir rannsóknarþýðið.

Upplýsingum var safnað úr sjúkraskrám í Sögukerfi og Heilsugátt Landspítala. Skráðar voru upplýsingar um kyn, aldur við greiningu, aðra heilsufarssögu einstaklings eins og háþrýsting, blóðfituröskun og sögu um vanvirkan skjaldkirtil, auk lyfjanotkunar. Sérstaklega voru skráðar upplýsingar um hvort einstaklingar hefðu sögu um mígreni, flog, blóðþurrð í heila eða fyrra TGA-kast. Skráðir voru útleysandi þættir sem flokkaðir voru í líkamlega áreynslu, andlegt álag, kynlíf, hitastigsbreytingar í vatni, sársauka, ferðalög og hósta- og uppköst. Einnig var skráð lýsing á almennum einkennum meðan TGA stóð yfir, blóðþrýstingur við komu á spítalann, hvort einstaklingur hefði farið í tölvusneiðmynd eða segulómskoðun, niðurstöður þeirra og hve langt var liðið frá einkennum að myndatöku.

Upplýsingum var safnað í Microsoft excel-skjal. Tölfræðiúrvinnsla og útreikningar voru framkvæmdir í RStudio, töflur voru gerðar í Microsoft Word, og gröf í RStudio. Notað var Fisher-tilgátupróf fyrir flokkabreytur en t-próf fyrir talnabreytur. Tölfræðileg marktækni var miðuð við p<0,05.

Tilskilin leyfi frá vísindarannsóknarnefnd heilbrigðisrannsókna á Landspítala og vísindasiðanefnd (VSN-21-235) lágu fyrir áður en rannsókn hófst.

 

Niðurstöður

Á rannsóknartímabilinu greindust 335 manns með staðfest eða mögulegt TGA. Tólf fengu fleiri en eitt kast á tímabilinu. Kynjaskipting var með allra jafnasta móti, þar sem í heild greindust 167 konur og 168 karlar. Að meðaltali greindust 29 köst af TGA á Landspítala á hverju ári (mynd 2).

Mynd 2. Fjöldi TGA-kasta eftir árum.

Tafla II sýnir greiningar eftir árstíðum og mánuðum. Fæstar greiningar voru í febrúar og maí (n=25), en flestar í apríl (n=37). Ekki var þó marktækur munur á fjölda greininga eftir mánuðum (p=0,912). Flest TGA-köst voru á vormánuðum (1. mars - 31. maí). Lítill munur var þó milli árstíða.

Í heild var meðalaldur 64,1 ár og helmingur einstaklinga var á aldrinum 58 til 71 árs og voru 88,7% einstaklinga á aldrinum 50-79 ára. Sá yngsti var 14 ára og sá elsti 91 árs. Ekki var munur milli kynja.

Yfirlit yfir samveikindi (comorbidities) og mögulega áhættuþætti má sjá í töflu III. Í heild voru 46,0% einstaklinga greindir með háþrýsting. Ef skoðað er eftir kyni voru 49,7% kvenna með háþrýsting (42,3% karla). Tíðni greinds háþrýstings jókst með hækkandi aldri (tafla III). Fleiri karlar voru með háar blóðfitur, eða 13,1% á móti 9,0% kvenna. Tvöfalt fleiri konur voru með mígreni, eða 13,2% á móti 6,5% karla. 12,6% kvenna voru með vanvirkan skjaldkirtil, en einungis 1,8% karla. Tveir karlar og tvær konur höfðu sögu um flogaveiki. Einungis tveir höfðu þekkta vitræna skerðingu við TGA-greiningu.

Yfirlit yfir mögulega útleysandi þætti má sjá í töflu IV. Í 187 af 348 (53,7%) tilvikum tókst að skrá mögulegan útleysandi þátt. Algengast var að einstaklingur hefði verið undir líkamlegri áreynslu skömmu fyrir upphaf einkenna (24,4%). Í þeim flokki voru flestir að stunda líkamsrækt. Tuttugu og einn einstaklingur var að sinna garðvinnu fyrir upphaf einkenna, og þar af 6 sem voru að saga niður tré. Undir annað féllu atvik eins og gæsaveiðar, berja ís með járnkarli, brjóta skorstein, vinna við pípulagnir, flísalögn, útreiðar og að keyra farartæki, svo sem mótorhjól og snjósleða. Þar á eftir voru 42 (12,1%) einstaklingar sem höfðu orðið fyrir hitastigsbreytingu í vatni. Tuttugu og sex (7,5%) voru undir einhverskonar andlegu álagi í aðdraganda TGA-kastsins. Dæmi um andlegt álag sem undanfari TGA kasts voru nýleg andlát í fjölskyldu, jarðarfarir, veikindi í fjölskyldu, skilnaðir og óvæntar eða slæmar fregnir. Fimmtán (4,3%) höfðu nýlega stundað kynlíf og 14 (4,0%) fengu minnisleysi í kjölfar uppkasta eða hóstakasts. Þrír (0,9%) einstaklingar fengu kastið í kjölfar sársauka og tveir (1,2%) verið í utanlandsflugi skömmu áður.

Eins og gefur að skilja sýndu allir sjúklingarnir einkenni um skyndilegt framvirkt minnisleysi og spurðu endurtekinna spurninga eða sögðu ítrekað það sama. Stór hluti einstaklinga hafði einnig afturvirkt minnisleysi. Algengast var að afturvirka minnisleysið næði aftur einhverja daga, en þó voru dæmi um að það næði aftur um nokkra mánuði og allt upp í nokkur ár. Ekki var óalgengt að einstaklingar lýstu einhverskonar óþægindum í höfði samhliða minnisleysinu. Algengast var að vægum höfuðverk eða seyðingi í höfði væri lýst. Einnig var lýst dofa yfir höfði og andliti, þrýstingstilfinningu, þyngslaverk, spennu í höfði án verkjar og hitatilfinningu í höfði. Önnur einkenni sem birtust stundum samhliða TGA voru svimi og væg ógleði. Hegðun á meðan TGA-kast stóð var mjög breytileg Margir tóku því með ró, aðrir voru mjög kvíðnir, einhverjir grétu, og aðrir reiddust ef upp kom að þeir mundu ekki eftir vissum atriðum.

Mynd 3. Áætluð tímalengd TGA-kasta.

Erfitt getur reynst að meta tímalengd TGA-kasta. Einungis tókst að áætla tímalengd í 75% tilvika. Í þeim tilvikum sem það tókst var meðallengd kastanna 3,62 klukkustundir, þar sem stysta kastið varði í um það bil 10 mínútur en það lengsta í 17 klukkustundir. Áætlaða tímalengd kasta má sjá á mynd 3. Helmingur TGA-kasta var á bilinu 1-5 klukkustundir að lengd.

Í 288 (82,8%) tilvikum voru einstaklingar með annaðhvort slagbilsþrýsting yfir 140 mmHg eða hlébilsþrýsting yfir 90 mmHg við komu (mynd 4). Meðalblóðþrýstingur var 159 mmHg/88 mmHg. Engin blóðþrýstingsmæling var skráð í 33 tilvika.

Mynd 4. Blóðþrýstingsmælingar TGA-sjúklinga við komu á Landspítala.

Í 96,0% tilvika voru sjúklingar sendir í tölvusneiðmynd, og í 36,2% tilvika í segulómskoðun. Eins og við mátti búast voru engar bráðar breytingar til staðar á tölvusneiðmyndum sem gátu útskýrt einkennin. Af þeim sem fóru í segulómskoðun mátti sjá flæðisskerðingu í og við dreka heilans hjá 10,3%. Breytingarnar sáust frá 0-5 dögum eftir upphaf einkenna, en algengast var að segulómskoðun einum degi eftir upphaf einkenna hafi sýnt slíka skerðingu. Sex einstaklingar voru með flæðisskerðingu í hægri dreka eða þar í kring, 5 vinstra megin og tveir beggja vegna.

Umræða

Í þessari afturskyggnu rannsókn var tíðni TGA á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2010-2021 skráð, ásamt aldri við greiningu, kyni, útleysandi þáttum, mögulegum áhættuþáttum, auk greiningaraðferða. Kynjaskipting var jöfn, meðalaldur var 64,1 ár við greiningu og var helmingur rannsóknarþýðisins á aldursbilinu 58-70 ára. Mögulegur útleysandi þáttur var skráður í 54% tilvika, þar sem líkamleg áreynsla var algengasti útleysandi þátturinn, og þar á eftir hitastigsbreyting í vatni. Engin augljós tengsl sáust milli áhættuþátta og TGA. Langflestir voru með hækkaðan blóðþrýsting við komu á spítala. Stærstur hluti var sendur í tölvusneiðmynd og rúmlega þriðjungur í segulómskoðun.

Á rannsóknartímabilinu greindust á Landspítala að meðaltali 29 köst af TGA á ári. Ef við miðum við fólksfjölda á höfuðborgarsvæðinu 1. janúar 2016,15 sem var 209.513, eru þetta um 13,8 tilvik á hverja 100.000 íbúa. Sú tíðni er áþekk en þó heldur hærri en niðurstöður annarra rannsókna (5-11 á hverja 100.000 íbúa).3,6 Þess ber þó að geta að hluti sjúklinga í okkar rannsókn var ekki búsettur á höfuðborgarsvæðinu og því ekki um nákvæmar faraldsfræðilegar tölur að ræða.

Ekki var marktækur munur á fjölda greininga eftir mánuðum. Til eru rannsóknir sem sýna vissan árstíðabundinn breytileika. Í ísraelskri rannsókn náði fjöldi greindra TGA-kasta hámarki að vetri og vori. Á Ítalíu voru flestar greiningar gerðar á köldustu mánuðum vetrar, og í pólskri rannsókn var hámarki náð að sumri og vori til.16-18 Kynjaskipting rannsóknarþýðis okkar var jöfn, sem samræmist öðrum erlendum rannsóknum sem hafa ekki sýnt fram á marktækan kynjamun.19 Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að stærstur hluti einstaklinga sem fá TGA séu á aldrinum 50-80 ára. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru í samræmi við það. Meðalaldur var 64,1 ± 10,3 ár.4,20 Spönn aldursdreifingar var þó frá 14 til 91 árs og því mikilvægt að hafa TGA-greiningu í huga á breiðu aldursbili.

Nokkrar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli tímabundins minnisleysis og mígrenis.21,22 Í okkar rannsókn voru 9,9% einstaklinga með sögu um mígreni, 13,2% kvenna og 6,5% karla. Þessar tölur benda ekki til augljósra tengsla milli mígrenis og TGA þar sem algengi mígrenis meðal fullorðinna í almennu þýði er 14,7-15,9%, 8-10,7% hjá körlum og 17,6-21% hjá konum.23

Í þessari rannsókn voru 1,2% einstaklinga með sögu um flog, en það er nálægt algengi flogaveiki (0,7-1,2%) í almennu þýði.24 Næstum helmingur sjúklinga var með þekktan háþrýsting við TGA-greiningu (46%), sem geta virst sláandi tölur. Ef þessar tölur eru skoðaðar út frá aldursflokkum þá voru 37% einstaklinga á aldrinum 50-59 ára, 43,8% 60-69 ára og 62,5% einstaklinga á aldrinum 70-79 ára með háþrýsting. Þegar þessar tölur eru bornar saman við rannsóknarniðurstöður á algengi háþrýstings, sést að algengi háþrýstings meðal einstaklinga á aldrinum 40-59 ára er 33,2% og hækkar í 63,1% hjá einstaklingum eldri en 60 ára. Þessar tölur benda því ekki til tengsla milli háþrýstings og TGA.25 Algengi heilablóðfalls í erlendu þýði hjá einstaklingum eldri en 60 ára er 7,6%, sem eru áþekk, þó aðeins lægri en 10,7% í þessari rannsókn.26 Erfitt er þó að fullyrða um orsakasamband.

Fjöldi skráðra mögulegra útleysandi þátta var 54%, sem helst í hendur við það sem fyrri rannsóknir hafa sýnt (28-89%).4,20 Áhuga vakti hve margir voru að vinna niður fyrir sig, svo sem að sinna garðvinnu, moka eða þrífa. Meðallengd kasta var 3,62 klukkustundir, sem er heldur styttri en í öðrum rannsóknum, þar sem meðallengd kasta er vanalega á bilinu 4-6 klukkustundir.4,7,27 Munurinn gæti skýrst af því að einungis var áætluð tímalengd í um 75% tilvika, og líklegra að það hafi þótt erfiðara að áætla tímalengd í lengri köstum. Einkenni samhliða minnisleysi voru í takt við það sem áður hefur verið lýst, svo sem vægur höfuðverkur, ógleði og svimi.28 Í þessari rannsókn höfðu 13,1% þýðisins sögu um fleiri en eitt TGA-kast, sem er í samræmi við endurkomu tíðni í öðrum rannsóknum, sem hafa sýnt fram á endurkomu hjá 3-24% einstaklinga.3

Af þeim sem fóru í segulómskoðun var hægt að greina flæðisskerðingu í dreka heilans hjá 13 (10,3%) einstaklingum, sem áður hefur verið lýst í rannsóknum. Sú tala er í samræmi við aðrar rannsóknir.19,20 Rannsóknir hafa þó sýnt að hægt er að sjá flæðisskerðingu hjá allt upp í 85% einstaklinga eftir TGA-kast, ef ómunin er framkvæmd á réttum tíma og með bestu mögulegu aðferðum.29

Styrkleikar og veikleikar
Þessi rannsókn er sú fyrsta hér á landi sem gefur yfirlit yfir greind tilvik af tímabundnu minnisleysi. Styrkleiki rannsóknarinnar liggur í því að ná yfir fremur langt tímabil, 12 ár, og náði rannsóknin þannig til margra tilvika af TGA. Leiða má líkur að því að flestir sem fá TGA-kast á höfuðborgarsvæðinu leiti á Landspítala, og þá sérstaklega á bráðamóttöku, þar sem ástandið getur vakið töluverðan ugg. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að einhver TGA-köst séu greind annars staðar en á spítalanum. Auk þess er ekki fullvíst að öll tilvik af TGA hafi verið réttilega skráð með viðeigandi ICD-10 greiningarkóða á Landspítala. Helsti veikleiki rannsóknarinnar er að hún er afturskyggn. Þar með fæst ónákvæmari skráning á þeim þáttum sem skoðaðir voru, en ef um framskyggna rannsókn væri að ræða. Auk þess var sjúkrasaga eingöngu könnuð í sjúkraskrárkerfi Landspítala (Sögu og Heilsugátt) og ekki er víst að allar greiningar, eins og á samveikindum eða áhættuþáttum, hafi verið skráðar þar.

Samantekt

Tímabundið minnisleysi er ekki óalgengt en góðkynja ástand sem mikilvægt er að læknar þekki. Það er ekki síst til að forða einstaklingum frá óþarfa rannsóknum. Ástandið birtist á nokkuð drama- tískan hátt og veldur sjúklingum og aðstandendum oft miklum áhyggjum, er því mikilvægt að læknar hafi vissa þekkingu á TGA og geti gert grein fyrir góðum horfum þess. Endurkomutíðni TGA er lág og ekki hefur tekist að sýna fram á auknar líkur á öðrum sjúkdómum. Þau sem greinast með TGA eru almennt frekar hraust fólk, á miðjum aldri og kynjahlutföll eru jöfn. Voru niðurstöður rannsóknarinnar í samræmi við erlendar niðurstöður. Ekki sáust augljós tengsl tímabundins minnisleysis við mígreni, flog né heilablóðþurrð. TGA er sérstakt heilkenni sem hefur enn óþekkta undirliggjandi orsök.

Heimildir

1. Mathew NT, Meyer JS. Pathogenesis and natural history of transient global amnesia. Stroke 1974; 5: 303-11.
https://doi.org/10.1161/01.STR.5.3.303
PMid:4836531
 
2. Pantoni L, Lamassa M, Inzitari D. Transient global amnesia: a review emphasizing pathogenic aspects. Acta Neurol Scand 2000;102: 275-83.
https://doi.org/10.1034/j.1600-0404.2000.102005275.x
PMid:11083503
 
3. Arena JE, Rabinstein AA. Transient global amnesia. Mayo Clin Proc 2015; 90: 264-72.
https://doi.org/10.1016/j.mayocp.2014.12.001
PMid:25659242
 
4. Quinette P, Guillery-Girard B, Dayan J, et al. What does transient global amnesia really mean? Review of the literature and thorough study of 142 cases. Brain 2006; 129 (Pt 7): 1640-58.
https://doi.org/10.1093/brain/awl105
PMid:16670178
 
5. Hodges JR, Warlow CP. Syndromes of transient amnesia: towards a classification. A study of 153 cases. J Neurol Neurosurg Psychiatry 1990; 53: 834-43.
https://doi.org/10.1136/jnnp.53.10.834
PMid:2266362 PMCid:PMC488242
 
6. Sander K, Sander D. New insights into transient global amnesia: recent imaging and clinical findings. Lancet Neurol 2005; 4: 437-44.
https://doi.org/10.1016/S1474-4422(05)70121-6
 
7. Koski KJ, Marttila RJ. Transient global a mnesia: incidence in an urban population. Acta Neurol Scand 1990; 81: 358-60.
https://doi.org/10.1111/j.1600-0404.1990.tb01571.x
PMid:2360405
 
8. Vann SD, Nelson AJ. The mammillary bodies and memory: more than a hippocampal relay. Prog Brain Res 2015; 219: 163-85.
https://doi.org/10.1016/bs.pbr.2015.03.006
PMid:26072239 PMCid:PMC4498492
 
9. Choi SH, Kim YB, Paek SH, et al. Papez Circuit Observed by in vivo Human Brain With 7.0T MRI Super-Resolution Track Density Imaging and Track Tracing. Front Neuroanat 2019; 13: 17.
https://doi.org/10.3389/fnana.2019.00017
PMid:30833891 PMCid:PMC6387901
 
10. Sedlaczek O, Hirsch JG, Grips E, et al. Detection of delayed focal MR changes in the lateral hippocampus in transient global amnesia. Neurology 2004; 62: 2165-70.
https://doi.org/10.1212/01.WNL.0000130504.88404.C9
PMid:15210876
 
11. Bartsch T, Alfke K, Stingele R, et al. Selective affection of hippocampal CA-1 neurons in patients with transient global amnesia without long-term sequelae. Brain 2006; 129 (Pt 11): 2874-84.
https://doi.org/10.1093/brain/awl248
PMid:17003071
 
12. Lee HY, Kim JH, Weon YC, et al. Diffusion-weighted imaging in transient global amnesia exposes the CA1 region of the hippocampus. Neuroradiology 2007; 49: 481-7.
https://doi.org/10.1007/s00234-007-0213-5
PMid:17522744
 
13. Kim JJ, Foy MR, Thompson RF. Behavioral stress modifies hippocampal plasticity through N-methyl-D-aspartate receptor activation. Proc Natl Acad Sci U S A 1996; 93: 4750-3.
https://doi.org/10.1073/pnas.93.10.4750
PMid:8643474 PMCid:PMC39350
 
14. Yang CH, Huang CC, Hsu KS. Behavioral stress enhances hippocampal CA1 long-term depression through the blockade of the glutamate uptake. J Neurosci 2005; 25: 4288-93.
https://doi.org/10.1523/JNEUROSCI.0406-05.2005
PMid:15858055 PMCid:PMC6725105
 
15. Hagstofa Íslands Mannfjöldi eftir þéttbýlisstöðum, kyni og aldri 2011-2019. px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Ibuar/Ibuar__mannfjoldi__2_byggdir__Byggdakjarnareldra/MAN03105.px/table/tableViewLayout1/?rxid=fc14cbc6-c609-4ec4-aa51-da7412f260a1 - júní 2022.
 
16. Keret O, Lev N, Shochat T, et al. Seasonal Changes in the Incidence of Transient Global Amnesia. J Clin Neurol 2016; 12: 403-6.
https://doi.org/10.3988/jcn.2016.12.4.403
PMid:27095523 PMCid:PMC5063864
 
17. Akkawi NM, Agosti C, Grassi M, et al. Weather conditions and transient global amnesia. A six-year study. J Neurol 2006; 253: 194-8.
https://doi.org/10.1007/s00415-005-0952-3
PMid:16133724
 
18. Chojdak-Łukasiewicz J, Dziadkowiak E, Noga L, et al. Seasonal variations in the occurrence of transient global amnesia (TGA). Neurol Neurochir Pol 2019; 53: 212-6.
https://doi.org/10.5603/PJNNS.a2019.0021
PMid:31162624
 
19. Alessandro L, Calandri IL, Suarez MF, et al. Transient global amnesia: clinical features and prognostic factors suggesting recurrence. Arq Neuropsiquiatr 2019; 77: 3-9.
https://doi.org/10.1590/0004-282x20180157
PMid:30758436
 
20. Arena JE, Brown RD, Mandrekar J, et al. Long-Term Outcome in Patients With Transient Global Amnesia: A Population-Based Study. Mayo Clin Proc 2017; 92: 399-405.
https://doi.org/10.1016/j.mayocp.2016.11.015
PMid:28185658 PMCid:PMC5682935
 
21. Yi M, Sherzai AZ, Ani C, et al. Strong Association Between Migraine and Transient Global Amnesia: A National Inpatient Sample Analysis. J Neuropsychiatry Clin Neurosci 2019; 31: 43-8.
https://doi.org/10.1176/appi.neuropsych.17120353
PMid:30305003
 
22. Olesen J, Jørgensen MB. Leao's spreading depression in the hippocampus explains transient global amnesia. A hypothesis. Acta Neurol Scand 1986; 73: 219-20.
https://doi.org/10.1111/j.1600-0404.1986.tb03267.x
PMid:3705931
 
23. Stovner LJ, Andree C. Prevalence of headache in Europe: a review for the Eurolight project. J Headache Pain 2010; 11: 289-99.
https://doi.org/10.1007/s10194-010-0217-0
PMid:20473702 PMCid:PMC2917556
 
24. Zack MM, Kobau R. National and State Estimates of the Numbers of Adults and Children with Active Epilepsy - United States, 2015. MMWR Morb Mortal Wkly Rep 2017; 66: 821-5.
https://doi.org/10.15585/mmwr.mm6631a1
PMid:28796763 PMCid:PMC5687788
 
25. Fryar CD, Ostchega Y, Hales CM, et al. Hypertension Prevalence and Control Among Adults: United States, 2015-2016. NCHS Data Brief 2017; 289: 1-8.
 
26. Teh WL, Abdin E, Vaingankar JA, et al. Prevalence of stroke, risk factors, disability and care needs in older adults in Singapore: results from the WiSE study. BMJ Open 2018; 8: e020285.
https://doi.org/10.1136/bmjopen-2017-020285
PMid:29599393 PMCid:PMC5875611
 
27. Hodges JR, Warlow CP. The aetiology of transient global amnesia. A case-control study of 114 cases with prospective follow-up. Brain 1990; 113 ( Pt 3): 639-57.
https://doi.org/10.1093/brain/113.3.639
PMid:2194627
 
28. Spiegel DR, Smith J, Wade RR, et al. Transient global amnesia: current perspectives. Neuropsychiatr Dis Treat 2017; 13: 2691-703.
https://doi.org/10.2147/NDT.S130710
PMid:29123402 PMCid:PMC5661450
 
29. Weon YC, Kim JH, Lee JS, et al. Optimal diffusion-weighted imaging protocol for lesion detection in transient global amnesia. AJNR Am J Neuroradiol 2008; 29: 1324-8.
https://doi.org/10.3174/ajnr.A1105
PMid:18451087 PMCid:PMC8119159

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica