09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Bréf til blaðsins. Um banamein Hallberu Snorradóttur Sturlusonar. Reynir Tómas Geirsson skrifar

Á Læknadögum 23. mars síðastliðinn var skemmtilegt málþing um nokkur bráðatilvik og andlát á söguöld og á miðöldum á Íslandi. Óttar Guðmundsson læknir stýrði röggsamlega umræðum þar sem eitt tilvikið varðaði konu úr frændgarði hans, það er að segja Hallberu Snorradóttur Sturlusonar frá Reykholti. Hallbera var eldra systkinið af tveimur skilgetnum börnum Snorra, sem hann átti með Herdísi Bessadóttur frá Borg á Mýrum, fyrstu konu sinni. Snorri átti nokkur börn að auki með seinni konu sinni, hjákonum og frillum. Hallbera fæddist árið 1200 eða 1201 og dó 30-31 árs gömul.1,2

Leg og eggjaleiðarar (Fallopian tube) þar sem annar er eðlilegur útlits, en hinn þaninn af bólgu og graftrarmyndun (tuboovarial abscess). Oftast sýkjast báðir eggjaleiðarar, fremur en aðeins annar, og endar þeirra ásamt eggjastokkum liggja saman í grindarholi aftan við legið þar sem myndast misstór bólguhella í enda eggjaleiðaranna og umhverfis eggjastokk(a). Mynd/KJK hospital.

Hallbera var 17 ára gömul gefin Árna Magnússyni í Brautarholti á Kjalarnesi sem hafði viðurnefnið „óreiða“, en skildi við karl þennan 7 árum seinna. Árni var nokkru eldri. Eflaust hefur þetta ekki verið auðvelt fyrir unga konu, enda fór hún frá honum 24 ára gömul og heim í föðurhúsin. Stuttu seinna, eða um 26 ára aldur, var hún gefin Kolbeini Arnórsyni (Tumasonar) sem var bara 19 ára. Árið 1229 var auðsjáanlegt á Alþingi að henni „firrðist heilsa“. Hún var orðin verri ásýndar og heilsuveil. Sambúðin við Kolbein entist ekki nema árið og ást var ekki heldur til að dreifa þar. Hann var kominn í lið fjandmanna föður hennar, fór heim af þinginu og skeytti ekki um hana, jafnvel ekki þegar hún kom norður í land. Loks fór svo að ungu veiku konunni, sem ekki hafði átt börn með eiginmönnum sínum, var komið heim til mömmu að Borg á Mýrum.

Tæpum tveimur árum seinna var Guðmundur góði, biskup Arason, í heimsókn á svæðinu. Þar sem hann þótti hafa læknisgáfur var leitað til hans vegna Hallberu sem þá var orðin mun veikari. Hann færðist undan, enda sennilega ekki vanur líkamsskoðun kvenna, eins skírlífur og hann var. Guðmundur benti á aðstoðarlækni sinn, prest að nafni Dálkur. Sá ráðlagði eins heitt bað og hún þyldi. Strax eftir baðið var hún sveipuð klæðum og leið eflaust hörmulega. Þá „sló að henni verkjum fyrir brjóstið“ og hún „andaðisk litlu síðar“.

Á málþinginu vaknaði spurningin um dánarorsök Hallberu. Sigurður Samúelsson taldi hana hafa fengið hjartabilun eða verið með krónískan hjartasjúkdóm og lungnabjúg í lokin, kannski vegna míturlokuskaða (stenósu) af völdum streptó-kokkasýkingar á ungum aldri.3 Ég leyfði mér að varpa fram annarri tilgátu.

Árni óreiða var sennilega eins og aðrir höfðingjar þessara tíma frekur til kvenna. Hann gæti hafa haft margar konur. Lekandi eða klamýdía voru eflaust til á Íslandi eins og annars staðar. Árni gæti hafa smitað ungu konuna sína, sem í kjölfar slitróttra, ástsnauðra og kannski ofbeldisfullra samskipta við mann sinn fékk leghols- og eggjaleiðarabólgu (salpingitis). Aðrar súrefnisþyrstar (aerob) og súrefnisfælnar (anaerob) bakteríur fylgja í kjölfarið í innri kynsjúkdómasýkingum og bæta í veikindin og langvinna kviðverki. Eggjaleiðarinn getur lokast í báða enda og fyllst vökva (hydrosalpinx) og valdið langvinnum verkjum og blæðingatruflunum. Ófrjósemi fylgir. Verra næringarástand hinnar verkjuðu ungu konu leiddi af sér vaxandi blóðleysi. Kolbeinn var eflaust fjöllyndur og gæti einnig hafa smitað hana. Lekandi getur valdið hjartaþelsbólgu (endocarditis) með máttleysi og þreytu – þekktum fylgikvillum lekandasýkingar.4 Báðir, og þó einkum Árni, gætu hafa haft bólgur í þvagrás og blöðruhálskirtli (prostatitis, urethritis) og sýkingu í sáðblöðrum. Þetta gæti loks hafa breyst í viðvarandi sýkingu í grindarholi Hallberu með graftrarsöfnun í eggjaleiðara og við eggjastokka (pyosalpingx, tubo-ovarial abscess), sem ásamt hjartaþelsbólgu og kannski gömlum míturlokaskaða gerði hana máttlitla og stöðugt veikari. Aðstæður kjörnar fyrir aukna blóðstorkutilhneigingu og lungnablóðrek. Ofurheitt bað ríður henni að fullu, hún fær lungnablóðrek (pulmonary thrombus) sem drepur hana rétt þrítuga. Þetta er ekki verri tilgáta en skýring Sigurðar. Auðvelt er að skynja óhamingju og vont líf ungrar konu sem í hagnaðarskyni var „gefin“ tveimur fautum með kynsjúkdóm(a).

Heimildir

 

1. Þórðarson S. Sturlunga saga II og III. Björn Bjarnason bjó til prentunar 1908. Félagsprentsmiðjan, Reykjavík 1945.
 
2. Guðmundsson Ó. Snorri - Ævisaga Snorra Sturlusonar 1179-1241. JPV útgáfa, Reykjavík 2009.
 
3. Samúelsson S. Sjúkdómar og dánarmein íslenskra fornmanna. Háskólaútgáfan, Reykjavík 1998: 54-5.
 
4. en.wikipedia.org/wiki/Gonorrhea - maí 2022.

 

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica