09. tbl. 108. árg. 2022

Umræða og fréttir

Opna nýja þjónustu fyrir konur í heilsugæslunni, Erla Gerður Sveinsdóttir stýrir henni

„Vísbendingar eru um að kulnunareinkenni sem koma fram á breytingaskeiði kvenna geti að stórum hluta tengst hormónabreytingum,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og lýðheilsufræðingur

„Sjúkdómum sem sérstaklega hrjá konur hefur ekki verið gefinn nægilega mikill gaumur innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Erla Gerður, yfirlæknir kvenheilsuteymis innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Bragarbót verði nú gerð á því. „Við konur erum með stórt flókið kerfi sem hefur áhrif á alla heilsu okkar. Því þarf að sinna betur.“ Hún nefnir breytingaskeiðið. Þær konur sem fái nú þegar hjálp fái góða þjónustu en því miður fái allt of margar þeirra enga hjálp.

„Dæmi eru einnig um að konur séu í þunglyndismeðferð sem þyrfti ekki væri hormónaflæðið lagað,“ segir Erla Gerður. Draga megi úr líkum á sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, fái konur viðeigandi meðhöndlun. Nýtt kvenheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins opnar nú þjónustu sína á haustdögum í Þönglabakka.

Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og  lýðheilsufræðingur. Mynd/gag

Ákvörðun um móttökuna var tekin í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur og vann Erla Gerður að lokaundirbúningi húsnæðisins þegar Læknablaðið ræddi við hana. Fimm stofur verða nýttar í þjónustuna. Hún segir að nýtt þjónustumódel hafi verið tekið upp til að nýta megi sem allra best 45 milljón króna árlegt fjárframlag ríkisins til miðstöðvarinnar.

„Við munum veita 2. stigs heilbrigðis-þjónustu, sem þýðir að konum verður vísað til okkar úr heilsugæslunni. Fyrsta skrefið er að koma til okkar í hópfræðslu, allt að 15 í einu, áður en einstaklingsviðtöl fara fram. Konur eru þannig betur upplýstar um hvaða meðferðarkostir eru í boði og einstaklingsviðtölin nýtast þeim þá betur,“ segir hún.

Erla Gerður segir að með hópfræðslu takist að þjónusta fjölda kvenna. Áherslan verði á fjóra málaflokka. Auk breytingaskeiðsins eigi að bæta þjónustu um getnaðarvarnir. „Hér verða ljósmæður og hjúkrunarfræðingar sem veita ráðgjöf um getnaðarvarnir og setja upp lykkjur og stafi.“

Þriðji áherslupunkturinn snúi að sérstökum sjúkdómum kvenna. „Það er breiður flokkur. Við byrjum því á konum með fjölblöðrueggjastokkaheilkenni,“ segir hún. Heilkennið hafi áhrif á svo marga þætti heilsunnar og séu hormónatengd. „Eins sjúkdóminn fitubjúg (lipoedema), sem truflar heilsu og lífsgæði fjölda kvenna en hefur verið gríðarlega lítið sinnt.“

Fjórði flokkurinn sé hópfræðsla og ráðgjöf vegna afleiðinga áfalla og ofbeldis. „Við viljum með því bæta lífsgæði þeirra og varpa ljósi á tengsl áfalla og heilsuvanda sem getur komið fram löngu eftir áföllin,“ segir hún. „Það er nýlunda að veita einstaklingum með langvinna sjúkdóma 2. stigs þjónustu innan heilsugæslunnar.“ Geðheilsuteymi hafi verið ein á því stigi fram til þessa.

Þrjár konur hafa staðið að undirbúningi móttökunnar, Sólrún Ólína Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri, og Steinunn Zophoníasdóttir ljósmóðir, auk Erlu sjálfrar. Hanna Lilja Oddgeirsdóttir, sérnámslæknir í kvensjúkdómum, vann svo með hópnum á fyrstu stigum. Allar í hlutastörfum. Fleiri munu bætast í hópinn, þeirra á meðal Sigrún Hjartardóttir kvensjúkdómalæknir.

„Móttakan mun bæta þjónustuna við konur,“ segir Erla Gerður að lokum.


Hjálpa konum með fitubjúg

„Lítil þekking er á sjúkdómnum fitubjúg. Honum er oft ruglað saman við offitu,“ segir Erla Gerður Sveinsdóttir heimilislæknir sem hefur lagt áherslu á offitu í störfum sínum. Hún segir fitubjúg algengan en misalvarlegan. „Þetta er sjúkdómur sem herjar eingöngu á konur og er hormónatengdur.“

Erla Gerður segir að fitubjúg bundinn í erfðir. Verði breytingar á hormónabúskap, eins og við kynþroska, meðgöngu, breytingaskeið, sem og við inngrip með hormónum eins og pillunni, safni líkaminn upp fituvef á ójafnan máta.

„Þessi sjúkdómur veldur oft mikilli sálarangist og getur orðið undirrót erfiðs sambands við mat,“ segir hún. „Sjúkdómnum er oft ruglað saman við vefjagigt enda eru útbreiddir og illa útskýranlegir verkir oft hluti af sjúkdómnum.“

Erla Gerður segir ekki auðvelt að meðhöndla sjúkdóminn en ýmislegt megi gera til að minnka bjúgsöfnun og bólgumyndun. „En þegar sjúkdómurinn er kominn á alvarlegt stig getur verið nauðsynlegt að fara í aðgerð.“

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica