11. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

„Spítalinn er á hliðinni“ - það er mat Sigurveigar Pétursdóttur læknis

„Ástandið hefur aldrei verið neitt í líkingu við það sem það er núna,“ sagði Sigurveig Pétursdóttir barnabæklunarlæknir við Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélagsins sem fram fór 14. október síðastliðinn. Læknar viðruðu áhyggjur sínar við ráðherrann af stöðu heilbrigðiskerfisins, skorti á mannafla og bágri framkomu við starfsfólk

„Ég kem börnunum ekki í aðgerð innan ásættanlegs tímaramma,“ sagði Sigurveig Pétursdóttir og benti heilbrigðisráðherra á að hún, sem er nú 64 ára, hefði unnið sem læknir í 38 ár og barnabæklunarlæknir í 30 ár og unnið með fötluð börn. Ástandið hefði ekki verið verra.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hlustaði á áhyggjur lækna á aðalfundinum og sagðist ætla að gera sitt allra besta í starfi. Mynd/gag

„Ég er með börn sem hafa beðið í ár. Fatlað barn sem gengur með annan fótinn skakkan í ár af því að það er ekki pláss á skurðstofunni. Af hverju er ekki pláss? Jú, af því að starfsfólkið hættir. Þetta er ekki spurning um að það hafi ekki verið starfsfólk. Það hætti. Spítalinn er á hliðinni,“ lýsti Sigurveig. „Hann er á hliðinni núna. Hann er ekki að fara á hliðina á morgun. Þetta gerðist ekki í gær.“

Sigurveig sagði allt tal um að skoða og gera frekari greiningar óviðunandi. „Ég hef heyrt þetta 100 sinnum á ævinni en ástandið hefur aldrei verið eins og núna,“ sagði hún úr sal. Læknum sé enginn greiði gerður með því að fá klapp á bakið. „Mér er enginn akkur í að heyra að ég hafi verið svo dugleg í gegnum COVID, hafi ekki misst úr dag.“ Hún vilji ekki hrós fyrir að eiga 1200 ógreidda tíma því hún fari aldrei heim og fái þá ekki greidda.

„Ég er á hnjánum. Ég er að gefast upp og ég er ekki manneskja sem gefst upp í fyrsta kasti og það er enginn að fara í fótspor mín. Enginn!“ sagði hún og benti á læknaskortinn.

Aðalfundurinn skoraði á stjórnvöld að hlíta þjóðarvilja og auka framlög til heilbrigðismála. Fundarmenn lýstu yfir vonbrigðum með fjárlagafrumvarp næsta árs, skoruðu á allar heilbrigðisstofnanir að tryggja öryggi starfsfólks síns. Grípa þyrfti til aðgerða vegna heilsubrests lækna og vaxandi brotthvarfs þeirra af vinnumarkaði. Sigurveig sagði margt heilbrigðisstarfsfólk á sama stað og hún.

„Það þarf að skoða framkomu við starfsfólk. Það þarf að skoða það að staðið sé við kjarasamninga og hætta að túlka þá eins og vinnuveitandanum sýnist og bregðast trausti,“ sagði þessi fyrrum formaður kjarasamninganefndar lækna við ráðherrann sem gaf færi á umræðum eftir ræðu sína á aðalfundinum. Hún gagnrýndi álagsgreiðslur í takmarkaðan tíma um leið og horft væri fram hjá öðrum hlutum kjarasamningsins.

„Það sem sagt er hefur meira og minna verið svikið og ég geri ráð fyrir að eins hafi verið komið fram við hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Sú vanlíðan og þær uppsagnir sem hafa verið á skurðstofu eru hræðilegar,“ sagði Sigurveig.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í einlægu samtali við lækna að engum einum aðila, þó að hann sé ráðherra, takist að leysa málið. Hann kallaði eftir ráðum svo þjónusta mætti börnin. Staðan væri orðin alvarleg þegar fólki þætti óþægilegt að taka hrósi. Á fundinum lagði ráðherra áherslu á að fylgja þyrfti samningum.

Lesa má meira um samtalið við heilbrigðisráðherra á síðum 516-519.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica