10. tbl. 108. árg. 2022

Ritstjórnargrein

Heilsuvera – aðgangur opinn allan sólarhringinn! Oddur Steinarsson

Oddur Steinarsson|sérfræðingur í heimilislækningum | Heilsugæslunni Kirkjusandi |Hallgerðargötu 13 | 105 Reykjavík |varaformaður LÍ og FÍH

doi 10.17992/lbl.2022.10.708

Framþróun í tölvutækni hefur bæði sínar góðu og slæmu hliðar. Heilsuveran er orðin stór hluti af daglegri vinnu okkar heimilislækna, en tekur núorðið einnig yfir hluta einkalífs margra. Heilsuveran var þróuð til að einfalda samskipti og bæta þjónustu. Þar er nú meðal annars hægt að endurnýja lyfseðla, bóka tíma og senda skilaboð. Endurnýjun lyfseðla er fljótlegri og starfsmenn heilsugæslustöðva þurfa ekki lengur að handfylla inn í seðla þegar skjólstæðingur hefur samband, heldur er sjálfvirknin tekin yfir og síðasta greining tengd seðlinum. Þetta einfaldar vissulega vinnuna, en fljótfærnisvillur aukast. Færri eiga sífellt að gera meira og framleiðnin á að alltaf að aukast. Þegar sjálfvirknin sér um málin getur sú verið raunin, en þegar okkur er ætlað að svara erindunum beint, eykst vinnuálagið. Sum okkar fá tugi skilaboða á dag ofan á fulla móttöku og símatíma. Í stöðugri undirmönnun og aukinni eftirspurn er vinnuálagið orðið slíkt að mörg okkar hugsa reglulega um að hætta samkvæmt nýlegri könnun Félags íslenskra heimilislækna. Ónefndur aðili tengdur þróun Heilsuveru lét hafa það eftir sér nýverið að kerfið væri algjör snilld, því læknar hefðu svo mikla ábyrgðartilfinningu að þeir sætu oft á kvöldin og um helgar að svara þessu. Skjólstæðingar geta sent skilaboð allan sólarhringinn, alla daga ársins.

Dæmi um skilaboð geta verið: - ég vil fara í maga- og ristilspeglun, - á ég að fá mér hund, - sæl vinan, hvaða sjampói mælir þú með, - ég er svo þreyttur að ég vil fara í blóðprufu fyrir öllu, - ég er með brjóstverk og finnst þungt að anda, - þú ert svo lélegur að svara skilaboðum að ég ætla að finna mér annan lækni, - getur þú komið mér í liðskipti til Svíþjóðar.

Fyrirspurnum um niðurstöður úr rannsóknum á Landspítala rignir einnig yfir okkur og nýlegt dæmi er um mál hjá Embætti landlæknis þar sem kvartað var yfir heimilislækni fyrir að fylgja ekki eftir rannsóknum frá Landspítala. Það eina sem sá læknir gerði var að svara í Heilsuveru hvað hefði komið út úr sýni á spítalanum sem hann hélt að væri í farvegi. Ekki hans sjúklingur, hafði ekki séð viðkomandi, ekki pantað prufur og ekki fengið nein skilaboð um að fylgja málinu eftir. Ekki stafur sendur á viðkomandi heilsugæslu um eftirfylgd eða yfirhöfuð um málið.

Hvaða afleiðingar hefur óheft þróun þessa? Ég svara stundum skilaboðum á kvöldin og um helgar, meðal annars til þess að ég komist heim fyrir kvöldmat daginn eftir. Sama á við um fjölmarga kollega mína. Að auki fæ ég eina eða fleiri fyrirspurnir í hverri viku, í tölvupóstum, á messenger og á förnum vegi, hvort ég geti orðið heimilislæknir viðkomandi. Þetta hefur aukist mjög undanfarið, en ég tel þetta ekki vott um eigið ágæti, heldur vaxandi skort á heimilislæknum og aðgengi að heilbrigðisþjónustunni í heild sinni. Hugsunin um að hætta þegar vinnan flæðir yfir eðlileg mörk leitar á lækna. Margir velta fyrir sér að vera ekki í fastri vinnu heldur vinna viku og viku á Hólmavík, Hornafirði, í Noregi eða Svíþjóð. Flýja og vera frjáls vikurnar sem við erum ekki í vinnunni, vera meira til staðar fyrir okkar nánustu.

Stóra uppsögnin er alþjóðleg ógn við stöðugleika á vinnumarkaði, þar sem fleiri og fleiri kjósa frelsið sem því fylgir að vera ekki í fastri vinnu. Sú ógn hefur raungerst í heilsugæslunni á undanförnum árum þar sem stór hluti heilsugæslu í landinu er ekki með fasta mönnun lengur og víða þjónustuð af leigulæknum. Að læknar flýi samlög sín í auknum mæli mun raungerast ef álagið eykst áfram. Í dag erum við með hlutfallslega lægstu mönnun heimilislækna á Norðurlöndunum og sjáum ekki í land með bætta mönnun á næstunni þar sem stór hópur fer á eftirlaun á næstu 10 árum.

Heilsuveruna verður að endurskoða og afmarka. Styðja þarf betur við þá lækna sem eru til staðar í dag og spyrja hvort takmörkuðum tíma okkar sé vel varið í þessi samskipti? Hvað með aldraða og aðra sem geta ekki notfært sér tæknina? Sá hópur þarf ekki síður á þjónustu okkar að halda að mínu mati. Að skipuleggja þjónustuna betur hefur aldrei verið meira aðkallandi og að þjónustan verði með það að markmiði að nýtast þeim sem helst þurfa á henni að halda.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica